Stjórnin segir að Ragnar Þór hafi ekki verið leikmaður Tindastóls þegar brotin voru framin
Stjórn knattspyrnudeildar Tindastóls segir að Ragnar Þór Gunnarsson, leikmaður félagsins sem á dögunum fékk 3 mánaða skilorðsbundin dóm fyrir kynferðisbrot, njóti stuðnings og trausts. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem stjórnin sendi fjölmiðla, m.a. 433.is.
Dómurinn féll þann 27. apríl síðastliðinn en nú í vikunni var greint frá því að Ragnar Þór, sem er fyrrverandi leikmaður Vals og Selfoss en leikur í dag með Tindastól, væri knattspyrnumaðurinn sem hlotið hefði dóminn.
Ragnar Þór var sakfelldur fyrir kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum, með því að hafa á tilteknu tímabili árið 2015, þegar hann var tvítugur, áreitt 15 ára stúlku kynferðislega með því að snerta rass hennar utan klæða, sent henni ítrekað gróf kynferðisleg skilaboð á Snapchat, þar sem hann bað hana að stunda kynlíf með sér, óskaði eftir nektarmyndum af henni, viðhafði kynferðisleg ummæli um líkama hennar og sendi henni að minnsta kosti eina mynd af eigin kynfærum. Fyrir þetta hlaut Ragnar Þór þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm og var honum gert að greiða stúlkunni 500 þúsund krónur í skaðabætur.
Stjórn knattspyrnudeildar Tindastóls hefur í kjölfar fréttaflutnings Fótbolta.net af málinu sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir:
„Á þeim tíma sem umrædd brot fóru fram var Ragnar Þór ekki leikmaður Tindastóls og hörmum við framferði leikmannsins á þeim tíma. Ragnar Þór nýtur stuðnings og trausts knattspyrnudeildar Tindastóls og munum við gera það sem við getum til að aðstoða hann í framhaldinu. Nú er það undir honum komið að halda áfram með líf sitt og læra af þeim mistökum sem gerð voru.
Ragnar Þór er ungur maður sem er að stíga sín fyrstu spor sem fullorðinn einstaklingur í samfélaginu og gerðist sekur um dómgreindarbrest og hefur nú fengið sinn dóm fyrir það.“