fbpx
Sunnudagur 26.maí 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fréttir

15 konur hafa kært Jóhannes fyrir kynferðisbrot – Gerir grín að umfjöllun – „Stjörnunuddarinn fór í útrás“

Ari Brynjólfsson
Miðvikudaginn 5. desember 2018 10:04

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Minnst 15 konur hafa kært Jóhannes Tryggva Sveinbjörnsson til lögreglu fyrir kynferðisbrot. Vel yfir 30 hafa leitað til  Sigrúnar Jóhannsdóttur lögmanns og sakað hann um kynferðisbrot.

DV greindi ítarlega frá málinu í október síðastliðnum, þá höfðu þrjár konur kært hann til lögreglu og yfir 20 leitað til Sigrúnar. Steinbergur Finnbogason, lögmaður Jóhannesar, sagði í samtali við DV að málið væri runnið undan rifjum Sigrúnar sem hafi auglýst eftir konum til að saka Jóhannes um kynferðisbrot. Jóhannes hefur lýst sig saklausan. Síðan þá hafa kærurnar hrúgast inn. Sjálfur gerir Jóhannes grín að umfjöllun DV um málið. En hver er Jóhannes?

Jóhannes rekur fyrirtækið Postura sem sérhæfir sig í meðhöndlun á slæmri líkamsstöðu og lagfæringar á verkjum í stoðkerfi. Hann er ekki meðlimur í neinu fagfélagi og er ekki með löggildingu frá Embætti landlæknis. Samkvæmt heimildum DV er hann enn starfandi en eftir umfjöllun DV hafi hann hætt að bjóða upp á þjónustu sína innan fyrirtækja. Fréttablaðið fjallaði nafnlaust um Jóhannes og þar var hann kallaður meðhöndlari.

Fjöldi mála
Jóhannes var kærður árið 2005 grunaður um brot gegn 14 ára stúlku.

Samkvæmt heimildum DV hafði Jóhannes í þrígang verið kærður áður og sakaður um kynferðisbrot enn öll þau mál voru látin niður falla en það var áður en þessi hrina af kærum bárust lögreglu. Aldrei hefur eins stórt mál sem inniheldur jafn alvarlegar ásakanir komið upp í þessum geira fyrr. Nýju kærurnar og meint brot eiga hafa verið framin þegar konurnar voru í meðferð hjá Jóhannesi. Jóhannes er afar vinsæll, bæði hjá almenningi og eins fræga fólkinu og í umfjöllun DV var hann kallaður stjörnunuddari. Hefur Jóhannes frá því að málið kom upp í tvígang birt myndir af sér á Instagram þar sem hann hefur nú tekið upp á því að kalla sig þar stjörnunuddara með vísan í umfjöllun DV og ljóst að hann er að gera grín að þeirri umfjöllun. Hefur nokkrum fjölda vina hans þótt það fyndið.

Þá vitnaði DV í frétt Fréttablaðsins þar sem rætt var við Björn Leifsson eiganda World Class sem lét Jóhannes fara eftir aðeins um viku í starfi við að hnykkja og meðhöndla viðskiptavini. Konráð Valur Gíslason, einkaþjálfari hjá World Class, sagði:

„Þetta kom upp þegar ung stúlka, um 16-17 ára, var í meðferð hjá honum þegar hann starfaði hjá World Class. Eftir meðferðina sagði hún kærasta sínum frá sem hringdi hingað inn og kvartaði yfir manninum. Ég vissi af þremur konum í þjálfun hjá mér sem höfðu farið til hans og lent í einhverju misjöfnu.“

Í Fréttablaðinu segir orðrétt:

„Konurnar segja manninn hafa meðhöndlað sig í gegnum leggöng og endaþarm.“

Þá sendu Osteópatafélagið og Sjúkranuddarafélagið frá sér sameiginlega yfirlýsingu vegna málsins:

„Þessi félög finna sig knúin til að tjá sig um málið og verja sína félagsmeðlimi. Meðlimir innan allra félaganna hafa heyrt fjöldann allan af sögum frá skjólstæðingum sínum um óeðlilega starfshætti frá þessum manni. Við höfum fengið til okkar fólk sem hafa leitað álits um það hvort aðferðir sem hann beitir þyki eðlilegar. Við fordæmum svona starfsaðferðir.“

Haraldur Magnússon, formaður Ostreópatafélags Íslands, sagði í samtali við DV að allir í bransanum hefðu heyrt um hann:

„Ég held að hver einasti meðhöndlari hafi heyrt sögur af honum. Þar sem hann er ekki okkar félagsmeðlimur þá er þetta ekkert á okkar borði.“

Lögmaður Jóhannesar, Steinbergur Finnbogason gaf í skyn í samtali við DV að afstöðu félaganna þriggja mætti rekja til vinsælda Jóhannesar sem meðhöndlara. Jóhannes sagði:

„Í ljósi þessa er auðvitað líka sérstakt að fagfélög á borð við félag sjúkranuddara og fleiri félög sem væntanlega vilja láta taka sig alvarlega skuli álykta um málið án þess að hafa á því nokkra þekkingu utan umfjöllunar fjölmiðla. Sú staðreynd að skjólstæðingur minn hefur tekið á móti yfir fimmtíu þúsund heimsóknum ánægðra viðskiptavina af báðum kynjum og á öllum aldri án þess að tilheyra neinum einum hópi fagfólks hér á landi kann að hafa þar einhver áhrif.“

Kallaður „galdrakallinn“

Jóhannes Tryggvi er vel þekktur innan íslenska mótorkrossheimsins. Hann hefur gefið sér gott orð sem meðhöndlari og hefur unnið með íþróttamönnum á borð við Gunnar Nelson og Aron Jóhannsson. Fjallað var um Jóhannes í Bændablaðinu árið 2014, þar kom fram að frægð hans væri orðin svo mikil að hann væri orðinn „nuddari og galdralæknir keppnisliðs Honda í Dakar-keppninni“. Í færslu á Instagram ári síðar þakkaði Hafþór Júlíus Björnsson, kraftajötunn, Jóhannesi opinberlega fyrir að halda sér frá meiðslum fyrir keppnina Sterkasti maður í heimi.

Knattspyrnumaðurinn Aron Jóhannsson ræddi um Jóhannes í viðtali við Vísi árið 2016. Aron sagði: „Eftir tvær vikur hjá honum var hann búinn að hjálpa mér meira en allir aðrir í fimm mánuði. Ég kalla hann alltaf galdrakarlinn, en ég á honum mikið að þakka.“

Sjá einnig: Yfir 20 konur saka Jóhannes um kynferðisbrot

Eins og fram kemur hér ofan kannaði DV hver staðan er á málinu í dag og ræddi við Sigrúnu, sem er lögmaður allra þessara kvenna. Þá fékk DV ábendingu um að Jóhannes gerði gys að fjölmiðlaumfjöllun á Instagram.

Sigrún segir í samtali við DV að hún hafi varla undan því að ræða við konur sem hafi haft samband við sig og saki Jóhannes um kynferðisbrot. Brotin ná yfir nokkurra ára tímabil og munu öll hafa átt sér stað í svokallaðri meðhöndlun, en nýjasta frásögnin er frá því í sumar. Samkvæmt heimildum er í flestum tilvikum um að ræða fingur í leggöng en sum tilfellin sé um grófari ásakanir að ræða.

Hvað erum við að ræða um margar konur?

„Það eru um fimmtán konur í kæruferli og flest allar þeirra hafa mætt í skýrslutöku hjá lögreglu. Svo eru vel yfir 30 konur sem hafa haft samband við mig og sakað hann um kynferðisbrot. Ég er enn að vinna í því að heyra betur í mörgum þeirra uppá næstu skref“

Sigrún segir að rannsókn mála miði nú hratt áfram og er ánægð með viðbrögðin. Hún furðar sig þó á því að lögreglan hafi ekki hneppt Jóhannes í gæsluvarðhald vegna málsins. Sigrún segir:

„Hvað þarf meira til, þeir vita að hann brýtur á konum í starfi og hann er ennþá starfandi. Við erum að tala allar þessar konur sem eru komnar í ferli og ég er búin að láta lögreglu vita að þær verða fleiri.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

„Pálmi Gestsson, þú veist hvar ég bý renni þér blóðið til skyldunnar“

„Pálmi Gestsson, þú veist hvar ég bý renni þér blóðið til skyldunnar“
Fréttir
Í gær

Sakfelld fyrir að aðstoða við tölvuglæp – „Framburður þeirra í hæsta máta ótrúverðugur“

Sakfelld fyrir að aðstoða við tölvuglæp – „Framburður þeirra í hæsta máta ótrúverðugur“