fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fréttir

Erfiðasta hindrunin framundan: Carlsen ver heimsmeistaratitilinn gegn Caruana

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 9. nóvember 2018 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Næstkomandi fimmtudag, 9. nóvember, hefst heimsmeistaraeinvígi í skák milli Norðmannsins Magnusar Carlsen og Bandaríkjamannsins Fabianos Caruana. Óhætt er að segja að skákáhugamenn um allan heim nötri af spennu því Caruana hefur verið á mikilli siglingu undanfarið og telja margir að hann sé líklegur til þess að velta Norðmanninum ómannlega úr sessi.

Einvígið fer fram í The Collage í Holborn-hverfi í London. Kapparnir munu tefla 12 kappskákir um titilinn en verði jafnt á metunum munu þeir tefla bráðabana með styttri tímamörkum. Í styttri tímamörkunum er Carlsen sterkari og það telja íslenskir sérfræðingar að geti ráðið úrslitum. Þá má geta þess að stórmeistarinn Jóhann Hjartarson verður einn af þremur einstaklingum sem verður í áfrýjunarnefnd einvígisins. Sú nefnd mun takast á við þær deilur eða álitamál sem kunna að koma upp í viðureignum kappanna.

DV fer hér stuttlega yfir feril undrabarnanna Carlsen og Caruana sem munu kljást í London.

Af ítölsku bergi brotinn

Fabiano Luigi Caruana fæddist í júlí 1992 og er tveimur árum yngri en Magnus Carlsen. Fabiano er fæddur í Miami-borg í Bandaríkjunum en foreldrar hans eru af ítölsku bergi brotnir. Fabiano ólst upp í Brooklyn-hverfi New York-borgar. Hann náði fljótlega eftirtektarverðum árangri og svo fór að foreldrar hans ákváðu að flytjast með hann til meginlands Evrópu þar sem mun meira af sterkum skákmótum eru haldin. Þá ákváðu þau að Fabiano myndi tefla undir ítölsku flaggi því þar var meiri stuðning að fá. Fabiano varð stórmeistari í skák 14 ára og 11 mánaða gamall og er númer 34 á lista yfir yngstu skákmennina sem lönduðu þeim titli. Til samanburðar er Magnus sá sjötti yngsti í skáksögunni til þess að landa titlinum.

Caruana hefur sótt Ísland tvisvar heim og í þeim tilgangi að tefla í alþjóðlega Reykjavíkurskákmótinu. Hann hafði sigur á mótinu í seinna skiptið, árið 2012, þá aðeins 19 ára að aldri.

Fabiano tefldi fyrir Ítalíu til ársins 2015 þegar hann ákvað að tefla aftur fyrir Bandaríkin. Sú ákvörðun hefur reynst honum happadrjúg en hann hefur blómstrað síðan og hefur meðal annars landað Ólympíugulli með ógnarsterkri skáksveit Bandaríkjanna. Vonir standa til að væntanlegt einvígi hans við Magnus Carlsen muni skapa sannkallað skákæði í Bandaríkjunum. Það mun tíminn einn leiða í ljós en hafi Fabiano sigur þá mun það eflaust skapa mikið umtal vestra.

Undradrengurinn frá Noregi

Norðmaðurinn ótrúlegi, Magnus Carlsen, hefur drottnað yfir alþjóðlega skákheiminum í rúm átta ár. Ólíkt mörgum öðrum undrabörnum hefur ferill Magnus verið nánast ein samfelld sigurganga. Hann varð stigahæsti skákmaður heims árið 2010 og hefur haldið þeirri stöðu æ síðan. Þá er hann sá einstaklingur sem hefur náð hæstu skákstigum sögunnar, 2.882 í maí 2014. Hann varð sextándi heimsmeistari í skák árið 2013 þegar hann lagði ríkjandi heimsmeistara, Viswanathan Anand, örugglega að velli í einvígi. Carlsen varði titilinn síðan í öðru einvígi gegn Anand árið 2014. Þá stóð Carlsen af sér atlögu Rússans Sergeys Karjakin árið 2016 en það einvígi endaði í bráðabana.

Mikill Íslandsvinur – Vakti heimsathygli hér á landi

Carlsen hefur margoft sótt Ísland heim og kann vel við sig hér á landi. Hann tók nokkrum sinnum þátt í Alþjóðlega Reykjavíkurmótinu auk þess sem hann tefldi fyrir hönd Noregs á Evrópumóti landsliða í höfuðborginni um árið. Hér vakti hann líka fyrst verulega alþjóðlega athygli en það var þegar honum var boðið sæti á Reykjavík Rapid, ógnarsterku atskákmóti sem fram fór í mars 2004. Sjálfur Kasparov var meðal þátttakenda og örlögin höguðu því þannig að kapparnir mættust í tveggja skáka útsláttareinvígi í mótinu. Það vakti gífurlegt umtal þegar Kasparov þurfti að berjast fyrir jafntefli í fyrri skákinni en svo hafði sá rússneski sigur í þeirri seinni og sló Carlsen út úr mótinu. „Ég tefldi eins og barn,“ sagði norska undrabarnið eftir þá rimmu.

Carlsen hefur betra skor

Carlsen og Caruana hafa eldað grátt silfur saman á sterkustu skákmótum heims undanfarin ár. Þeir bera virðingu fyrir hvor öðrum og samskipti þeirra eru kurteisisleg, en þeir eru engir vinir. Í dag er Carlsen stigahæsti skákmaður heims með 2.835 stig en Caruana fylgir í humátt á eftir með 2.832 stig. Á dögunum tefldi Carlsen síðustu skákir sínar fyrir heimsmeistaraeinvígið þegar hann tók þátt í Evrópumóti taflfélaga í Porto Carras í Grikklandi. Þar var Magnus í nauðvörn gegn rússneska ofurstórmeistaranum Peter Svidler og mátti sjá á þeim norska að það sauð á honum. Tap hefði þýtt að Caruana hefði verið stigahærri en Carlsen þegar heimsmeistaraeinvígið hæfist. Sá norski var ekki að fara að láta það gerast. Hann hélt jöfnu og bjargaði sér fyrir horn.

Carlsen og Caruana hafa teflt 33 kappskákir á ferli sínum. Sá norski hefur unnið tíu skákir en Caruana fimm. Átján hafa endað með jafntefli. Það skor mun þó hafa lítið að segja í London. Caruana er afar hungraður og hann óttast Magnus ekki.

Hvernig fer einvígið – íslenskir sérfræðingar spá í spilin:

Hjörvar Steinn Grétarsson, stórmeistari

Loksins fá skákáhugamenn einvígi þar sem óhætt er að segja að tveir bestu skákmenn í heimi etji kappi. Caruana hefur undanfarið sýnt styrkleika sem við höfum ekki séð áður en ég tel engu að síður Carlsen vera sigurstranglegri. Þá sérstaklega vegna reynslunnar sem hann hefur af einvígum sem þessum. Carlsen er flottur fulltrúi skákarinnar og það er mikilvægt að hann verði það áfram.

Hjörvar Steinn Grétarsson, stórmeistari

Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands

Ég held að þetta verði erfiðasta einvígið fyrir Magnus hingað til. Munurinn á honum og Fabiano er einfaldlega minni en hann hefur verið hingað til. Samt átti hann í erfiðleikum með að kreista fram sigur gegn Karjakin og Anand.

Fabiano hefur auk þess gott bakland í Bandaríkjunum sem mun styðja hann með ráðum og dáð. Ég tel samt að Magnús muni hafa þetta. Sennilega þarf til bráðabana og jafnvel mun koma til þess að sá norski jafni metin í næstsíðustu eða jafnvel síðustu skákinni.

Ég mun halda með frænda okkar og stefni á að vera viðstaddur einhverjar skákir einvígisins.

Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands

Lenka Ptacknikova, stórmeistari kvenna

Ef maður horfir aðeins á síðustu úrslit á milli Carlsen og Caruana, þá hefur Magnus vinninginn. Í einvígi skiptir ekki svo miklu máli hver var sigursælli í mótum, heldur hvernig stíll andstæðingsins passar manni. Í þessu tilviki mun Magnus reynast óþægur ljár í þúfu fyrir þann bandaríska. Caruana er hins vegar búinn að bæta sig mikið og undirbúningur hans er mjög djúpur.  Heimsmeistaraeinvígi er afar sérstakur viðburður, sem mun valda gríðarlegu álagi á keppendur. Magnus hefur mikla reynslu af því. Á móti kemur að Fabiano er mjög hungraður að komast á toppinn og það gæti gefið honum auka orku. Ég held að einvígið verði mjög  skemmtilegt og spennandi en Carlsen vinnur að lokum!

Lenka Ptacknikova, stórmeistari kvenna

 

Jón Viktor Gunnarsson, alþjóðlegur meistari

Magnus Carlsen vinnur einvígið. Það sem mun hjálpa honum er reynslan úr svona einvígum, hana ber seint að vanmeta. Það er ekki ólíklegt að kapparnir verðir jafnir  eftir 12 skákir. Þá munu þeir þurfa að tefla styttri tímamörk og þar er Magnus töluvert sterkari í atskákinni og hraðskákum.

Jón Viktor Gunnarsson, alþjóðlegur meistari í skák

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Hörður Sigurgestsson er látinn

Hörður Sigurgestsson er látinn
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Kári vill lækka kostnað heimilanna: „Við eigum að hafa raforkuna á framleiðsluverði og ekki krónu umfram það“

Kári vill lækka kostnað heimilanna: „Við eigum að hafa raforkuna á framleiðsluverði og ekki krónu umfram það“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ráðist á ungan dreng í Grafarvogi: „Ef fólk sér eitthvað svona, þá á að stoppa þetta“

Ráðist á ungan dreng í Grafarvogi: „Ef fólk sér eitthvað svona, þá á að stoppa þetta“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Aprílmánuður einn sá hlýjasti frá upphafi mælinga hér á landi

Aprílmánuður einn sá hlýjasti frá upphafi mælinga hér á landi