Skiptum er lokið í búi Ingólfs Helgasonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings sem var úrskurðaður gjaldþrota þann 15.mars á þessu ári. Engar eignir fundust í búinu og því lauk skiptum án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur. Þær hljóðuðu upp á 639.594.807 krónur.
Ingólfur var árið 2015 dæmdur í fjögurra ára og sex mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í hinu stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings og árið 2016 var dómurinn staðfestur í Hæstarétti. Í málinu, sem var óumdeilanlega eitt stærsta dómsmál hrunáranna, voru níu stjórnendur og starfsmenn bankans ákærðir fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik í aðdraganda bankahrunsins. Ingólfur hlaut þyngsta dóminn í Héraðsdómi Reykjavíkur, fjögurra og hálfs árs fangelsi.
Snerist málið meðal annars um að stjórnendur Kaupþings hefðu haldið hnignandi hlutabréfaverði bankans uppi með því að láta bankann kaupa bréf í sjálfum sér í miklum mæli og selja þau svo aftur til félaga sem fengu lán með litlum sem engum veðum hjá Kaupþingi sjálfu.