fbpx
Föstudagur 23.maí 2025
Fréttir

Gísli telur að bylting sé handan við hornið

Gengi rafmyntarinnar Bitcoin hefur sjöfaldast það sem af er ári – Er bylting í vændum eða bóla sem springur?

Björn Þorfinnsson
Fimmtudaginn 23. nóvember 2017 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við eigum eftir að tala um áhrif Bitcoin á sama hátt og áhrif internetsins,“ segir Gísli Kristjánsson, einn af stofnendum Monerium ehf., í samtali við DV. Gísli hefur í nokkur ár kafað ofan í allar hliðar kerfisins og haldið fyrirlestra um málefnið. Hann telur líklegt að bylting sé handan við hornið. „Greiðslumiðlun í framtíðinni verður ókeypis og milliliðirnir eru á útleið. Í fyrsta skipti í sögunni er kominn stafrænn gjaldmiðill sem ekki er hægt að fjölfalda og fólk getur sent heimshorna á augnabliki. Möguleikarnir sem skapast þess vegna eru gríðarlegir,“ segir Gísli. Rafgjaldmiðillinn var til að byrja með fyrst og fremst álitinn kjörið verkfæri fyrir óprúttna aðila í undirheimastarfsemi. Smátt og smátt eru hins vegar augu heimsins að opnast fyrir möguleikum tækninnar og afleiðing þess er að gengi Bitcoin hefur verið á mikilli siglingu árið 2017. Í byrjun árs var gengi gjaldmiðilsins um 1.000 bandarískir dollarar en í október fór gengið yfir 7.000 dollara markið. Að mati Gísla er það þó aðeins byrjunin og að grunnurinn á bak við byltinguna sé svokölluð raðreita-tækni (e. Blockchain) sem Bitcoin byggir á.

Dularfullur stofnandi.

Þann 18. ágúst 2008 var lénið bitcoin.org skráð og í byrjun næsta árs, nánar tiltekið 3. janúar 2009, var sjálft bitcoin-kerfið gefið út og fyrstu viðskiptin áttu sér stað. Stofnandi Bitcoin var hinn dularfulli Satoshi Nakamoto en enginn veit hver sá ágæti maður er þótt kenningarnar séu margar. Þá þarf ekki að vera að hann sé einstaklingur heldur hópur fólks. Stofnandinn sjálfur gróf eftir fyrstu myntunum og hlaut 50 slíkar einingar í sinn hlut. Sá fyrsti sem stökk á vagninn var bandaríski forritarinn Hal Finney og hann var viðtakandi fyrstu millifærslunnar þegar Nakamoto lagði inn á hann 10 bitcoin-einingar. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar.

##„Bitcoin er í raun og veru bara bókhaldskerfi“

Einn stærsti kostur Bitcoin er sá að kerfið er fullkomlega dreifistýrt og er ekki háð neinni opinberri stofnun né seðlabanka. „Bitcoin er í raun og veru bara bókhaldskerfi. Allir notendur hafa aðgang að öllum færslum sem hafa átt sér stað og því geta allir séð hvaða upphæð er á hverjum og einum reikningi í kerfinu,“ segir Gísli. Það myndi þó reynast tímafrekt því mögulegur fjöldi reikninga er nánast óendanlegur og hvað þá hver eigandinn er. „Það eru engar persónuupplýsingar sem tengjast hverjum reikningi fyrir sig. Hver og einn notandi á yfirleitt marga tugi reikninga og dreifir eign sinni á þá,“ segir Gísli. Feimnir auðmenn geta því enn hulið hver raunveruleg eignastaða þeirra er, (sem og fjármálaglópar sem spila sig stóra) og millifært brot af sjóði sínum inn á aðra reikninga þegar þeir ætla að standa í einhverjum viðskiptum. „Ef við ætlum að eiga í viðskiptum með Bitcoin og þú gefur mér upp reikningsnúmerið þitt þá sé ég nákvæmlega hver staðan er á honum,“ segir Gísli. Þannig þarf ekki að treysta gagnaðila í viðskiptum, það liggur einfaldlega strax fyrir hvort viðkomandi geti greitt eins og samið er um.

Takmörkuð auðlind

Aðeins verður 21 milljón Bitcoin-eininga gefin út og þegar þessi orð eru skrifuð eru 16.679.838 einingar komnar í umferð. Á degi hverjum bætist við fjöldann og það gerist með svokölluðum grefti (e. mining). Gísli segir að þessi orðanotkun sé líklega tilkomin sem tilvísun í gullgröft. „Það sem raunverulega er að gerast er að aðilar eru að leggja til tölvubúnað til þess að halda kerfinu gangandi. Fyrir þá gagnavinnslu fá þeir greitt í Bitcoin,“ segir Gísli. Það er þónokkuð í að allar Bitcoin-einingarnar verði komnar í umferð. Miðað við útreikninga þá má reikna með því að síðasta Bitcoin-einingin verði „grafin upp“ árið 2140. Óvíst er hvaða hvata „grafarar“ hafa þá til þess að leggja til tölvubúnaðinn en líklega munu þeir þá treysta á lágar þóknanir fyrir millifærslur. Einnig má gera ráð fyrir að talsverðar tækniframfarir verði á næstu 120 árum og því líklegt að nauðsynleg gagnavinnsla verði margfalt hagkvæmari en þekkist á okkar tímum.

Bóla eða bylting

Segja má að rafmyntin Bitcoin standi á krossgötum þessi dægrin og margir velta því fyrir sér hvort taka eigi myntina alvarlega eða hvort um bólu sé ræða sem muni springa á endanum. „Við skulum ekki gleyma því hvað sagt var um internetið til að byrja með. Samfélag okkar í dag er óhugsandi án internetsins en þegar tæknin kom fyrst fram á sjónarsviðið var hún mjög takmörkuð og léleg. Byltingin gerðist ekki á einni nóttu heldur í litlum skrefum þar til allt sprakk út. Að mínu mati mun það sama gerast varðandi Bitcoin og tæknina sem liggur að baki henni. Ég býst við því að það verði sprenging innan næstu fimm ára og síðan þróist tæknin hratt á næstu einum til tveimur áratugum,“ segir Gísli.

Hann segir mikilvægt að hafa í huga að Bitcoin sé eitt en tæknin á bak við rafmyntina, svokölluð blockchain-tækni, sé annað og í raun og veru mikilvægari. „Möguleikarnir varðandi hvað sé hægt að byggja ofan á blockchain-tæknina eru gríðarlegir. Með þessari tækni er hægt að halda utan um margs konar gögn og opinberar skráningar sem gerir stór og kostnaðarsöm kerfi óþörf,“ segir Gísli.

Annað dæmi um byltinguna sem gæti verið í vændum er í tengslum við viðskiptamódel á netinu. „Í dag eru í raun og veru bara tvö viðskiptamódel í gangi á netinu, ef verslun þar sem fólk greiðir fyrir vörur eða þjónustu er undanskilin. Það eru annars vegar einhvers konar áskriftargreiðslur eða þá að greitt sé fyrir auglýsingar. Það er engin skilvirk leið til þess að borga örlitlar upphæðir fyrir tiltekna þjónustu. Bitcoin gæti umbylt þeim veruleika. Veski notandans með rafmyntinni verður innbyggt í vafra og þar er auðvelt fyrir neytandann að borga einhverjar krónur eða aura á augnabliki. Til dæmis gætu fjölmiðlar rukkað fyrir hvert lesið orð á vefsíðum sínum,“ segir Gísli kíminn.

Fjármálafyrirtæki að opna augun

Það sem fyrst og fremst útskýrir aukið verðmæti Bitcoin er að áhugi einstaklinga og fyrirtækja á að nota myntina er að aukast; einfaldlega framboð og eftirspurn. „Augu fjármálafyrirtækja eru að opnast og smám saman er farið að taka Bitcoin alvarlega. Fólk er farið að átta sig á tækninni og hvaða möguleika hún gefur og þannig eykst áhuginn,“ segir Gísli. Hann nefnir sem dæmi að nýlega sendi CME, stærsta afleiðukauphöll í heimi, frá sér tilkynningu þess efnis fljótlega yrði boðið upp á afleiðuviðskipti í tengslum við Bitcoin-myntina sem sé gríðarstórt skref.

„Fyrst var gert grín að Bitcoin og því haldið fram að myntin væri eingöngu til svartamarkaðsbrasks. Það var ekki raunin og að mínu mati þurfa fjármálastofnanir að taka tæknina mjög alvarlega. „Það er ekki nóg að vera skilvirkari í því sem gert er í dag heldur þurfa fjármálastofnanir að átta sig á því að veruleiki þeirra að breytast. Það vill enginn sitja eftir sem Kodak eða Nokia,“ segir Gísli.

Sumir hafa gengið svo langt að spá að ríkisgjaldmiðlar muni deyja út með tilkomu rafmyntanna en Gísli tekur ekki undir þær spár. „Eins og staðan er í dag þá er mikil áhætta fólgin í fjárfestingum í Bitcoin. Verðið sveiflast mikið þótt til lengri tíma sé kúrfan á hraðri uppleið. Stöðugleiki næst líklega ekki fram strax varðandi gengið og þá er erfitt að treysta á myntina varðandi til dæmis launagreiðslur. Það sem núverandi gjaldmiðlar gera mjög vel, að minnsta kosti til skemmri tíma, er að þeir halda verðgildi sínu. Ég myndi telja góðar líkur á að í nánustu framtíð muni helstu gjaldmiðlar heimsins færast inn í blockchain-tæknina,“ segir Gísli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Stór aðgerð í Vesturbæ Reykjavíkur – Viðbragðsaðilar á Hjarðarhaga

Stór aðgerð í Vesturbæ Reykjavíkur – Viðbragðsaðilar á Hjarðarhaga
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Egill segir samanburð Viðskiptaráðs kjánalegan – „Þetta er skrítin framsetning hjá Viðskiptaráði“

Egill segir samanburð Viðskiptaráðs kjánalegan – „Þetta er skrítin framsetning hjá Viðskiptaráði“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Þrír réðust á ungmenni í Hafnarfirði og ógnuðu með hnífi

Þrír réðust á ungmenni í Hafnarfirði og ógnuðu með hnífi
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Trump er ósáttur – „Andlega óhæfur bjáni“

Trump er ósáttur – „Andlega óhæfur bjáni“
Fréttir
Í gær

Sigþór með skilaboð til reiða fólksins: „Forgangsröðunin verður að breytast núna ef ekki á illa að fara“

Sigþór með skilaboð til reiða fólksins: „Forgangsröðunin verður að breytast núna ef ekki á illa að fara“
Fréttir
Í gær

Gunni Helga reiður og pirraður: Áttaði sig á því í gær að launin hans hefðu lækkað – „Ég skammast mín fyrir að hafa ekki vitað um þetta fyrr“

Gunni Helga reiður og pirraður: Áttaði sig á því í gær að launin hans hefðu lækkað – „Ég skammast mín fyrir að hafa ekki vitað um þetta fyrr“