Karlmaður á þrítugsaldri var dæmdur í 18 mánaða fangelsi á mánudaginn fyrir ofbeldi, hótanir, húsbrot og fíkniefnalagabrot. Brotin áttu sér stað í Vestmannaeyjum.
Manninum var gert að sök að hafa ráðist að öðrum með hamri í mars 2017. Brotaþoli lýsti atvikum sem svo að ákærði hefði ruðst inn í íbúð hans á meðan hann svaf.
„Kvað brotaþoli ákræða hafa verið ógnvekjandi og mjög reiðan þegar hann hafi komið inn í íbúðina með klaufhamar með tréskafti í hendi. Kvaðst brotaþoli hafa vaknað við það þegar ákærði hafi ruðst inn í íbúðina, ráðist að honum og slegið hann með hamri. “
Sama dag sendi ákærði ítrekað ógnvekjandi skilaboð til annars aðila, þar sem hann hótaði viðkomandi og móður hans. Hótanirnar eru tilgreindar í dóminum:
Næsta brot átti sér stað næstum ári síðar, en þá réðst ákærði í heimildarleysi inn í hús annars manns og veittist að honum.
„Hann hafi setið upp í rúmi heima hjá sér þegar ákærði hafi komið óboðinn og án heimildar inn í íbúðina og ráðist á sig, en umrætt sinn hafi brotaþoli verið einn heima. Íbúðin hafi verið ólæst og kvaðst brotaþoli ekki hafa tekið eftir ákærða fyrr en hann hafi verið sestur á rúmið.“
Ákærði sló húsráðanda ítrekað með krepptum hnefa og tók hann hálstaki. Þolandinn hlaut af áverka í andliti, glóðarauga, mar á brjósti og eymsli víða.
Síðan í mars á þessu ári endurtók ákærði leikinn og ruddist inn á heimili enn annars manns og barði hann í andlitið, sem og stal af honum fartölvu, hleðslutæki og hátalara.
Einnig var hann tekinn í Herjólfi með kannbis á sér, og eitt sinn tekinn með 48 sentimetra langt sverð.
Við ákvörðun refsingar rakti dómari langan brotaferil mannsins allt frá árinu 2012. Hann hefur margoft verið dæmdur fyrir líkamsárásir, hótanir, eignaspjöll, ávana- og fíkniefnabrot. Í ljósi brotaferils þótti dómara ekki rétt að skilorðsbinda refsinguna að fullu eða að hluta. Til frádráttar kemur þó gæsluvarðhald sem maðurinn hefur sætt síðan í mars síðastliðnum.
Sjá einnig:
Stjórnlaus ofbeldismaður í Eyjum: Gómaður eftir að hafa barið þrjá