Talsverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt vegna ölvunar og hávaða. Í skeyti frá lögreglu kemur fram að alls hafi tólf ökumenn verið stöðvaðir, ýmist fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis.
Lögregla sinnti ýmsum verkefnum í gærkvöldi og í nótt. Þannig hafði hún afskipti af manni sem var nakinn í húsagarði í Vesturbænum klukkan hálf fimm í nótt. Tilkynnt hafði verið um manninn en frekari upplýsingar um málið koma ekki fram í skeyti lögreglu.
Þá var einstaklingur handtekinn í miðborginni um þrjú leytið í nótt fyrir að fara ekki að fyrirmælum lögreglu. Einnig reyndi hann að tálma störf lögreglu. Hann var látinn laus eftir að rætt hafði verið við hann á lögreglustöð. Lögregla handtók svo mann eftir að hann hafði sparkað í lögreglumann. Hann var vistaður í fangaklefa.
Klukkan rúmlega 19 í gærkvöldi var tilkynnt um umferðaróhapp á Reykjanesbraut. Frekari upplýsingar um óhappið koma ekki fram í skeyti lögreglu. Um níu leytið í gærkvöldi var tilkynnt um sinubruna við Heiðmerkurveg. Greiðlega gekk að ráða niðurlögum eldsins sem reyndist vera minniháttar.