fbpx
Miðvikudagur 26.júní 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Orðið á götunni

Simmi Vill og Óli Valur

Fréttir

Óhugnanlegt barnsmorð: Eitt umtalaðasta morðmál síðari tíma í Danmörku

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 8. júlí 2018 21:00

Rannsóknardeild lögreglu að störfum

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margir sjónvarpsáhorfendur muna væntanlega eftir dönsku sjónvarpsþáttunum Rejseholdet sem sýndir voru hér á landi fyrir margt löngu og nutu mikilla vinsælda. En það eru kannski ekki allir sem vita að Rejseholdet var í raun og veru til sem sérstök deild hjá danska ríkislögreglustjóraembættinu og sá um rannsóknir alvarlegra afbrota um alla Danmörku. Málið sem hér er til umfjöllunar var það síðasta sem Rejseholdet rannsakaði og upplýsti áður en það var lagt niður eftir 75 ára sögu.

Það var föstudagskvöldið 27. júní 2003 að hin 12 ára gamla Mia sagði mömmu sinni að hún ætlaði að skjótast út á leikvöll en kæmi heim um 22. Hún bjó ásamt fjölskyldu sinni í Benløse sem er lítill bær á Sjálandi. Hún þurfti að hjóla smá spöl frá heimili sínu til leikvallarins en þar léku börn sér oft á kvöldin. Foreldrar hennar sofnuðu og vöknuðu ekki fyrr en klukkan 02.40 og sáu þá strax að Mia hafði ekki skilað sér heim. Þau hringdu í lögregluna og ákveðið var að ef Mia yrði ekki komin heim næsta morgun myndi þau hringja aftur. Þegar hún hafði ekki skilað sér klukkan 08.30 hófst leit að henni. Leitað var nærri leikvellinum og var fjöldi lögreglumanna við leit og lögregluhundar voru fengnir frá öðrum lögregluliðum. En leitin bar engan árangur. Lýst var eftir henni í sjónvarpsfréttum um kvöldið. Á sunnudeginum var enn viðameiri leit gerð að Miu. Leitað var í kjöllurum 630 heimila, sorprennum, gámum og lóðum húsa auk almenningsgarða. Um klukkan 14.30 fannst reiðhjól Miu í limgerði sem skilur tvo knattspyrnuvelli að á milli Asgårdsskólans og Benløseskólans. Þetta var tæplega 300 metra frá leikvellinum.

Mia Teglgaard Sprotte var aðeins 12 ára gömul þegar hún var myrt.

 

Í framhaldi af þessu var leitað í limgerðinu sem skilur leikvöllinn frá öðrum knattspyrnuvellinum. Það var um sjö metra breitt og tíu metra hátt og mjög gróskumikið. Í miðju þess var göngustígur sem ekki sást utanfrá. Síðdegis gaf einn lögregluhundanna til kynna að hann hefði fundið eitthvað. Það reyndist vera notaður smokkur. Nærri staðnum, þar sem smokkurinn lá, var eins og jarðveginum hefði verið raskað en erfitt var að átta sig alveg á því þar sem nýlega hafði rignt. Hundur var látinn leita á staðnum og var hann mjög ákafur og fór að grafa. Hann var stöðvaður og sérfræðingar lögreglunnar hófust handa við uppgröftinn. Á um 15 sm dýpi fannst grænt nælonband og á 40 sm dýpi kom blár fatnaður í ljós. Þegar lögreglumenn gerðu gat á fatnaðinn kom mannshúð í ljós. Líkið var grafið upp og fljótlega var ljóst að þarna var um lík Miu að ræða. Það var að hálfu án fata, áverkar voru á andlitinu og grænt nælonband var vafið utan um hálsinn og hnútur á því. Fatnaðurinn, sem vantaði, fannst í gröfinni.

Umfangsmikil rannsókn

Út frá því sem vitni sögðu var hægt að slá því föstu að Mia var á lífi klukkan 20.15 en þá sást til hennar hjóla á stígnum frá Benløseskólanum til leikvallarins. Smokkurinn var sendur til rannsóknar og leitað að DNA.

Laugardaginn 5. júlí barst lögreglunni ábending um að 22 ára karlmaður, Steffen Kristensen að nafni, hefði hugsanlega myrt Miu. Steffen bjó í Benløseparken. Hann var sagður hafa komið heim til sín að kvöldi 27. júní og hafi strax sett fötin sín í þvottavél og þvegið þau. Lögreglan ræddi við Steffen sem sagði þetta rétt vera og gaf þá skýringu að hann hefði fengið olíu af reiðhjóli sínu í buxurnar og því hefði hann þurft að þvo þær. Hann þvertók fyrir að vita nokkuð um morðið og bauðst til að láta lögreglunni DNA-sýni í té.

Þann 12. júlí barst niðurstaða úr rannsókn á smokknum og sýndi hún að DNA, sem fannst utan á honum, var úr Miu. Í sæðinu fannst fullkomin DNA-uppbygging sem reyndist vera úr manni sem var ekki á skrá lögreglunnar. Lögreglan ákvað nú að beina athyglinni að Steffen en hún hafði 60 nöfn grunaðra á skrá í málinu. Fjarvistarsönnun Steffen að kvöldi 27. júní reyndist ekki vera traust. Auk þess höfðu vitni séð til manns, sem líktist Steffen, nærri morðvettvanginum. Steffen var tekinn til yfirheyrslu á nýjan leik þann 14. júlí og blóðprufa tekin úr honum til DNA-rannsóknar. Húsleit var einnig gerð heima hjá honum en hann bjó í foreldrahúsum. Við leitina fundust umbúðir utan af smokkum sem og myndir af rössum barnungra stúlkna en myndirnar höfðu greinilega verið teknar á opnum svæðum í og við Benløseparken. Einnig fundust klámmyndir sem búið var að líma andlitsmyndir af ungum stúlkum á. Um kvöldmatarleyti fékkst staðfest hjá tæknideild lögreglunnar að smokkapakkinn, sem fannst í íbúð Steffen, passaði við umbúðirnar sem fundust við gröfina. Steffen var því handtekinn og yfirheyrður. Hann bar við minnisleysi en brotnaði saman um kvöldið og sagðist muna eftir að hafa grafið holu í miðju kjarri. Þegar færa átti hann fyrir dómara næsta morgun til að krefjast gæsluvarðhalds játaði hann að hafa myrt Miu. Hann sagðist hafa sett grænt nælonband utan um háls hennar og hert að. Hann sagðist því næst muna að hún hafi legið á jörðinni og hafi gefið undarleg hljóð frá sér og hafi hann þá misst stjórn á sér og stappað á hálsi hennar þrisvar sinnum. Hann sagðist því næst hafa klætt hana úr buxunum og brotið kynferðislega gegn henni.

Steffen Kristensen hlaut ævinlangan fangelsisdóm fyrir morðið á Miu.

Dómur kveðinn upp

Steffen sat í gæsluvarðhaldi þar til dómur var kveðinn upp í lok apríl 2004. Saksóknari krafðist þess að Steffen yrði dæmdur til ótímabundinnar vistunar í fangelsi en það er þyngsta mögulega refsing í Danmörku en til vara að hann yrði dæmdur í ævilangt fangelsi. Steffen var fundinn sekur um öll ákæruatriðin og dæmdur til ótímabundinnar vistunar í fangelsi. Steffen áfrýjaði dómnum strax en féll frá áfrýjuninni nokkrum vikum síðar.

Morðið á Miu vakti mikla athygli í Danmörku og mikil fjölmiðlaumfjöllun var um það enda um sérstaklega grimmdarlegt barnsmorð að ræða. Málið fékk að vonum mjög á íbúa í Benløse sem og í Danmörku allri.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Eldur í ruslatunnum í Heiðmörk: Stórhætta á gróðureldum

Eldur í ruslatunnum í Heiðmörk: Stórhætta á gróðureldum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ari Edwald ósáttur: Sakar Isavia um ólöglega mismunun – UPPFÆRT: Isavia svarar

Ari Edwald ósáttur: Sakar Isavia um ólöglega mismunun – UPPFÆRT: Isavia svarar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mótmæla fíkniefnaleit á fólki á Secret Solstice – Segja borgaraleg réttindi brotin

Mótmæla fíkniefnaleit á fólki á Secret Solstice – Segja borgaraleg réttindi brotin
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Lögfræðingurinn sofnaði á fundi þegar Borghildur barðist fyrir börnunum: „Hæstiréttur er búinn að staðfesta niðurstöðuna, sorrí“

Lögfræðingurinn sofnaði á fundi þegar Borghildur barðist fyrir börnunum: „Hæstiréttur er búinn að staðfesta niðurstöðuna, sorrí“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

627 brautskráðir frá Háskólanum í Reykjavík

627 brautskráðir frá Háskólanum í Reykjavík