fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

Þjálfari yngri flokka jarðar landsliðsmann sem hæðist að því að allir krakkar fái medalíu – „Knattspyrna barna er ekki knattspyrna fullorðinna“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 16. júlí 2018 10:42

Daði til vinstri Theódór Elmar til hægri

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hvað er langt þangað til að það verður bannað að keppa á HM og allir fá bikar og medalíur fyrir að taka þátt? Getum ekki látið fólk ganga í gegnum sorgina sem fylgir því að landið þeirra detti úr leik.“

Þetta skrifar landsliðsmaðurinn Theódór Elmar Bjarnason á Twitter. Theódór Elmar hefur verið viðloðandi landsliðið í knattspyrnu síðustu árin og verið atvinnumaður í fjölda ára. Það má segja að Theódór Elmar sé að gagnrýna þá þróun í mótum yngri flokka að allir fái verðlaunapening fyrir þátttöku. Það sé í raun verið að verðlauna meðalmennsku, eða „aumingjavæðingu“, eins og sumir vilja kalla það. Þessu svarar Daði Rafnsson en hann segir meðal annars en pistil hans má lesa í heild hér: „Það væri alveg hreint ótrúlega gaman að fá landsliðsmenn og atvinnumenn á æfingar hjá slíku barni til að segja við það að það sé ekki sigurvegari þótt það fái eina litla medalíu sem viðurkenningu fyrir að taka þátt í íþróttinni sem veitir því gleði og gerði þá efnaða og fræga.“

Gamall draugur

Tíst Theódórs Elmars fær nokkurn hljómgrunn á Twitter-síðu hans. Annar landsliðsmaður Ari Freyr Skúlason, Áslaug Arna þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Þorláksson fyrrverandi formaður ungra Sjálfstæðismanna og íþróttafréttamaðurinn Einar Örn Jónsson kunna að meta innlegg hans. Þá er einnig bent á að okkar bestu knattspyrnumenn hafi alist upp áður en  hin svokallaða „aumingjavæðing“ hófst.

Daði þykir einn færasti þjálfari landsins og var þjálfari og yfirþjálfari hjá Breiðablik og þá starfaði hann sem aðstoðarmaður Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar hjá JS Suning FC í Kína. Hann gagnrýnir skrif landsliðsmannsins harðlega og hefur pistill hans vakið mikla athygli. Daði birtir skrif Theódórs Elmars á Facebook-síðu sinni og segir:

„Langar að leggja orð í belg um gamlan draug sem deyr seint, vaknar alltaf upp við barna og unglingamót sumarsins og kemur meðal annars fram í meðfylgjandi tísti.“

Þá segir Daði:

„1. Knattspyrna barna er ekki knattspyrna fullorðinna.
2. Reynsluheimur barnsins er ekki eins og fullorðinna
3. Þátttökuverðlaun skipta suma litlu máli og aðra einhverju en eru ekki ábyrg fyrir allsherjar aumingjavæðingu
4. Ísland hefur aldrei náð betri árangri í fótbolta og hér hefur aldrei verið meiri velsæld heldur en eftir að allir urðu aumingjar

Allir sem kunna sitt fag vita að prósessinn skiptir meiru en tímabundin úrslit. Það var nákvæmlega það sem Heimir Hallgríms sagði fyrir HM, að íslensk knattspyrna stendur ekki og fellur með einu HM. Ef markmið þitt er að ala upp afreksfólk í knattspyrnu þarf það að einblína á prósessinn, og í honum felst að stundum vinnur maður og stundum tapar maður og það er lærdómur báðum megin.“

Daði bendir á að í íslenskri barnaknattspyrnu sé keppt til sigurs og við séum að reyna að verða betri.

„Það eru fáir krakkar sem rugla saman þátttökumedalíu við það að vinna mót. Það vita allir hverjir eru í A liði, hverjir eru nýbyrjaðir og hverjir eru í fótbolta því þar fá þeir mögulega alúð og athygli sem þá skortir heima fyrir. Þátttökumedalían segir ekki að allir séu jafnir og skulu fá jafna útkomu fyrir ójafnt framlag. Það er hvergi þannig í raun og veru. Þeir sem skara framúr fá verðlaunamedalíur, bikara, unglingalandsliðssæti, fleiri áhorfendur, meiri athygli, fleiri tækifæri til að sanna sig. En þátttökumedalíur geta verið jákvæður hvati fyrir fullt af krökkum sem fá sjaldan hrós, er ekki hampað og þurfa að vera í íþróttum á eigin forsendum.“

Þá segir Daði:

„Þótt þátttökumedalíur séu jafnvel afhentar fyrir mót hef ég ekki enn hitt neinn krakka sem leggur sig ekki 100% fram á mótinu vegna þessa. Og ég hef þjálfað ótrúlega mikið af krökkum. Sumir líta mögulega út fyrir að vera ekki að teygja sig í boltann eins og leikmaður á lokamínútum jafns leiks á HM en þekktir þú sögu þeirra myndir þú skilja að vera þeirra á mótinu er sigur í sjálfu sér. Fótbolti er vinsælasta íþrótt í heimi, ekki bara út af leiknum sjálfum heldur út af menningunni sem leyfir öllum að vera með og njóta á eigin forsendum.“

Engin ein uppskrift að árangri

Daði bendir á að krakkar geti verið í Íslandsmeistaraliði upp alla yngri flokka en hætt iðkun íþrótta um tvítugt.

„Sum af sigursælustu barnaliðum Íslands hafa ekki skilað einum einasta krakka upp í topp-meistaraflokk, hvað þá landslið,“ segir Daði og heldur áfram: „Sumt af okkar helsta afreksfólki náði sjaldan á pall sem krakkar. Við vitum að það þarf hæfileika, dug og kjark en líka tækifæri, heppni og fullt af fólki á bak við þá sem ná alla leið.

Það að einhver nái árangri á sér yfirleitt flóknar skýringar og engin uppskrift er eins. Það hvað megi telja árangur er einnig umdeilanlegt. Var silfurmedalían á Ólympíuleikunum 2008 eitthvað annað en þátttökumedalía? Voru það ekki Frakkar sem unnu mótið, stóðu upp sem sigurvegarar?“

Kveðst Daði ósammála slíkri túlkun því árangur velti alltaf á samhengi.

„Hér skal svo ekki gert lítið úr þeim vanda sem regnhlífauppeldi getur gert. En sumt af okkar helsta afreksfólki hefur beinlínis alist upp með regnhlíf plús fallhlíf frá foreldrum sínum í farteskinu. Það hver nær í gegn í lífinu er margslungið og flókið og tveir af síðustu þremur forsetum Bandaríkjanna komust inn í Harvard og Yale vegna peninga og tengsla foreldra sinna.“

Aumingjavæðingin

Theódór Elmar var ekki í hópnum sem keppti á HM í Rússlandi

Þá fjallar Daði um títtnefnda „aumgingjavæðingu“. Bendir Daði á þann árangur sem hefur náðst undanfarið.

„Stundum heyrist talað um að aumingjavæðing sé að fara illa með allt ungviðið okkar. Yfirleitt heyrist það frá karlmönnum, ungum sem öldnum sem hafa áhyggjur af því að ekkert megi nú lengur og að allir séu svo ofboðslega viðkvæmir fyrir öllu,“ segir Daði og heldur áfram: „En þrátt fyrir alla aumingjavæðinguna hefur líklega aldrei verið betra að alast upp á Íslandi. Og líklega fáir staðir í sögunni sem bjóða ungu fólki upp á jafn mörg tækifæri. Þessir aumingjans ofvernduðu krakkar hafa hvorki migið í saltan sjó né skipt um dekk og ætlast til að fá allt upp í hendurnar. En þau komast samt á EM og HM í fótbolta sem eldri kynslóðum tókst ekki. Aðrir eru tilnefndir til Grammy verðlauna eða sigra Evrópumót í frjálsum eða fimleikum. U16 ára landslið kvenna vann Þjóðverja í fyrsta sinn um daginn jafnvel þótt að ungir karlmenn sem eru hættir í fótbolta þrátt fyrir að þeim hafi verið skutlað á flestar æfingar hafi miklar áhyggjur af því að þær hafi fengið þátttökumedalíur þegar þær voru yngri.“

Daði lýkur pistli sínum á þessum orðum:

„Ég hef þjálfað krakka sem höfðu náttúrulega hæfileika til jafns við aðra en áttu ekki það bakland sem gefur forskot, foreldra sem koma á leiki, borga aukaæfingar, skutla og kaupa takkaskó. Krakka sem elda sjálfir, koma sér sjálfir á æfingar, taka áætlunarrútur á mót í Keflavík þegar liðsfélögunum er skutlað. Krakka sem lifa af aðstæður sem myndu brjóta aðra niður og sigrast á raunveruleikanum. Það væri alveg hreint ótrúlega gaman að fá landsliðsmenn og atvinnumenn á æfingar hjá slíku barni til að segja við það að það sé ekki sigurvegari þótt það fái eina litla medalíu sem viðurkenningu fyrir að taka þátt í íþróttinni sem veitir því gleði og gerði þá efnaða og fræga.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum
Fréttir
Í gær

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum