„Ég hef hvergi sakað bílstjóra um nokkurn skapaðan hlut. Þórir er að búa það til. Hann talar um allt nema ábyrgðina sem því fylgir að dreifa ókeypis plasthlífum á viðkvæmum áfangastöðum eins og þessum sem þarna um ræðir. Framámaður eins og hann á að sýna svona umræðu virðingu og taka hana alvarlega en ekki vera með úrúrsnúninga eins og þessa. Ég hef hvergi sakað bílstjórana hans um neitt,“
segir Einar Bárðarson í stuttu spjalli við DV en deilur hafa geisað á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum undanfarið um plasthlífanotkun ferðamanna í náttúru Íslands.
Í viðtali við Eyjuna í dag sagði Þórir Garðarsson, talsmaður Grayline:
„Það kom fram hjá Einari Bárðarsyni að bílstjórar okkar væru að henda plastinu út um gluggann og það hleypti illu blóði í okkar menn að slíkar sakir væru bornar á þá af manni sem á að vita betur. Það skal ekki úr því dregið að plast er mjög slæmt fyrir umhverfið og einmitt þess vegna eru okkar bílstjórar mjög samviskusamir við að innheimta skóhlífarnar af farþegum sínum. Þess vegna sárnaði þeim þessi ummæli frá Einari.“
Hjalti Björnsson, áfengis- og vímuefnaráðgjafi, var á dögunum í Námaskarði við Mývatn að njóta náttúrunnar þegar honum blöskraði sóðaskapurinn af skóhlífanotkun ferðamanna sem komu með rútum frá Grayline. Sá hann að einhverjir höfðu skilið bláar plastskóhlífarnar eftir á víðavangi og undraðist að bílstjórar krefðust þess að ferðamenn klæddust þeim, enda þurrt og gott veður og mikil umræða verið um plastmengun og skaðsemi hennar undanfarin misseri.
Tók hann því myndir af öllu saman og birti í Facebookhópnum Bakland ferðaþjónustunnar, sem telur yfir 14 þúsund manns. Þar var færslu Hjalta eytt. Sagði Hjalti það vera með ólíkindum og harðlínu ritskoðun í gangi.
Nokkrir fleiri aðilar birtu færslur og myndir sama efnis í þessum Facebook en þeim var eytt. Meðal þeirra var Einar Bárðason sem tók upp umræðuna í Facebook-hópnum Plokk á Íslandi.
Einar Bárðason var í viðtali á Bylgjunni á þriðudagsmorguninn og má heyra það spjall með því að smella hér og stilla síðan spilarann á sirka 1:58:00. Þar sagðist Eina bera virðingu fyrir Þóri, talsmanni Grayline, en hann teldi mjög hæpið að plasthlífar sem ferðamenn fengju afhentar skiluðu sér aftur til bílstjóranna. Þá minnti Einar á að ferðaþjónustufyrirtæki mörg legðust gegn gjaldtöku landeigenda sem þeir vildu koma á til að bæta aðstöðu svo ferðamenn gætu gengið á hreinum stígum en ekki í drullugum jarðvegi.
Einar lýsti yfir efasemdum með það framferði að afhenda einnota plast, sem engin bæri virðingu fyrir, á opnu landsvæði. Mannleg hegðun væri einu sinni þannig að hætt væri við því að mikið af plastinu lenti ofan í gjótu.
„Besta leiðin til að losna undan grun er að sleppa því að afhenda svona lagað og setja sig ekki upp á móti því að landeigendur taki gjald til að útbúa betri aðstöðu,“ sagði Einar meðal annars í viðtalinu.