Karlmaður hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald næstu fjórar vikur vegna ótal brota í Vestmannaeyjum. Samkvæmt tilkynningu frá lögreglu var hann þrisvar í liðinni viku kærður fyrir líkamsárás. Hann jafnframt stakk á hjólbarða á lögreglubifreið.
„Þrjár líkamsárásir voru kærðar í liðinni viku en í öllum tilvikum var um sama árásarmann að ræða. Í tveimur tilvikum er um minniháttar áverka á ræða en í einu tilviki er um meiriháttar áverka að ræða. Auk árásanna þá er sami aðili kærður fyrir, hótanir, húsbrot, eignaspjöll, þjófnað, vopnalagabrot og fíkniefnalagabrots,“ segir í tilkynningu.
Þetta voru þó ekki einu afbrot hans í síðustu viku. „Þá er hann einnig kærður fyrir ofbeldi og hótanir gagnvart lögreglu og brot gegn valdstjórn með því að stinga á fjóra hjólbarða á lögreglubifreið. Með því hindraði hann störf lögreglu sem litið er mjög alvarlegum augum. Maðurinn var handtekinn og í framhaldi af því færður fyrir dómara sem úrskurðaði hann í gæsluvarðhald í fjórar vikur vegna brota á skilorði og ólokinna mála í refsivörslukerfinu,“ segir í tilkynningu lögreglu á Facebook.