Alls eru 85 mál skráð í málaskrá lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir gærkvöldið og nóttina. Fjögur þessara mála varða ökumenn sem handteknir voru vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Þeir voru allir látnir lausir eftir sýnatöku.
Klukkan 20.40 í gærkvöldi var tilkynnt um bifhjólaslys á Bústaðavegi. Grunur leikur á að ökumaður hjólsins hafi úlnliðsbrotnað og var hann fluttur með sjúkrabíl á Landspítala. Hjólið skemmdist mikið, að sögn lögreglu.
Innan við klukkustund síðar var tilkynnt um umferðarslys í hverfi 101. Þar hafði verið ekið á gangandi vegfaranda og hlaut viðkomandi minniháttar áverkar á höfði sem sjúkraflutningamenn sinntu á vettvangi. Ökumaðurinn er grunaður um að hafa bakkað bifreiðinni hratt og ógætilega þannig að hætta skapaðist fyrir aðra. Þá var tilkynnt um bifhjólaslys á Höfðabakkabrú. Ökumaðurinn var fluttur með sjúkrabíl á Landspítala en talið er að hann hafi handleggs- og rifbeinsbrotnað.
Um svipað leyti bárust lögreglu tilkynningar um æstan og ölvaðan mann sem var til vandræða í hverfi 101. Maðurinn er sagður hafa gengið á milli staða og áreitt gesti og starfsfólk. Hann fannst síðan í verslun þar sem hann var búinn að troða ýmsum vörum inná sig. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu.
Um þrjú nótt var óskað eftir aðstoð lögreglu á skemmtistað í miðborginni. Ölvaður og æstur maður hafði brotið rúðu og ráðist að dyravörðum sem hlutu minniháttar áverka. Hann hrækti síðan á lögreglumann við afskipti. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu.
Upp úr klukkan fjögur í nótt var svo óskað eftir aðstoð lögreglu á skemmtistað í miðborginni vegna líkamsárásar. Mjög ölvaður gerandi var handtekinn á vettvangi og vistaður í fangageymslu. Minniháttar áverkar voru á þolanda.