fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Ólafur Ragnar mjaðmarbrotnaði í skíðaslysi

Slysið átti sér stað í Colorado-fylki í Bandaríkjunum – Dorrit var fljót á vettvang

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 26. janúar 2018 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um miðjan desembermánuð varð Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, fyrir því óhappi að mjaðmarbrotna á skíðum í Colorado-fylki í Bandaríkjunum. Hann undirgekkst aðgerð hið ytra og dvaldi í fimm daga á sjúkrahúsi í kjölfarið. Við tók sjúkraþjálfun og endurhæfing, sem enn stendur yfir, en Ólafur Ragnar er bjartsýnn á að batinn verði góður. „Þeir virðast hafa gert ágætlega við þetta,“ segir hann kíminn í viðtali við DV.

Ólafur Ragnar er með mörg járn í eldinum, ekki síst verkefni í tengslum við málefni norðurslóða. Hann þurfti að aflýsa heimsókn til Indlands, í boði þarlendra stjórnvalda, í byrjun árs en hann beit á jaxlinn og sótti heim árlegt Heimsþing hreinnar orku sem fram fór í Abú Dabí, höfuðborg Sameinuðu arabísku furstadæmanna um miðjan janúarmánuð. „Ég flaug þangað beint frá Bandaríkjunum. Það var mikilvægt að ég mætti til leiks því ég er formaður dómnefndar Zayed-orkuverðlaunanna sem afhent eru á þinginu,“ segir Ólafur Ragnar, sem er nýkominn heim til Íslands úr ferðinni.

Slys í 3.500 metra hæð

Slysið átti sér stað í hinum þekkta skíðabæ Aspen í Colorado. „Þetta gerðist í um 3.500 metra hæð. Aðstæður voru frekar slæmar, mikil ísing og klaki. Það vildi svo einkennilega til að það hafði snjóað mikið á austurströnd Bandaríkjanna og í Suðurríkjunum en ekki í Colarado, þar sem átti í raun að snjóa. Því var færið ekki gott og afleiðingarnar voru þær að það urðu mörg slys í skíðabrekkunum þessa daga,“ segir Ólafur Ragnar, sem hefur áratuga reynslu af skíðamennsku. „Ég er meðvitaður um að það fylgir því alltaf áhætta að stíga á skíði en sem betur fer hefur aldrei neitt skeð fram að þessu óhappi,“ segir Ólafur.

Óhætt er að fullyrða að eitt umtalaðasta beinbrot síðari tíma hér á landi hafi verið þegar Ólafur Ragnar féll af hestbaki í Landsveit fyrir tæpum 20 árum. Ólafur axlarbrotnaði í fallinu en sú sem var fyrst á vettvang til að hlúa að honum var Dorrit Moussaieff, sem þá var titluð sem vinkona forsetans í fjölmiðlum. Fréttir af ástarsambandi forsetans og Dorritar hafði þá nýlega spurst út en Íslendingar voru í fullkominni óvissu um hversu djúpt sambandið risti. Segja má að áhrifaríkar myndir af Dorrit, þar sem hún felldi tár við að hjúkra forsetanum, hafi komið við hjörtu landsmanna og gert það að verkum að vinsældir hennar ruku upp úr öllu valdi.

„Endurtekið efni“

Þegar blaðamaður spyr hvort Dorrit hafi verið með í för og sambærileg atburðarás hafi átt sér stað í Aspen eins og þegar hestaslysið átti sér stað þá hlær forsetinn fyrrverandi dátt. „Já, það má segja að það hafi verið endurtekið efni. Dorrit var með mér í ferðinni og var fljót á vettvang,“ segir Ólafur Ragnar. Hann er þakklátur fyrir hversu fljótt og vel tókst að koma honum undir læknishendur. „Það var afar fagmannlega staðið að öllu, viðbragðskerfið þar ytra varðandi slys og óhöpp er afar gott,“ segir Ólafur Ragnar.

Aðspurður hvað framundan sé segir forsetinn fyrrverandi að endurhæfing verði fyrirferðarmikil á dagskránni. Það muni þó ekki koma í veg fyrir að hann nái að sinna þeim verkefnum sem hann brennur fyrir. „Það verður þolinmæðisverk að ná sér góðum af þessum meiðslum,“ segir Ólafur Ragnar, en hann hefur stuðst við hækjur og staf til þess að komast ferða sinna. Framundan er ferð til Japans í byrjun febrúar í tengslum við Norðurslóðaráðstefnu í Tókýó auk þess sem Ólafur Ragnar hyggst sitja öryggisráðstefnuna í München sem fram fer um miðjan febrúarmánuð. „Þar verða málefni norðurslóða rædd. Það má því segja að ég sé á fullu þrátt fyrir þetta slys,“ segir Ólafur Ragnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa
Fréttir
Í gær

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Í gær

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“
Fréttir
Í gær

Svívirðileg brot gegn sjö ára stjúpdóttur

Svívirðileg brot gegn sjö ára stjúpdóttur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum