Zulma Ruth er ómeidd eftir slysið
Myndir af bílveltu við Bónus-verslun í Árbæ í gær hafa vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum. Blessunarlega urðu engin slys á fólki og í því ljósi voru netverjar fljótir að sjá spaugilegu hliðarnar á atvikinu.
Á myndum sést hvar ljósbrún fólksbifreið af gerðinni Nissan Almera liggur snyrtilega upp á hlið við vegg Bónus-verslunarinnar. Meðal annars hafa myndir af slysinu verið vinsælar inni á Facebook-síðunni „Verst lagði bíllinn“ þar sem góðborgarar taka myndir af illa lögðum bílum og birta á síðunni. Þar er bílstjóri bílsins lofsamaður fyrir góða nýtingu á stæðum.
DV heyrði í eiganda bílsins, Zulmu Ruth Torres, sem var að jafna sig eftir áfallið.
„Ég fór upp á spítala í gær en er að jafna mig. Ég er alveg í lagi,“ segir Zulma Ruth. Það sama er ekki að segja um bifreið hennar sem er talsvert skemmd eftir slysið.
Zulma Ruth kunni engar nánari skýringar á því hvað hefði gerst. „Ég var bara að leggja,“ sagði Zulma Ruth.