Erlendína Kristjánsson er látin eftir tveggja ára baráttu við krabbamein. Erlendína, sem fannst í æsku óþægilegt að bera svo framandlegt nafn, var dóttir Hilmars Kristjánssonar, athafnamanns og konsúls Íslands í Suður-Afríku. Móðir Erlendínu var Aletta Maira Henning og hún var s-afrísk, nánar tiltekið Búi.
Erlendína flutti til Íslands árið 1992, þá 23 ára gömul. Hún kunni varla stakt orð í íslensku á þeim tíma en náði með hörku, áhuga og iðjusemi góðum tökum á tungumálinu. „Þar skipti sköpum að hún var svo frökk að tala, það hjálpaði mikið hvað hún var ófeimin í öllum samskiptum,“ segir Guðmundur Edgarsson, eftirlifandi sambýlismaður Erlendínu.
Guðmundur kvaddi sína ástkæru sambýliskonu á föstudaginn en þau höfðu lengi búið sig saman undir endalokin. Guðmundur birti þessa fallegu tilkynningu um andlát hennar á Facebook-síðu sinni um helgina:
Fyrir rúmlega tveimur árum greindist ástkær sambýliskona mín, Erlendína Kristjánsson, með langt gengið krabbamein. Í kjölfarið fylgdu skurðaðgerðir og ströng lyfjameðferð en engu að síður blasti við að hún yrði ekki gömul kona. Undanfarnar vikur fór svo að halla verulega undan fæti. Í síðustu heimsókn minni til hennar á Líknardeildina á föstudag sem leið var hún orðin það máttfarin að ég kvaddi hana eftir fáeinar mínútur. Þá lagðist hún til svefns í hinsta sinn því um morguninn þegar hennar var vitjað var hún skilin við.
Hún var einstakur persónuleiki, síbrosandi og jákvæð og tók hverjum degi fagnandi. Meiri dugnaðarfork hef ég ekki fyrir hitt enda afrekaði hún á sinni tiltölulega stuttu ævi það sem meðaljóninn væri stoltur af í lok fullrar starfsævi.
Þrátt fyrir mikilvirkni hennar á sviði enskukennslu, námskeiðahalds, skautaþjálfunar og lögfræðiráðgjafar gaf hún engan afslátt af móðurhlutverki sínu enda var ást hennar og umhyggja gagnvart börnunum sínum og fjölskyldu ávallt einlæg og skilyrðislaus. Ástríki hennar var viðbrugðið og mun efalaust styðja okkur meira en nokkuð annað til að takast á við missinn á kærleiksríkri hæfileikakonu sem elskaði lífið fram til hinsta dags.
„Hún var með fimm háskólagráður,“ segir Guðmundur og hlær við á þessari erfiðu stundu. Brosir í gegnum tárin, ef svo má til orða taka. „Sjáðu til, hún var með BA-gráðu í ensku og meistaragráðu í enskum málvísindum. Síðan kom BA-próf í lögfræði og síðan meistaragráða og réttindi þar. Loks var hún með uppeldisfræði og kennsluréttindi.“
Erlendína var aðjúnkt við Háskóla Íslands og kenndi einnig við Háskólann í Reykjavík. Hún gaf sig mjög að skautaíþróttinni og var í stjórn Skautasambands Íslands og skautafélagsins Björninn. Hún þjálfaði í því félagi og þjálfaði einnig hjá Skautafélagi Reykjavíkur. Erlendína var mikil íþróttakona og keppti í allskonar íþróttum frá unga aldri. Skautaþjálfunarferilinn hóf hún þegar í S-Afríku.
Erlendína kvaddi þennan heim á besta aldri en hún fagnaði fimmtugsafmæli þann 18. febrúar. „Hún hélt glæsilega veislu við þetta tækifæri,“ segir Guðmundur. Hann er sjálfur með meistaragráðu í enskum málvísindum og er við það að ljúka doktorsprófi. Hann er auk þess með bakgrunn í stærðfræði. Hefur Guðmundur, líkt og Erlendína, fengist mikið við kennslu.
Erlendína skilur eftir sig þrjú börn, en hún og Guðmundur eignuðust saman eina dóttur sem nú er níu ára.
Að sögn Guðmundar var Erlendína ófeimin við að segja ástvinum sínum í hvert stefndi. „Hún gerði sér grein því að hún myndi líklega ekki lifa út árið. En engu að síður vonaðist hún eftir því að lifa sem lengst og barðist af öllum mætti við sjúkdóminn,“ segir Guðmundur.
Erlendína lifði innihaldsríku og gefandi lífi en lést fyrir aldur fram. „Hún vann eiginlega fram í andlátið. Ég var að fara með ritgerðir til hennar bara nokkrum dögum áður en hún lést, en þessi síðasti ritgerðaskammtur varð þó síðan að fara í hendur annars kennara,“ segir Guðmundur.
DV sendir öllum aðstandendum og vinum Erlendínu Kristjánsson innilegar samúðarkveðjur.