fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Þetta gera þau núna

Mjög misjafnt hvað fyrrverandi þingmenn hafa fyrir stafni

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 25. apríl 2017 09:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aldrei hafa jafnmargir þingmenn vikið af þingi eins og í síðustu alþingiskosningum en alls hættu 32 þingmenn eða náðu ekki kjöri. Þingmennirnir koma úr öllum flokkum sem sæti áttu á þingi og hafa þeir fjölbreyttan bakgrunn hvað varðar menntun og fyrri störf. Nú um komandi mánaðamót missa þeir þingmenn sem setið höfðu í tvö kjörtímabil eða lengur á þingi rétt sinn til greiðslu biðlauna en samkvæmt lögum um þingfararkaup en sá réttur sex mánuðir. Þeir þingmenn sem setið höfðu eitt kjörtímabil fengu hins vegar síðustu biðlaunagreiðslu sína 1. febrúar síðastliðinn en biðlaunaréttur þeirra er þrír mánuðir. Mjög misjafnt er hvað þingmennirnir fyrrverandi hafa fundið sér að gera að lokinni þingsetu. Nokkrir þeirra hafa verið skipaðir í opinberar nefndir eða ráð, aðrir hafa fengið störf í einkageiranum. Sumir hafa hafið eigin rekstur og einhverjir hafa enn ekki fundið sér neitt að gera.

DV greindi frá því í nóvember síðastliðnum að myndu allir þingmennirnir 32 fullnýta biðlaunarétt sinn næmi kostnaður ríkissjóðs ríflega 187 milljónum króna. Hins vegar er það svo, samkvæmt lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, að taki þingmaður eða ráðherra sem hverfur af þingi við nýju starfi þar sem launagreiðslur eru jafn háar eða hærri en biðlaunagreiðslur falla hinar síðarnefndu niður. Séu launin í nýju starfi lægri en biðlaunaréttur skal greiða launamismuninn til loka biðlaunatímabilsins. Kostnaður ríkissjóðs verður eitthvað lægri en umræddar 187 milljónir króna því að minnsta kosti hluti þingmannanna fyrrverandi hefur hafið störf á nýjum vettvangi. DV kannaði hvað alþingismennirnir fyrrverandi hafa nú fyrir stafni.

Samfylking

Katrín Júlíusdóttir var ráðin framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.

Katrín Júlíusdóttir var ráðin framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.

Átta þingmenn Samfylkingarinnar ýmist ákváðu að láta af þingmennsku eða náðu ekki endurkjöri í síðustu kosningum. Allir nema einn, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, höfðu setið lengur en eitt kjörtímabil.

Katrín Júlíusdóttir: Ráðin framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja í október síðastliðnum.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir: Tók til starfa sem hagfræðingur Alþýðusambands Íslands í janúar.

Árni Páll Árnason: Vinnur að því að koma á laggirnar ráðgjafarfyrirtæki.

Kristján L. Möller: Var skipaður í starfshóp samgönguráðherra til að kanna möguleika á framkvæmdum á stofnleiðum í nágrenni Reykjavíkur og fjármögnun þeirra. Var einnig skipaður í nefnd um aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands sem kjörin var af Alþingi 22. desember 2016.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir: Sótti um stöðu safnstjóra Listasafns Íslands en hlaut ekki stöðuna. Er sjálfstætt starfandi þjóðfræðingur og sinnir nú um stundir sjálfstæðu rannsóknarverkefni.

Valgerður Bjarnadóttir: Sótti um starf sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar en var ekki ráðin. Í samtali við DV sagði Valgerður: „Ég er bara að vera til.“

Helgi Hjörvar: Upplýsingar fengust ekki.

Össur Skarphéðinsson: Upplýsingar fengust ekki.

Framsóknarflokkur

Willum Þór framlengdi samning sinn við KR eftir kosningar.

Willum Þór framlengdi samning sinn við KR eftir kosningar.

Hvorki meira né minna tólf þingmenn Framsóknarflokksins létu af þingmennsku við síðustu kosningar. Níu þeirra gáfu ekki kost á sér til endurkjörs en þrír féllu af þingi enda hlaut flokkurinn sína verstu kosningu frá upphafi. Sigrún Magnúsdóttir naut sex mánaða biðlaunaréttar sem ráðherra og einnig Ásmundur Einar Daðason sökum þess að hann hafði setið lengur en eitt kjörtímabil. Aðrir þingmenn flokksins nutu þriggja mánaða biðlauna.

Karl Garðarsson: Hefur stofnað ferðaþjónustufyrirtækið Chasing Iceland og vinnur við það.

Líneik Anna Sævarsdóttir: Hóf diplómanám í opinberri stjórnsýslu um áramótin. Hefur jafnframt störf um komandi mánaðamót hjá Austurbrú, við verkefnastjórn í símenntun.

Willum Þór Þórsson: Var endurráðinn þjálfari karlaliðs KR í knattspyrnu strax að loknum kosningum.

Páll Jóhann Pálsson: Hóf aftur störf í útgerð sinni Marveri ehf. í Grindavík, sem á og rekur bátana Daðey I og Daðey II.

Haraldur Einarsson: Hóf búskap ásamt fjölskyldu sinni á Urriðafossi í Flóahreppi.

Ásmundur Einar Daðason: Fór að fullu í búskap að Þverholtum í Borgarfirði, sem hann hafði áður sinnt með þingstörfum.

Jóhanna María Sigmundsdóttir: Fór að fullu í búskap með fjölskyldu sinni að Mið-Görðum í Borgarbyggð.

Þorsteinn Sæmundsson: Tók við fyrri stöðu sinni sem sérfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Frosti Sigurjónsson: Sinnir ráðgjafastörfum fyrir nýsköpunarfyrirtæki og hefur fjárfest í minni sprotafyrirtækjum. Í samtali við DV sagðist Frosti jafnframt reyna að sinna fjölskyldunni og heilsunni betur, meðal annars tók hann þátt í Íslandsmótinu í skvassi um liðna helgi.

Sigrún Magnúsdóttir: Segist í samtali við DV engum skyldum hafa að gegna, hún njóti þess og hlakkar til sumarsins.

Höskuldur Þórhallsson: Íhugaði framboð til formanns KSÍ en lét ekki verða af því. Sótti um embætti dómara við Landsrétt ásamt fleirum en ekki er búið að skipa í embættin.

Vigdís Hauksdóttir: Upplýsingar fengust ekki.

Björt framtíð

Páll Valur sótti um stöðu bæjarstjóra í Grindavík en var ekki ráðinn.

Páll Valur sótti um stöðu bæjarstjóra í Grindavík en var ekki ráðinn.

Þrír þingmenn Bjartrar framtíðar ákváðu að hverfa á önnur mið fyrir kosningar og gáfu ekki kost á sér til endurkjörs. Sá fjórði, Páll Valur Björnsson, náði ekki endurkjöri. Páll og Brynhildur Pétursdóttir höfðu setið eitt kjörtímabil en þeir Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall lengur.

Brynhildur Pétursdóttir: Stýrir skrifstofu Neytendasamtakanna á Akureyri, frá því í byrjun árs. Er einnig ritstjóri Neytendablaðsins.

Guðmundur Steingrímsson: Vinnur að stofnun útgáfufélags með fyrrverandi samflokksmanni sínum Róbert Marshall en segir ótímabært að greina frekar frá verkefninu að sinni.

Róbert Marshall: Vinnur að stofnun útgáfufélags með fyrrverandi samflokksmanni sínum Guðmundi Steingrímssyni en segir ótímabært að greina frekar frá verkefninu að sinni. Róbert hefur auk þess sinnt ýmsum verkefnum tengdum fjallamennsku, leiðsögn og þjálfun þar á meðal.

Páll Valur Björnsson: Sótti um stöðu bæjarstjóra Grindavíkur en var ekki ráðinn. Vinnur sem forfallakennari við Grunnskóla Grindavíkur og einnig við undirbúning næsta námsvetrar hjá Fisktækniskóla Íslands í Grindavík, en að óbreyttu mun Páll Valur kenna við skólann næsta vetur.

Sjálfstæðisflokkur

Ragnheiður Elín nýtir nú þekkingu sína í þágu bandarískrar hugveitu.

Ragnheiður Elín nýtir nú þekkingu sína í þágu bandarískrar hugveitu.

Tveir ráðherrar, forseti Alþingis og þrír almennir þingmenn Sjálfstæðisflokksins létu af þingmennsku í síðustu kosningum en enginn þeirra gaf kost á sér til áframhaldandi þingsetu. Elín Hirst hafði setið í eitt kjörtímabil en aðrir lengur.

Einar K. Guðfinnsson: Var kjörinn stjórnarformaður Landssamtaka fiskeldisfyrirtækja í október síðastliðnum.

Ragnheiður Elín Árnadóttir: Var ráðin sem sérfræðingur í orkumálum hjá bandarísku hugveitunni The Atlantic Council í byrjun mars.

Illugi Gunnarsson: Verður skipaður stjórnarformaður Byggðastofnunar í dag, þriðjudag, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Illugi var einnig skipaður í verkefnastjórn forsætisráðherra um endurmat á peningastefnu.

Elín Hirst: Sótti um starf upplýsingafulltrúa Umhverfisstofnunar en var ekki ráðin. Frekari upplýsingar fengust ekki.

Hanna Birna Kristjánsdóttir: Uppfært: Hefur frá því hún lét af þingmennsku verið starfandi stjórnarformaður Women Politikcal Leaders – Global Forum.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir: Upplýsingar fengust ekki.

Vinstri græn

Ögmundur sinnir nú sínum eigin hugðarefnum

Ögmundur sinnir nú sínum eigin hugðarefnum

Aðeins einn þingmanna Vinstri grænna lét af þingmennsku, Ögmundur Jónasson, sem ekki gaf kost á sér til endurkjörs. Ögmundur hefur að eigin sögn einkum sinnt hugðarefnum sínum. Hefur átt í erlendu samstarfi á sviði mannréttinda- og verkalýðsmála. Hefur staðið fyrir sjálfstæðum fundum um pólitísk mál.

Píratar

Helgi Hrafn vildi ekkert segja DV um hvað hann hefði fyrir stafni þessa dagana.

Helgi Hrafn vildi ekkert segja DV um hvað hann hefði fyrir stafni þessa dagana.

Einn þingmaður Pírata gaf ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu. Það var Helgi Hrafn Gunnarsson, sem setið hafði á þingi eitt kjörtímabil. Þegar DV hafði samband við Helga og innti hann eftir því hvað hann væri að gera í dag sagðist Helgi ekki vilja svara því.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa
Fréttir
Í gær

Sigur hjá Harvey Weinstein: Dómi gegn honum í New York snúið við

Sigur hjá Harvey Weinstein: Dómi gegn honum í New York snúið við
Fréttir
Í gær

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“