Björgunarsveitinni í Dalvík barst útkall á fimmta tímanum í dag vegna konu sem hafði komið sér í ógöngur á svæðinu rétt ofan við Dalvík.
Konan lagði af stað í göngu fyrir hádegi í dag og er hópur björgunarsveitarfólks mættur á leitarsvæðið samkvæmt tilkynningu frá Landsbjörgu. Hópurinn reynir að staðsetja konuna með dróna þar sem hún gat ekki gefið nákvæma staðsetningu.
Í tilkynningunni kemur fram að drónar hafi áður reynst vel í leit að göngufólki.
Uppfært kl. 20.39:
Konan sem björgunarsveit í Dalvík leitaði að fannst um sex í kvöld, heil á húfi. Þetta kemur fram í frétt mbl.is.