fbpx
Laugardagur 23.ágúst 2025
Fréttir

Þrír hælisleitendur fluttir úr landi í dag: „Það er rassía í gangi“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 5. júní 2019 16:38

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Að sögn samstöðuhópsins „Ekki fleiri brottvísanir“ hafa þrír hælisleitendur sem beitt hafa sér í réttindabaráttu hælisleitenda undanfarna mánuði, meðal annars með mótmælafundum á Austurvelli og uppákomum á málefnafundum Sjálfstæðisflokksins, verið sendir úr landi.

Þeir heita Ali Alameri, Mohsen Parnian og Milad. Vitað var að allir mennirnir voru handteknir til brottvísunar í gær og fyrradag. Ali Alameri er lögfræðingur frá Írak en hann kom við sögu í uppákomu sem varð í Salnum í Kópavogi í vor þegar nokkrir hælisleitendur reyndu að vekja athygli á málstað sínum á fundi Sjálfstæðisflokksins um Orkupakka 3. Starfsmenn á fundinum sem sögðust vera lögreglumenn, en eru það ekki, lentu þá í átökum við Ali og félaga hans. Ali kærði annan mannanna og er kæran til meðferðar hjá lögreglu. Samkvæmt samstöðuhópnum hefur Ali hins vegar verið sendur úr landi, til flóttamannabúða í Grikklandi. Sjá nánar hér

Ekki hefur náðst í Útlendingastofnun eða Ríkislögreglustjóra vegna málsins en skrifstofur beggja embætta loka snemma.

Mohsen Parnian á nokkuð sérstakan bakgrunn, eins og DV hefur greint frá áður. Hann er frá Íran en sonur hans rak bakarí í Danmörku sem komst í fréttir vegna árásar glæpahóps. Mohsen var síðan vísað frá Danmörku til Ítalíu þar sem hann er sagður hafa dvalarleyfi. Haukur Már Helgason, rithöfundur og blaðamaður sem hefur látið sig baráttu hælisleitenda varða, segir um þá Mohsen og Ali:

„Mohsen hefur barist fyrir rétti sínum gagnvart kerfinu um langa hríð, örvæntingarfullur. Í þeirri baráttu varð meðal annars ljóst að honum hafði verið neitað um fæðispeninga um tveggja mánaða skeið, þúsundkallana sem umsækjendum um vernd er ætlað að lifa á – hann þurfti að fara í hungurverkfall til að fá það leiðrétt. Hinn, Ali, hefur tekið þátt í baráttu fyrir rétti flóttafólks í breiðu samhengi undanfarna mánuði, leikið lykilhlutverk, að mér skilst, í að skapa þá langvinnu og þrautseigu samstöðu sem sést hefur í röð friðsælla mótmælaaðgerða frá því í vetur. Stjórnvöld eru auðvitað þrautseig líka, gefa sig ekki auðveldlega, og hafa enn ekki veitt mótmælendum áheyrn.“

Hvorki DV né Haukur vita deili á þriðja manninum, Milad. „Hann er í flugvél á leið frá Þýskalandi til Grikklands núna,“ sagði málsvari samstöðuhópsins við DV fyrir stundu, en hópurinn telur aðstæður flóttamanna í Grikklandi ekki vera boðlegar. Þar séu hælisleitendur á barnsaldri seldir í vændi til að framleyta sér. Efnahagsástand í landinu sé hörmulegt og mafíur hagnýti sér ástandið til að selja fölsuð vegabréf. Ekki geti hælisleitendur flúið ástandið, þeir séu fastir í Grikklandi því helstu landamærum sé lokað með gaddavír og fólki haldið frá með táragasi.

„Það er rassía í gangi,“ segir Haukur í samtali við DV og telur hann að reynt sé að flytja hælisleitendur frá landinu með sem mestri leynd.

Haukur reyndi í morgun að verða vitni að brottvísunum á Keflavíkurflugvelli en greip í tómt og engar upplýsingar var að hafa:

„Ég hélt á Leifsstöð þennan morgun til að freista þess að ná myndum af „framkvæmd brottvísunarinnar“ eins og það heitir á fagmáli, í von um að gera aðgerðina sýnilega. Það mistókst: öryggisverðir, starfsfólk ISAVIA og lögreglumenn, fagfólk fram í fingurgóma, voru öll þögul sem gröfin um hvar eða hvenær lögreglan færi með mennina um flugvöllinn. Þessar brottvísanir eru ósýnilegar því þær eiga að vera ósýnilegar. Um 500 á ári, síðustu ár,“ segir Haukur.

Samstöðuhópurinn „Ekki fleiri brottvísanir“ birtir mynd af nauðungarflutningi eins mannanna í morgun og er dreginn hringur um hann á myndinni sem fylgir fréttinni. Maðurinn gengur við hækju. Samstöðuhópurinn skrifar um þetta:

„Á undangengnum sólarhring hafa þrír flóttamenn verið handteknir til brottvísunar. Tveir fóru úr landi í morgun. Á þessari mynd, sem farþegi tók við lendingu, má sjá einn þeirra (á hækjum) ganga úr vélinni í fylgd þriggja sérsveitarmanna í almennum klæðum.

Mennirnir heita Ali, Mohsen og Milad, og hafa allir verið í framverði baráttu fyrir mannúðlegri meðferð hælisleitenda á Íslandi. Ali var kominn með atvinnuleyfi og starf og Milad sá fram á atvinnuleyfi líka. Mohsen hafði nokkrum sinnum reynt að svipta sig lífi vegna vondra aðstæðna. Það þyrmir að þeim úr öllum áttum, og mesta furða hve baráttuþrekið þeirra entist.

Allir eiga á hættu að vera sendir til heimalandanna, þar sem þeirra bíða ofsóknir, eins og áður hefur verið lýst. Héraðssaksóknari er með í höndunum kæru vegna árásar sem Ali varð fyrir af manni merktum Sjálfstæðisflokknum sem þóttist vera lögreglumaður, en hvernig sú rannsókn á að fara fram þegar fórnarlömb og vitni eru send úr landi er stór spurning.

Vinir þeirra sem eftir eru, við, sem höfum kynnst þessum frábæru náungum síðustu mánuði, erum harmi slegin yfir þessum aðgerðum. Þetta einfaldlega sökkar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Þórdís Kolbrún sár út í Ragnar: „Ákaflega ógagnlegt og ámælisvert”

Þórdís Kolbrún sár út í Ragnar: „Ákaflega ógagnlegt og ámælisvert”
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Lífið í fangelsinu enginn dans á rósum fyrir morðingjann

Lífið í fangelsinu enginn dans á rósum fyrir morðingjann