Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu í gærkvöldi um að farið hefði verið inn í búningsklefa íþróttahúss í hverfi 108 og ýmsu lauslegu stolið; kortum, veskjum og símum til dæmis. Ekki kemur fram í tilkynningu lögreglu í hvaða íþróttahúsi þjófnaðurinn átti sér stað en málið er í rannsókn.
Lögregla fékk svo tvær tilkynningar um heimilisófrið með skömmu millibili í gærkvöldi. Í Árbæ var tilkynnt um ófrið í heimahúsi og að eiginmaðurinn væri með hníf á lofti. Hann lét sig hverfa þegar hann komst að því að lögregla væri á leiðinni. Málið er í rannsókn. Þá var tilkynnt um heimilisófrið í Mosfellsbæ en nánari upplýsingar liggja ekki fyrir.
Talsvert var um ölvun í höfuðborginni í gærkvöldi og voru nokkrir ökumenn stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum.
Á ellefta tímanum í gærkvöldi var tilkynnt um líkamsárás og eignaspjöll í Hlíðunum. Þar var maður handtekinn vegna gruns um árásina og vistaður í fangaklefa. Ekki er vitað um meiðsl þess sem fyrir árásinni varð.