fbpx
Miðvikudagur 19.júní 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Silfur Egils

Töffarinn Dagfinnur

Fréttir

Aðalsteinn segist ekki vera þrælahaldari og gagnrýnir vinnubrögð RÚV

Auður Ösp
Miðvikudaginn 3. október 2018 16:57

North Star hótelið á Ólafsvík. Ljósmynd/Skjáskot af vef RÚV.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Northstar Apartments hefur aldrei komið nálægt neinu sem tengist mansali og fordæmir öll slík mannréttindabrot og glæpastarfsemi,“ segir Aðalsteinn Gíslason eigandi Northstar Apartments. Í fréttaskýringaþættinum Kveikur sem sýndur var á RÚV í gærkvöldi var því haldið fram að fyrirtækið væri til rannsóknar hjá lögreglu vegna mannsals.

Segir ekkert hæft í ásökunum

Umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveikur í gærkvöldi hefur vakið töluverð viðbrögð en þar var varpað ljósi á á aðstæður þeirra 25 þúsund erlendu verkamanna sem eru við störf hér á landi. Í viðtali Morgunútvarpsins við Helga Seljan í gær kom fram að víða væri pottur brotinn hvað þetta varðar. Dæmi væru um að kjarasamningar séu ekki virtir og ekki heldur lög og reglur um aðbúnað starfsmanna.

Í yfirlýsingu sem Aðalsteinn sendi á DV nú síðdegis segir hann að það sem komi fram í fréttaskýringu Kveiks og varði hótelrekstur Northstar Apartments standist ekki skoðun.

„Northstar Apartments sætir ekki rannsókn lögreglu vegna mansals eins og haldið er fram í þættinum. Lögreglan tók málið til skoðunar en komst að þeirri niðurstöðu að ekkert væri hæft í framkomnum ásökununum.“

Aðalsteinn hafnar jafnframt ásökunum um að fyrirtækið hafi dregið eina og hálfa milljón af launum hjá fyrrverandi starfsmanni fyrirtækisins. Segir hann fyrirtækið hafa lagt til öll nauðsynleg gögn til Verkalýðsfélags Snæfellsness sem sýni fram á að uppsögn starfsmannsins hafi verið af eðlilegum og lögmætum ástæðum. „Umræddur starfsmaður starfaði hjá fyrirtækinu í 8 mánuði. Á því tímabili fékk hann greidd laun að fjárhæð 615.000 kr.- að meðaltali á mánuði og þar með talið eins mánaða uppsagnafrest og tvo mánuði greidda í starfslokasamning.“

Aðalsteinn gagnrýnir jafnframt vinnubrögð RÚV við umfjöllun málsins og segir aðstandendur þáttarins aldrei hafa haft samband við eigendur fyrirtækisins til að fá þeirra hlið á málinu. Kallar hann vinnubrögð Starfsgreinasambandsins og RÚV ámælisverð.

Hér fyrir neðan má lesa yfirlýsingu Aðalsteins í heild sinni.

Vegna umfjöllunnar í fréttaþættinum Kveik í gær vill Northstar Apratments koma á eftirfarandi yfirlýsingu á framfæri.

Það sem fram kemur í fréttaskýringu Kveiks þann 2. október og varðar hótelrekstur Northstar Apartments stenst ekki skoðun.

Northstar Apartments sætir ekki rannsókn lögreglu vegna mansals eins og haldið er fram í þættinum. Lögreglan tók málið til skoðunar en komst að þeirri niðurstöðu að ekkert væri hæft í framkomnum ásökununum. Northstar Apartments hefur aldrei komið nálægt neinu sem tengist mansali og fordæmir öll slík mannréttindabrot og glæpastarfsemi.

Í þættinum kemur fram að fyrrverandi starfsmaður fyrirtækisins haldi því fram að 1,5 milljón króna hafi verið dregnar af launum hans. Þetta er ekki rétt. Umræddum starfsmanni var sagt upp störfum vegna þess að hann sýndi ógnandi framkomu gagnvart öðru starfsfólki og sinnt störfum sínum illa. Umræddur starfsmaður starfaði hjá fyrirtækinu í 8 mánuði. Á því tímabili fékk hann greidd laun að fjárhæð 615.000 kr.- að meðaltali á mánuði og þar með talið eins mánaða uppsagnafrest og tvo mánuði greidda í starfslokasamning.

Northstar Apartments lýsir yfir vonbrigðum með vinnubrögð Starfsgreinasambands í málinu. Northstar Apartments sendi öll gögn til Verkalýðsfélag Snæfellsness, sem er aðili að Starfsgreinasambandinu, sem sýna skýrt fram á að ekkert er óeðlilegt við framkomu fyrirtækisins í garð umrædds starfsmanns og að uppsögn hans byggði á lögmætum og eðlilegum ástæðum.

Vinnubrögð RÚV við umfjöllun málisins valda einnig vonbrigðum, en við undirbúning hennar var aldrei haft samband við eigendur Northstar Apartments og þeir beðnir um að greina frá sinni hlið málsins.
Það er miður að þegar fjallað er um jafn mikilvæg mál og réttindi og stöðu erlends launafólks hér á landi að grafið sé undan trúverðugleika umfjöllunarinnar með jafn ámælisverðum vinnubrögðum og Starfsgreinasambandið og RÚV hafa sýnt af sér í umfjöllun um Northstar Apartments.

Virðingarfyllst,
Aðalsteinn Gíslason
Eigandi North Star Apartments

Segja hann hafa neitað viðtali

Aðstandendur fréttaskýringaþáttarins Kveikur hafa birt eftirfarandi yfirlýsingu á facebook síðu sinni og segja rangt að ekki hafi verið haft samband við Northstar Aparments í tengslum við umfjöllunina.

Vegna yfirlýsingar Aðalsteins Gíslasonar, eiganda Northstar Apartments:

Eigandi Northstar Apartments heldur því ranglega fram að ekki hafi verið haft samband við fyrirtækið vegna umfjöllunar Kveiks í gærkvöldi. Fréttamaður Kveiks, Helgi Seljan, gerði ítrekað tilraunir til að fá svör við ýmsum spurningum fyrir umfjöllunina. Fyrir svörum varð eiginkona Stefáns Aðalsteinssonar, eins eigenda Northstar Apartments, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Lina Aðalsteinsson, svo sem sjá má á afriti tölvubréfa hér að neðan:

„Sæl Lina,

Eins og ég sagði þér stendur til að fjalla um málefni sem tengjast þér og fyrirtæki ykkar hjónanna næstkomandi þriðjudag í Kveik. Mig langar því að fá viðbrögð þín við nokkrum atriðum sem þar koma fram:
Í samtali við okkur áðan neitaðirðu þú því að hafa tekið við peningum frá Sana Shah. Gögn um millifærslu fjármuna frá honum til þín, auk tölvusamskipta milli ykkar tveggja, benda hins vegar til annars. Hvernig útskýrirðu það?

Hann staðhæfir og vísar meðal annars í samtöl ykkar á milli á netinu, að þú hafir tekið við hátt í einni og hálfri milljón króna frá honum, að sögn til þess að greiða fyrir atvinnu- og dvalarleyfi hans og þriggja annarra. Þú hafir sagt honum að peningana þyrftirðu meðal annars til að greiða starfsmanni Útlendingastofnunar til að flýta fyrir afgreiðslu leyfanna. Hann hafi ýmist greitt þér fyrir með því að endurgreiða hluta launa sinna til þín eða með fjármunum frá mönnunum sem átt hafi að koma hingað í vinnu. Hvers vegna voru þessar greiðslur?Hvers vegna tókstu við þeim ef aldrei stóð til að fá hingað þessa menn?

Um vinnu sína hjá Welcome apartments/hótelunum segir hann að honum hafi aldrei verið greitt fyrir yfirvinnu umfram 8 tíma vinnu, jafnvel þó hann hafi unnið yfirvinnu. Meðal annars við keyrslu vista milli hótela fyritækisins og við frágang og fleira á hótelunum. Að þú og/eða eiginmaður þinn hafi stimplað starfsmenn út eftir að dagvinnutíma lauk, jafnvel þó starfsmenn væru enn við vinnu. Kannastu við þessa lýsingu? Hvers vegna var þetta gert?

Sana hefur lýst því fyrir okkur og lögreglu, sem meðal annars hefur sagst hafa vitni að atburðinum, að eiginmaður þinn hafi veist að Sana með ofbeldi fyrir utan verslun Costco nýverið og meðal annars hent í hann innkaupakerru. Hann vísar meðal annars til áverka á hendi og fæti vegna þess. Varst þú vitni að umræddu atviki? Hvað gerðist? Veistu til þess að eiginmaður þinn hafi haft í hótunum við Sana?

Eftir að lögregla kallaði þig og eiginmann þinn til skýrslutöku vegna kæru Sana á dögunum, er okkur tjáð að þú hafir mætt á vinnustað hans og sett þig í samband við hann með það fyrir augum að fá hann til að draga til baka kæru á hendur ykkur hjónum. Hvers vegna gerðirðu það?

Kveðja
Helgi Seljan
Fréttamaður – Kveikur“

Að auki hefur fulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu staðfest að í gangi sé rannsókn vegna kæru á hendur forsvarsmönnum Northstar Apartments. Um það verður ekki deilt. Enda sagði Lina Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri að þið kysuð að tjá ykkur ekki því lögreglurannsókn væri í gangi og vísað á lögmann:„Hi aftur,

Þú getur rætt þessi mál við lögmann okkar hjónanna, Jón Ögmundsson hrl. Við munum ekki tjá okkur frekar.

Takk

Mbkv,
Lina

Best regards,

Lina Adalsteinsson
Welcome Hotels Iceland
General Manager
lina@welcome.is
487-1212
899-4860“

Sem fyrr vildum við gjarnan fá svör við þeim spurningum sem voru sendar upphaflega. Hefur Stefán nú þegar hafnað boði frá því fyrr í dag um að veita viðtal vegna málsins. Hann segir eiginkonu sína Linu Aðalsteinsson, framkvæmdastjóra, vera starfsmann sem ekki geti talað fyrir hönd eigenda.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Náttúruspjöllin á Helgafelli tilkynnt til lögreglu: „Vinsamlegast slepptu því að rita nafnið þitt“

Náttúruspjöllin á Helgafelli tilkynnt til lögreglu: „Vinsamlegast slepptu því að rita nafnið þitt“
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Gísli á von á moskítóflugum til landsins – Þrjár tegundir kakkalakka landlægar á Íslandi

Gísli á von á moskítóflugum til landsins – Þrjár tegundir kakkalakka landlægar á Íslandi
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Guðrún sendi son sinn í burtu á aðfangadag: „Við grétum en reyndum að vera sterk. Elsku sonur minn hvíldu í friði“

Guðrún sendi son sinn í burtu á aðfangadag: „Við grétum en reyndum að vera sterk. Elsku sonur minn hvíldu í friði“
Fréttir
Í gær

Tara ósátt við dóminn yfir Hildi – Dómurinn aðför að tjáningar- og kvenfrelsi

Tara ósátt við dóminn yfir Hildi – Dómurinn aðför að tjáningar- og kvenfrelsi
Fréttir
Í gær

Rándýr umferðarlagabrot ferðamanna: Þrír þurftu að borga yfir 150 þúsund krónur

Rándýr umferðarlagabrot ferðamanna: Þrír þurftu að borga yfir 150 þúsund krónur
Fréttir
Í gær

Friðriki blöskrar spillingin á Íslandi og telur sig vita ástæðuna: „Ég varð hreinlega brjálaður“

Friðriki blöskrar spillingin á Íslandi og telur sig vita ástæðuna: „Ég varð hreinlega brjálaður“