Stefán Einar Stefánsson, höfundur bókarinnar WOW Ris og fall flugfélags, vísar á bug fullyrðingum Björgólfs Thors Björgólfssonar, þess efnis að hann hafi ekki verið hluthafi í WOW air. Björgólfur Thor birti í dag pistil á vefsíðu sinni þar sem hann sakar Stefán Einar um rangfærslur.
Sjá einnig frétt DV: Björgólfur sakar Stefán Einar um rangfærslur: „Persónulegur greiði við vin minn“
Þar segir meðal annars:
Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir hafnar því alfarið sem kemur fram í bók Stefáns Einars Stefánssonar, að hann hafi verið hluthafi í WOW air. Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu sem Björgólfur hefur birt á vefsvæði sínu. Björgólfur segir að eina aðkoma hans að félaginu hafi verið sú að fallast á að kaupa skuldabréf fyrir 3 milljónir evra í september síðastliðinn. Segir Björgólfur að sá gjörningur hafi verið vinargreiði. Hann segir jafnframt:
Rétt eins og aðrir skuldabréfaeigendur hef ég nú lýst kröfu í þrotabú WOW. Sú staðreynd ein staðfestir að ég var ekki hluthafi í félaginu.
DV hafði samband við Stefán Einar vegna málsins. Hann sagði: „Þegar þú tekur þátt í skuldabréfaútboðiu þá ertu bara kröfuhafi en af því skilmálar skuldabréfsins bresta þá ákveða þeir að taka félagið yfir eins og þeir höfðu heimild til. Skúli lýsti því sjálfur yfir, tveimur dögum áður en félagið féll, að þeir hafi samþykkt að breyta kröfum sínum í félagið í hlutafé.“
Stefán Einar vísar jafnframt í frétt af þessu á Vísir.is frá 26. mars. Þar segir Skúli:
„Staðan er nokkuð góð eftir fréttir dagsins þar sem við vorum að tilkynna að skuldabréfaeigendur hafa samþykkt að breyta kröfum sínum í hlutabréf í félaginu. Þar með erum við að styrkja félagið allverulega þannig að það er jákvætt skref í rétta átt,“ segir Skúli.
Stefán segir jafnframt:
„Ég sé ekki ástæðu til að breyta þessu, staðreyndirnar liggja fyrir. En ef Björgúlfur ætlar að halda þessu fram þá þurfa gömlu vinirnir að útkljá sín á milli hvor þeirra er að segja ósatt.“