fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
FókusFréttir

Erika dýrkar Birki Bjarnason: Fékk sér húðflúr af eiginhandaráritun hans

Björn Þorfinnsson
Sunnudaginn 8. apríl 2018 10:00

Erika hitti Birki eftir leik Astona Villa og Wigan í ágúst. Íslenski landsliðsmaðurinn skoraði síðasta mark leiksins og það var Erika afar ánægð með. Hún mætti að sjálfsögðu í íslensku landsliðstreyjunni á leikinn og sú treyja er auðvitað merkt Birki.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óhætt er að fullyrða að Íslendingar séu orðnir spenntir fyrir því að sjá íslenska landsliðið í fótbolta mæta Argentínumönnum í Moskvu þann 16. júní næstkomandi. Það gildir þó um fleiri en Íslendinga. Hin chileska Erika Wood, gift tveggja barna móðir sem búsett er í Englandi, getur ekki beðið eftir leiknum og keppninni enda er íslenski landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason hennar eftirlætis knattspyrnumaður. Ástæðan er einföld, Birkir ber af öðrum mönnum í útliti og þokka. Í dag skartar Erika forláta húðflúri sem er gert eftir eiginhandaráritun kappans og hyggst dvelja á Íslandi þegar liðið hefur leik á HM.

Fékk gæsahúð yfir víkingaklappinu

Erika er kannski ekki líklegasti aðdáandi Birkis og íslenska landsliðsins. Eins og áður segir er hún upphaflega frá Chile en hún hefur verið búsett í Englandi í ellefu ár og er breskur ríkisborgari. Eins og áður segir er hún gift, Jim nokkrum Wood, og eiga þau tvo drengi saman. Hún starfar sem grunnskólakennari og hefur bara hóflegan áhuga á fótbolta. Allt þar til hún sá íslenska landsliðið og Birki Bjarnason spila.

„Ég hafði aldrei séð til íslenska liðsins þar til að þeir spiluðu gegn Englandi á EM. Leikurinn var að kvöldi til og Jim, eiginmaður minn, var að fylgjast með leiknum í sjónvarpinu. Ég hef aldrei stutt enska liðið og var því bara lögst upp í rúm,“ segir Erika. Skyndilega hefði hún heyrt tilkomumikinn hávaða berast frá sjónvarpinu. „Ég gekk þá fram og spurði Jim hvað þetta eiginlega væri. Hann svaraði því til að þetta væru íslensku áhorfendurnir að taka víkingaklappið. Ég fékk gæsahúð við að fylgjast með íslensku áhorfendunum og hélt með liðinu frá þessari stundu,“ segir Erika.

Skömmu síðar snerti bláklæddur síðhærður Íslendingur boltann og Erika varð þegar uppnuminn. „Ég spurði Jim strax hver þetta væri og hann hafði ekki hugmynd og þekkti engan íslensku leikmannanna. Ég komst stuttu síðar að því að þetta væri Birkir Bjarnason og frá þessari stundu var hann orðinn uppáhaldsleikmaðurinn minn,“ segir Erika.

Sá Birkir skora í fyrsta leiknum

Hún segist hafa fagnað ákaft þegar Íslendingum tókst hið ómögulega og sendu Englendinga heim og síðan þá hafi hún fylgst með liðinu og Birki. Á þessum tíma spilaði Birkir með svissneska liðinu Basel og því gat Erika ekki séð neina leiki með goðinu. Það breyttist í janúar 2017 þegar Birkir skrifaði undir samning við enska liðið Aston Villa frá Birmingham, sem er í rúmlega klukkutíma fjarlægð frá bænum þar sem Erika býr.

„Ég fylgdist mjög lítið með enska boltanum. Ég var ánægð þegar Birkir gekk til liðs við Aston Villa, því þá vissi ég að ég gæti séð fleiri leiki með honum,“ segir Erika. Til marks um hversu lítið hún vissi um enska boltann þá hafði hún ekki hugmynd um að Aston Villa er í Birmhingham-borg sem er stutt frá heimili hennar. „Það var vinur minn sem benti mér á það skömmu eftir að hann gekk til liðs við liðið og þá varð ég náttúrlega enn ánægðari,“ segir Erika.

Eins og alþjóð veit þá átti Birkir erfitt uppdráttar hjá Aston Villa til að byrja með og var Erika upptekinn við að verja sinn mann á spjallborðum og samfélagsmiðlum. „Hann fékk mjög ósanngjarna meðferð og stuðningsmenn Aston Villa gáfu honum engin grið,“ segir Erika.

Erika lét flúra eiginhandaráritun Birkis á handlegg sinn í heimsókn sinni til landsins í október.

Vegna anna í starfi og barnauppeldi þá hefur hún átt erfitt með að komast á leiki með Aston Villa. Það tókst ekki fyrr en í ágúst í fyrra þegar Erika fór einsömul á leik Aston Villa gegn Wigan Athletic í Carabao-bikarnum, að sjálfsögðu íklædd íslensku landsliðstreyjunni. Birkir var aldrei þessu vant í byrjunarliði Aston Villa og hann brást ekki væntingum Eriku. Hann rak smiðshöggið á 4-1 sigur Aston Villa með því að skora síðasta mark leiksins. Ekki minnkaði kæti Eriku eftir að hún fékk að hitta íslensku hetjuna sína eftir leikinn: „Ég var eiginlega alveg í losti og kom varla upp einu orði,“ segir Erika og gefur í skyn að það sé venjulega ekki vandamál hjá sér. Síðan skellihlær hún. Hún segir að Birkir hafi verið afar almennilegur á þessum stutta fundi þeirra og það hafi ekki dregið úr aðdáun hennar á honum og íslenska landsliðinu.

Erika hefur alla tíð verið hrifin af norðurljósunum og langað að berja þau augum. Hún hafi því ákveðið að skella sér ein í stutta ferð til Íslands í október í fyrra. „Maðurinn minn skildi ekkert í mér. Hann er ekki eins hvatvís og hrifnæmur og ég,“ segir Erika og hlær. Hún hafi skemmt sér afar vel í ferðinni og orðið enn hrifnari af landi og þjóð. Meðal annars brá hún sér á húðflúrstofu og lét listamanninn teikna eiginhandaráritun Birkis á handlegg sinn. „Hann áritaði landsliðstreyjuna mína og mér fannst þetta alveg kjörið,“ segir Erika.

Rúrik er leynivopnið

Önnur ferð hefur þegar verið skipulögð og nú verður eiginmaðurinn með í för. „Við erum búin að bóka ferð til Íslands í júní og ætlum að vera í Reykjavík þegar Ísland spilar gegn Argentínu. Ég get ekki beðið en Jim er enn hálf undrandi yfir þessu öllu saman,“ segir Erika og hlær dátt. Eins og áður segir er hún sjálf frá Chile og hún óskar frændum sínum frá Suður-Ameríku alls ills á fótboltavellinum. „Það er ekki hægt að halda með Argentínu í fótbolta, þeir eru svo góðir með sig,“ segir Erika. Að hennar sögn búist Argentínumenn við öruggum sigri og það væri þeim líkt að vanmeta íslenska liðið. „Ísland mun koma þeim verulega á óvart,“ segir Erika.

Það er ekki nóg með að Erika sé einlægur aðdáandi íslenska landsliðsins og Birkis Bjarnasonar. Hún er líka á fullu í því að afla Íslendingum stuðnings í Suður-Ameríku. „Ég og vinur minn erum með reikning á Twitter og Instagram þar sem við fjöllum um íslenska liðið og leikmenn þess. Á Twitter heitum við Adopta Islandia og tilgangurinn er að hvetja fótboltaáhugamenn sem eiga ekki lið á HM að styðja Ísland,“ segir Erika. Þau eru nýlega farin af stað og ætla að setja enn meiri kraft í verkefnið þegar nær dregur HM. „Ég reyni að fylgjast með fréttum af íslensku landsliðsmönnunum í Championship-deildinni, Herði, Jóni Daða og Aroni Einari. Svo fylgist ég líka með Jóhanni Berg og Gylfa í úrvalsdeildinni eins og hægt er. Vinur minn sér síðan um fréttir af öðrum leikmönnum liðsins,“ segir Erika. Gjörvileiki Birkis dugar þó ekki einn til og til þess að vekja áhuga suðuramerískra kvenna á liðinu þá er Erika með leynivopn uppi í erminni. „Ég sýndi vinkonum mínum frá Chile myndir af Rúrik Gíslasyni. Hann er ekki mín týpa, þótt glæsilegur sé, en þær kolféllu fyrir honum og ætla að styðja Ísland á HM. Það er eins gott að hann verði í hópnum,“ segir Erika og hlær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Heiðar tjáir sig um Kveiksmálið og segir engin annarleg sjónarmið búa að baki ákvörðuninni

Heiðar tjáir sig um Kveiksmálið og segir engin annarleg sjónarmið búa að baki ákvörðuninni
Fréttir
Í gær

Sverrir tjáir sig um handtökuna – „Hissa á þessu leikriti“

Sverrir tjáir sig um handtökuna – „Hissa á þessu leikriti“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allt vitlaust út af brottrekstri Maríu Sigrúnar úr Kveik og kollegar grípa til varna – „Eru þau ömurlegu orð Ingólfi Bjarna til ævarandi minnkunar“

Allt vitlaust út af brottrekstri Maríu Sigrúnar úr Kveik og kollegar grípa til varna – „Eru þau ömurlegu orð Ingólfi Bjarna til ævarandi minnkunar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigríður Hrund dregur forsetaframboð sitt til baka

Sigríður Hrund dregur forsetaframboð sitt til baka
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“