Sumarið 2008 var japanski raðmorðinginn Tsutomu Miyazaki líflátinn í fangelsi í Tókýó. Viðurnefni hans var óhugnanlegt í meira lagi, „Smástúlknamorðinginn“. Á tæplega 11 mánaða tímabili, 1988–1989, myrti Miyazaki fjórar ungar stúlkur í heimalandi sínu. Stúlkurnar voru á aldrinum 4–7 ára og vanvirti morðinginn líkin kynferðislega. Þá drakk hann blóð eins fórnarlambsins og át hluta af annarri hönd hennar.
Miyazaki fæddist með vanskapaðar hendur. Fötlun hans stuðlaði kannski að því að hann einangraðist félagslega og sökk í djúpt þunglyndi. Hann varð fráhverfur foreldrum sínum og systrum en taldi sig aðeins njóta sannmælis hjá afa sínum. Þegar afi hans lést í maí 1988 var það mikið áfall fyrir Miyazaki. Hann brást við með því að fremja sitt fyrsta viðurstyggilega morð.
Eitt af einkennum hans var að senda fjölskyldum fórnarlambanna póstkort með stuttri lýsingu á glæpunum auk þess sem hann átti til að angra fjölskyldurnar með símhringingum. Miyazaki var handtekinn þann 6. júní 1989 þegar hann var að reyna að tæla til sín enn eitt fórnarlambið. Hann var dæmdur til dauða og var loks hengdur í júní 2008.