fbpx
Mánudagur 15.júlí 2019  |

DV - Frjáls og óháður miðill

Fréttir

Þyrla Landhelgisgæslunnar leigð undir útsýnisflug með auðkýfing

Tveggja tíma flug yfir Jökulsárlón – Fjölmennt fylgdarlið um borð

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 9. mars 2018 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Síðastliðinn laugardag var TF-SYN, ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar, nýtt til að fljúga með stóran hóp á vegum erlends auðmanns í útsýnisflug yfir Jökulsárlón. Ferðin tók um tvær klukkustundir og þurfti sérstaklega að breyta innvolsi þyrlunnar svo hún hentaði undir farþegaflutninga. Talsmaður Landhelgisgæslunnar segir að slíkar beiðnir séu afar fátíðar og hvert og eitt tilvik sé metið sérstaklega. Þá sé önnur áhöfn og þyrla til taks ef upp kemur útkall sem bregðast þarf við. Í janúar var stjórnendum Landhelgisgæslunnar gert að finna leið til að hækka sértekjur stofnunarinnar en um 60 milljónir króna vantar inn í reksturinn.

Heimild til slíkra samninga í lögum

Landhelgisgæslan starfrækir þrjár þyrlur, TF-LIF, TF-GNA og TF-SYN. Sú síðastnefnda var notuð í útsýnisflugið. Hún er nýjasta viðbótin í flota Landhelgisgæslunnar en hún var leigð af norska fyrirtækinu Norsk Helicopter í febrúar 2012. Þyrlan tekur 18 farþega auk 5 manna áhafnar sem var einmitt ástæða þess að leitað var til Landhelgisgæslunnar vegna útsýnisflugsins. Fylgdarlið auðmannsins var æði fjölmennt og íslensk þyrluþjónustufyrirtæki réðu ekki við verkefnið.

„Beiðnin kom til flugdeildar í gegnum innlenda þyrluþjónustu sem gat ekki orðið við tæknilegum öryggiskröfum varðandi ferðina. Í svona tilvikum þarf verkbeiðandi að senda staðfestingu þess efnis að leitað hafi verið allra leiða til þess að leysa verkefnið, áður en haft er samband við okkur. Landhelgisgæslan hefur heimild í lögum til þess að ganga til slíkra samninga. Aðstæður voru heppilegar í þessu tilviki og því var ákveðið að fara í verkið,“ segir Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðarsviðs Landhelgisgæslunnar. Hann segir að verkefnið sé ekki öðruvísi en ýmis verkflug sem Landhelgisgæslan tekur af og til að sér, til dæmis krókavinnu.

Viðbúnaðargeta ekki skert

Í nýlegri skýrslu innanríkisráðuneytisins vegna væntanlegra þyrlukaupa Landhelgisgæslunnar kemur fram að til þess að stofnunin geti sinnt lögboðnu hlutverki sínu þurfi hún að hafa tvær þyrlur til taks allan sólarhringinn allt árið um kring. Einnig er þar bent á að það þurfi sjö til átta áhafnir í vaktavinnu til að manna þyrlurnar allan sólarhringinn.

Aðspurður hvort ekki hefði getað skapast hætta á meðan að TF-SÝN var upptekin við að sinna verkefni í ferðaþjónustu segir Ásgrímur svo ekki vera. „Áhöfn þyrlunnar í þessari ferð var keypt að hluta til. Það var því önnur þyrluáhöfn og þyrla til taks ef nauðsyn bæri til. Að okkar mati var því um viðbótargetu að ræða. Það er forsenda fyrir því að taka að sér slík verkefni að viðbúnaðargeta okkar sé ekki skert,“ segir Ásgrímur. Hann segir að ef allt hefði farið á versta veg og þyrluna hefði þurft í brýnt neyðartilfelli þá hefði útsýnisflugið verið stöðvað, farþegarnir settir út við heppileg skilyrði og þyrlunni flogið til bjargar.

Ásgrímur vildi ekki veita upplýsingar um tekjur Landhelgisgæslunnar af verkefninu eða hver það var sem flogið var með.

Áttu að auka sértekjur

Tíðar fréttir hafa verið af önnum flugdeildar Landhelgisgæslunnar. Árið 2016 var metár þegar 251 útkall var skráð, ári síðar voru þau orðin 257 og tíðni útkalla það sem af er ári er slík að reikna má með öðru metári. Fleiri útköll þýða að minni tími gefst til að sinna eftirliti, löggæslu og þjálfun áhafna.

Þá hefur ítrekað komið fram undanfarin ár að Landhelgisgæslunni er naumt skammtað fé. Í fjárlögum fyrir árið 2018 var enn frekar skorið inn að beini í rekstri stofnunarinnar en þá voru framlög til rekstrar lækkuð um 20,2 milljónir króna. Sögðu forsvarsmenn stofnunarinnar að um sextíu milljónir króna vantaði upp á tekjuhliðina fyrir árið í fjárhagsáætlun stofnunarinnar. Í kjölfarið kviknuðu hugmyndir um að leigja TF-SÝN til verkefna erlendis í tvo mánuði hið minnsta á þessu ári. Þeim hugmyndum var sópað af borðinu eftir fund stjórnenda Landhelgisgæslunnar með embættismönnum í dómsmálaráðuneytinu um miðjan janúar.

Í viðtali við RÚV sagði Sveinn H. Guðmarsson, þáverandi upplýsingafulltrúi Gæslunnar, að þyrlan yrði ekki leigð út erlendis en stofnunin ætti að finna leiðir til þess að hækka sértekjur sínar. „Við erum ekki búin að finna þær leiðir, eins og sakir standa, enda er þetta tilkomið mjög nýlega, en það ætti að koma í ljós síðar,“ sagði Sveinn orðrétt í viðtalinu.

Í ljósi þessara tíðinda af útsýnisflugi með auðkýfing og fylgdarlið hans þá er ekki úr vegi að spyrja hvort sú tekjuleið sé fundin. Ásgrímur segir svo ekki vera. „Beiðnir sem þessar berast sárasjaldan inn á okkar borð. Ef mig minnir rétt þá eru að minnsta kosti fimm ár síðan farið var í slíkt verkefni. Ég efast því stórlega um að slíkar ferðir verði reglulegar,“ segir Ásgrímur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Yfirheyrslan: Karítas Harpa telur samskipti Tomma og Jenna byggð á misskilningi

Yfirheyrslan: Karítas Harpa telur samskipti Tomma og Jenna byggð á misskilningi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Aflskortur í aðsigi

Aflskortur í aðsigi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Viltu komast upp með kynferðisbrot?

Viltu komast upp með kynferðisbrot?
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Börnin okkar eru komin á Tinder – Auglýst eftir börnum allt niður í níu ára

Börnin okkar eru komin á Tinder – Auglýst eftir börnum allt niður í níu ára
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Lögregla kölluð út vegna konu sem var undarleg í háttum og ferðamanns sem hafði læst sig inni á almenningssalerni

Lögregla kölluð út vegna konu sem var undarleg í háttum og ferðamanns sem hafði læst sig inni á almenningssalerni
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Svæsið klám í Bláa lóninu – Myndband úr búningsklefa á stærstu klámsíðu heims

Svæsið klám í Bláa lóninu – Myndband úr búningsklefa á stærstu klámsíðu heims