Höfundurinn og grínistinn, Jón Gnarr, stendur með lögreglufólki sem hann segir að eigi skilið virðingu og tillitsemi. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu Jóns þar sem hann greinir frá samræðum sínum við son sinn, Jón, um störf lögreglunnar.
„Við feðgarnir áttum ágætis spjall í dag um lögguna. Ungir menn þróa stundum með sér attitjút gagnvart lögreglunni og reyna að ögra lögregluþjónum eða jafnvel sýna þeim dónaskap. Nonni minn er auðvitað ekki svoleiðis en hann hafði orðið vitni að slíku.“
Jón segir að þarna hafi einnig skapast gott tækifæri til að segja syninum frá afa sínum, Kristni Óskarssyni, sem var lögreglumaður í 40 ár. „Sem sonur lögreglumanns þá veit ég að starf lögreglunnar er bæði krefjandi og erfitt. Og vanþakklátt,“ segir Jón og bætir við að það góða starf, sem lögreglan gegnir á hverjum einasta degi, eigi það til að gleymast hratt. „En öll mistök, tala nú ekki um afglöp, gleymast aldrei.“
Í gegnum lífið hefur Jón ítrekað þurft að eiga samskipti við lögregluna. „Bæði sem vandræðaunglingur, skotvopnaeigandi, grínisti, bílstjóri, almennur borgari og borgarstjóri.“ Samskiptin hafi ekki alltaf verið ánægjuleg og Jón ekki alltaf sáttur með afskipti lögreglunnar. „En þegar ég hef þurft á henni að halda hef ég verið ofsalega feginn og þakklátur.“
Flest er lögreglufólk bara venjulegir einstaklingar sem er stillt upp í aðstæður sem enginn getur búið sig undir. Þau „sjá og upplifa reglulega ömurlega hluti sem við sjálf gætum ekki hugsað okkur að upplifa á ævinni.“
„Lögreglan lifir og hrærist í myrkasta hluta mannlífs okkar. Og það er oft sá hluti af lífi okkar sem við sjálf viljum minnst kannast við.“
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og það fólk sem innan hennar starfar, á að sögn Jóns, skilið virðingu okkar og tillitsemi.
„Við eigum að hjálpast við að láta löggunum okkar líða vel því það munum við fá margfalt til baka ef að þær aðstæður skapast að við þurfum á hjálp lögreglunnar að halda. Respect the police„