„Ég heyrði í leikriti um daginn að þjáðum fíkli hefði liðið eins og „öskri í leit að munni“. Í dag líður mér nákvæmlega þannig þegar ég hugsa um heilbrigðiskerfið okkar,“ segir Katrín Oddsdóttir lögmaður og formaður Stjórnarskrárfélagsins. Í stuttri hugvekju á facebook lýsir hún því hvernig heimsókn með soninn á Barnaspítalann vakti hana til umhugsunar um ástand heilbrigðiskerfisins hér á landi. Bendir Katrín á að heilbrigðiskerfið er í eign landsmanna og því sé það á okkar ábyrgð að standa vörð um innviði þess.
„Tvær staðreyndir og smá hugleiðing:
Ég þreytist ekki á að hugsa um okkur sem mannapa. Við erum bara ein tegund dýra sem tókst að sölsa undir sig völd gagnvart öðrum dýrum og umhverfinu.
Það er oft tragíst að fylgjast með hvernig við förum með þessi völd en á tíðum er það líka algerlega stórfenglegt,“
ritar Katrín í færslu sinni.
„Í gær veiktist Aron skyndilega (barkabólga sem er ekkert alvarlegt en hefur þó mjög foreldra-taugaveiklandi einkenni). Við mæðgin enduðum í sjúkrabíl og auðvitað var það sjálf fjölskylduhetjan hann Gísli Birgir sem bar minn mann út í bíl og hlúði að honum svo fallega á leiðinni (takk kæru örlög fyrir að senda okkur hann Gísla okkar).
Katrín segir teymið sem tók við þeim á Barnaspítalanum hafa sýnt einstaka samkennd og fagmennsku.
„Ég sé mjög oft færslur á samfélagsmiðlum þar sem fólk er nánast klökkt að þakka fyrir þá þjónustu sem íslenskt heilbrigðisstarfsfólk veitir og held að það sé ekki síst vegna þess að við vitum að heilbrigðiskerfið fær ekki þá næringu sem það þarf til að fólkið sem vinnur þessi gríðarlega mikilvægu störf geti lifað með sóma og undir viðeigandi álagi.
Allavega, í sjúkrabílnum horfði ég á Aron (sem bar sig hetjulega í alla staði enda einstakt hreystimenni) og hugsaði hvað það væri merkilegt að þessir þrír fullorðnu karl-mannapar hefðu komið á þessari tækjafylltu bílagræju sótt litla veika mannapann minn og væru núna að bruna með okkur bæði inn á sérhannað „veikir litlir mannapar hús.“
Hún segir son sinn hafa á örskotsstundu farið frá því að vera „bláleitur, skjálfandi og í andnauð yfir í að samkjafta ekki um mikilvægan fróðleik á borð við það að það væru sebrahestar, klósett og mótorhjól í Bandaríkjunum, sem honum var umhugað að kæmi fram í sjúkraskýrslum sínum.“
„Hann vildi helst ekki fara af spítalanum og fannst mjög óréttlátt að fá ekki far heim í sjúkrabíl með Gísla sínum. Fyndnast var eiginlega þegar læknarnir voru hættir að stumra yfir honum og ljóst að hann var að snarhressast og við bara tvö eftir á stofunni og hann áttaði sig skyndilega á stöðunni og sagði hálfmóðgaður: „hey, hvar eru allir?“
Katrín segir þessa spítalaheimsókn hafa vakið hana til umhugsunar um innviði heilbrigðiskerfisins.
„Það sem ég hugsaði um á þessu litla ferðalagi, með strákinn minn sem var aldrei í hættu þótt lasinn væri, var hvað ég væri óendnalega heppin að einhver vildi gefa okkur alla þessa hjálp í þessum aðstæðum. En síðan mundi ég að við eigum þetta kerfi saman og allt sem í því er; húsin, bílana, stöðugildin, ruslatunnurnar, eplasvalana í ísskápnum o.s.frv.
Ég, Aron og þið öll sem þetta lesið eigum þetta saman og berum ábyrgð á að verja það saman. Við eigum nefnilega líka saman biðlistana á geðdeildunum, lymskulega einkavæðinguna, undirmönnun heilsugæslna og atgerfisflóttann úr hjúkrunarfræði. Saman eigum við líka skammarleg launakjör ljósmæðra, næringafræðinga og ræstitækna í heilbrigðisgeiranum (ha, nefndi einhver kvennastéttir?)“
Katrín tekur jafnframt fram að hugvekja hennar sé ekki skrifuð í þeim tilgangi að hrósa íslensku heilbrigðisstarfsfólki fyrir óeigingjarnt starf.
„Mig langar ekki til að mikla góðmennskuna sem fyllir þar nánast hvert einasta rými. Mig langar miklu frekar til að öskra eins hátt og ég get: „Þetta er ekki sjálfsagt og þetta er við það að hrynja. Við eigum þetta kerfi og við elskum það og við KREFJUMST þess að því sé bjargað!“