Skúla Mogensen dreymir enn um að endurreisa WOW. Á Íslandi þurfi að vera fleiri en eitt flugfélag til að koma í veg fyrir einokun Icelandair . Þetta kom fram í erindi Skúla á Startup Iceland í morgun.
„WOW var sprotafyrirtæki á sterum,“ segir Skúli sem segist jafnframt hafa mikinn áhuga á að endurreisa flugfélagið.
Ég er ekki að segja að ég muni gera þetta á morgun. En ég ætla að deila með ykkur af hverju ég tel að við þurfum að gera þetta og af hverju mér þætti vænt um að fá að gera þetta aftur.
Til að byrja með er Skúla farið að leiðast aftur, en það var ein af ástæðum þess að hann hóf rekstur WOW til að byrja með. Ísland sé að sigla inn í efnahagslægð. Því gæti verið mikilvægara en áður að efla ferðamannaiðnaðinn og þess háttar, en WOW air var stofnað á þeim tíma sem Ísland var enn að klóra sig upp úr efnahagshruninu.
Þó sé einn stór munur á því fyrir Skúla að stofna flugfélag núna og hvernig það var 2012 þegar hann gerði það í fyrra skiptið.
Ég átti nokkrar milljónir dollara inn á bankabók. Ég á þær ekki lengur. Svo ég þarf að vinna mér inn fyrir peningunum en það getur verið góður hvati líka.
Í þetta skiptið ætlar Skúli að einblína enn meira á lág fargjöld.
Þú ert með einn flugvélaflota og setur eins mikið af sætum í vélina og þú mögulega getur.
Mistök WOW hafi falist í því að bjóða frekar upp á lúxus-sæti sem voru markaðssett fyrir þá sem setja ekki peninga fyrir sig en vilja heldur gæði. Þeir hefði frekar átt að fjölga sætum í vélunum enn meira. Þó vissulega gætu fleiri sæti þýtt meiri óþægindi fyrir farþegann út af plássleysi en það væri þá farþegans að ákveða hvort þeir kjósi að borga minna fyrir farið og hafa þá minni þægindi, eða hvort þeir kjósi að greiða meira fyrir meiri þægindi.
Þér er velkomið að greiða 690 dollara og fljúga með einhverjum öðrum.
Þetta er eitt af því sem við höfum núna lært. Við misstum sjónar á því sem við vorum raunverulega að gera. Okkur gekk svo vel og við vildum bjóða upp á vöru fyrir aðra.
Skúli telur einnig mikilvægt fyrir flugfélag að selja sjálfir miðana. Þegar miðar séu seldir í gegnum aðra þá skapi það oft erfiða aðstæður. Flugfélagið fái jafnvel engar upplýsingar um farþegann sem geti komið sér illa þegar viðkomandi farþegi hefur svo samband til að kvarta yfir ferðalagi sínu.
Þetta skapar mikinn höfuðverk.
Þau keyptu ekki miðann af okkur, en auðvitað berum við ábyrgð.
Nýtt flugfélag myndi einnig einbeita sér enn meira að því að yfirselja (e. uppsell). Það er bjóða neytandanum að greiða meira fyrir farið. Þetta gerði WOW áður, líkt og fleiri lággjalda flugfélög, með því að bjóða farþeganum að greiða fyrir allskonar aukahluti. Fyrir meira fótapláss, fyrir mat eða drykk, fyrir farangur, fyrir að velja sæti og þar eftir götum.
Við vorum heimsmeistarar í að yfirselja. Ef þetta væri kvikmyndahús, það þénar ekki krónu á því að selja miðana. Það þénar á því að selja popp og kók.
Þetta er nokkuð sem við ættum að einbeita okkur meira að.
Annað mikilvægt að mati Skúla er að koma eins fram við alla, allir séu jafnir.
Allir eru jafn mikilvægir og eiga skilið sömu virðinguna og eiga að hafa rödd sem heyrist.
Þetta þýðir að fólkið muni ganga skrefinu lengra þegar á því þarf að halda, ekki vegna þess að þau þurfa það, heldur vegna þess að þau vilja það.
Kostnaður vegna starfsmanna er nokkuð sem Skúli telur að þurfi að halda í lágmarki. Þetta fáist með því að hafa starfsmannateymi sem sé ekki bara gert út frá Íslandi. Ísland sé mjög dýrt og kostnaður af því að hafa aðeins íslenskt starfsfólk sé það mikill að óraunhæft sé að gera starfsfólkið aðeins út frá Íslandi.
Okkur er alveg sama hvort þú komir frá Íslandi, Eistlandi, Rússlandi, Svíþjóð, Finnlandi. Okkur er sama. Við erum bara að leita af rétta fólkinu. Við erum að leita af rétta fólkinu, með réttu gildin, rétta drifkraftinn og rétta hugarfarið til að byggja upp gott fyrirtæki, fyrir rétt gjald.
Staðan sé bara sú að Ísland sé orðið það dýrt að það sé ómögulegt fyrir flugfélag að vera samkeppnishæf ef aðeins er greitt samkvæmt íslenskum taxta.
Þetta er staðreynd. Þetta er ekki af því að ég vil að það sé þannig, þetta er bara hvernig þetta er.
Við verðum að hafa blöndu af áhöfn, flugmönnum, tæknimönnum. Eitthvað heima og eitthvað erlendis.
Ef Skúla tekst að endurreisa WOW segist hann sannfærður um að hann nái enn lengra með fyrirtækið. Ef þetta yrði að raunveruleika þykir honum rétt að nýtt flugfélag héti líka WOW.
Við stóðum okkur frábærlega í að markaðssetja vörumerkið. Hversu oft segir fólk WOW?