„Ég kom engu niður og var stöðugt með hnút í maganum. Ég olli sjálfum mér vonbrigðum fyrir að hafa látið fjölskyldu mína þjást og ég óttaðist mjög að einhver myndi bera kennsl á mig,“ segir Sindri Þór Stefánsson sem flúði frá fangelsinu að Sogni á ævintýralegan hátt fyrir tveimur vikum, og var síðar handtekinn í miðborg Amsterdam. Sindri Þór er væntanlegur aftur til landsins í dag.
Greint er frá flótta Sindra Þórs til Svíþjóðar á vef New York Times. Sindri Þór veitti miðlinum símaviðtal úr fangelsinu í Amsterdam á dögunum. Blaðamaður segir þungan tón hafa verið í rödd hans en titill greinarinnar er „Hann flúði íslenskt fangelsi. Núna vill hann snúa aftur.“
Sindri segist ekki hafa átt nein samskipti við Katrínu Jakobsdóttur í flugvélinni á leið til Svíþjóðar heldur hafi hann látið lítið fyrir sér fara.
„Við spjölluðum ekkert saman. “ segir hann en hann kveðst hafa verið með derhúfu á höfði og forðast eftir fremsta megni að mynda augnsamband við aðra farþega. „Ég horfði niður eins mikið og ég gat.“
Sindri Þór ræðir ekki um Bitcoin málið heldur leggur hann áherslu á ástæðu þess að hann flúði af Sogni. Hann kveðst hafa séð eftir flóttanum um leið og hann lenti í Svíþjóð og tók eftir að greint hafði verið frá flóttanum í öllum helstu fjölmiðlum, og um leið birt af honum ljósmynd.
„Ég kom engu niður og var stöðugt með hnút í maganum. Ég olli sjálfum mér vonbrigðum fyrir að hafa látið fjölskyldu mína þjást og ég óttaðist mjög að einhver myndi bera kennsl á mig.“
Fram kemur að Sindri sé væntanlegur aftur til Íslands í dag, og að undanfarna daga hafi lögreglunni borist fjöldi ábendinga um hvar tölvurnar sé að finna. Jafnframt hafi fjöldi manns komið með ábendingar um hvar Sindra væri að finna, allt þar til hann var handtekinn í Amsterdam.
„Ég get sagt þér að almenningur á Íslandi er mjög áhugasamur um málið,“ segir Ólafur Kjartansson rannsóknarlögreglumaður í samtali við vefinn. „Ég er að fá spurningar á meðan ég sit í heita pottinum, frá vinum og kunningjum sem vilja vita hvort við séum búnir að finna hann.
Í greininni kemur einnig fram útlistun á aðstæðum fanga að Sogni. Blaðamaður segir Sogn líkara afskekktu tveggja hæða heimili heldur en afplánunarfangelsi. Fram kemur að fangar hafi sitt eigið herbergi með flatskjá og fái jafnframt að hafa farsíma. Þá fái þeir greidda jafnvirði 4 Bandaríkjadala á tímann fyrir að sinna hinum ýmsu heimilisstörfum. Rætt er við Guðmund Inga Þóroddsson formann Afstöðu sem lýsir umhverfinu á Sogni sem „vinalegu.“
„Sambandið á milli varðanna og fanganna er gott. Það eru aldrei nein slagsmál eða árekstrar.“
Fram kemur að Sindri hafi bókað flug til Svíþjóðar kvöldið fyrir flóttann, líkt og áður hefur verið greint frá í fréttum af málinu. Hann hafi síðan smeygt sér út um glugga á húsinu og húkkað sér til Keflavíkur, en áður hefur þó komið fram að grunur leiki á að hann hafi átt sér vitorðsmann.
Þá kemur fram að þegar til Stokkhólms var komið hafi hann ferðaðist með lest, leigubíl og ferju til Þýskalands í gegnum Danmörku og hitt þar „einstaklinga“ sem keyrðu hann til Amsterdam. Þar hafi hann aðeins fengið að njóta frelsisins í þrjár klukkustundir, en tveir vegfarendur náðu að smella af honum mynd á snjallsíma og tilkynna til lögreglu. Skömmu síðar hafi lögreglumaður nálgast Sindra og krafið hann um skilríki.
„Ég var bara á gangi þegar það gerðist,“ segir Sindri aðspurður um atvikið.
Jafnframt kemur fram að Sindri hafi áður hlotið dóma fyrir fíkniefnavörslu og ölvunarakstur en ekkert bendi til þess að hann hafi sambönd erlendis.
Sjálfur segist hann hafa verið edrú í meira en sjö ár og starfi við að búa til smáforrit og vefsíður. Þá gerir hann lítið úr því að hafa verið handtekinn fyrir kannabisræktun og segir ræktunina hafa verið „hliðarstarf.“
Þá segir hann handtökuna vegna Bitcoin málsins hafa átt sér tveimur dögum áður en hann hugðist flytja til Spánar ásamt konu sinni og þremur börnum og hefja nýtt líf.
Hann lýsir jafnframt aðstæðunum í fangelsinu í Amsterdam, en hann segist vera „bara númer“ innan veggjanna þar, vannærður og tortrygginn í garð hinna fanganna.
„Í samanburði við þetta eru fangelsi á Íslandi eins og hótel.“