Borgarstjórinn í Reykjavík óskar nú í níunda sinn eftir ábendingum frá borgarbúum um Reykvíking sem verið hefur öðrum til fyrirmyndar. Ábendingarnar verða notaðar til að velja Reykvíking ársins.
Til greina koma aðeins einstaklingar sem hafa verið til fyrirmyndar eða sýnt af sér háttsemi eða atferli sem kemur Reykjavíkurborg til góða á einhvern hátt.
Slíkur borgari gæti t.d. verið einhver sem heldur borginni hreinni, eða einhver, sem hefur haft jákvæð áhrif á nærumhverfi sitt eða hefur gert Reykjavíkurborg gott á undanförnum árum með einhverjum öðrum hætti en án þess þó að fá greitt fyrir störf sín.
„Það eru svo ótal margir Reykvíkingar sem eru að vinna óeigingjarnt starf í þágu borgarinnar á degi hverjum og þessu fólki ber að þakka. Ég hvet alla þá sem vita af slíkum einstaklingum að senda inn tilnefningu um Reykvíking ársins 2019, “ Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Óhætt er að segja að Reykvíkingur ársins 2018 hafi verið vel að nafnbótinni kominn. Það var Bergþór Grétar Böðvarsson sem stofnaði íþróttafélagið FC Sækó, en það er ætlað konum og körlum sem glíma við andleg veikindi. Bergþór hefur varið ómældum tíma í þetta göfuga grasrótarstarf og hefur framtakið hlotið ýmsar viðkurkenningar, meðal annars frá UEFA.
Grétar sést á mynd með fréttinni er hann renndi fyrir lax í Elliðaánum ásamt borgarstjóra í boði Stangaveiðifélags Reykjavíkur, sem hefur árnar á leigu. Reykvíkingur ársins 2019 mun einnig gera þetta.
Ábendingar um einstaklinga eru vel þegnar og ber að senda þær inn ásamt rökstuðningi um það hvers vegna viðkomandi einstaklingur á heiðurinn skilinn á netfangið hugmynd@reykjavik.is eða bréflega til skrifstofu borgarstjóra merkt Reykvíkingur ársins fyrir fimmtudaginn 13. júní 2019.
Þriggja manna dómnefnd velur Reykvíking ársins úr innsendum tillögum.