Miklar uppsagnir hafa verið tilkynntar síðustu vikur, en fimm stórfyrirtæki hafa sagt upp starfsmönnum í maí. Um þetta er fjallað á vef RÚV. Búið er að segja upp tugum einstaklinga hjá bílaumboðinu Heklu, Arion Banka, Íslandsbanka, Sýn og á Keflavíkurflugvelli, í tengslum við gjaldþrot WOW Air.
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir í samtali við RÚV að uppsagnir séu fleiri nú en í fyrra, þó að uppsagnir vegna gjaldþrots WOW Air séu ekki teknar inn í dæmið.
„Það er kólnun í hagkerfinu, það er alveg augljóst, það eru fleiri uppsagnir núna heldur en á sama tíma en í fyrra og svo bættist bara WOW ofan á það,“ segir Unnur.
Hún segir erfitt að segja til um hvort uppsögnum fjölgi enn frekar, en telur enga ástæðu til að hafa áhyggjur af ástandinu enn sem komið er.
„En þetta er ekki til að hafa miklar áhyggjur af þetta er bara svona eðlileg niðursveifla.“
Nýleg spá Vinnumálastofnunar sýnir að ný störf verða færri á þessu ári en fyrri spár gerðu ráð fyrir. Í upphafi árs spáði stofnunin um 2.000 nýjum störfum hér á landi á árinu en nú hefur spáin lækkað í 500 til 1.000 störf. Það er samdráttur í hagkerfinu, ekki síst í ferðaþjónustu, sem veldur. Á móti þessu vegur þó fjölgun starfa í þjónustugreinum og hjá hinu opinbera. Skráð atvinnuleysi á Íslandi var 3,7 prósent í apríl.