fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

„Þetta er ekkert annað en fangelsi“

Íbúi í Fossvogi sakar Reykjavíkurborg um blekkingar

Hjálmar Friðriksson
Föstudaginn 28. apríl 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íbúar í Fossvogi saka Reykjavíkurborg um blekkingar í sambandi við fyrirhugaða uppbyggingu í hverfinu. Í nóvember 2016 var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar að byggja öryggisheimili í hverfinu. Þegar sama skýrsla birtist á vefnum, til kynningar fyrir íbúa, var sagt að um styrkta búsetu fyrir fatlaða væri að ræða. Að öðru leyti voru skýrslurnar nákvæmlega eins. „Við fengum þær upplýsingar í haust að byggingarnar myndu hýsa búsetu fyrir fatlaða einstaklinga og settum okkur auðvitað ekki upp á móti því enda ekkert nema gott um það að segja. Svo kemur á daginn að um er að ræða öryggisvistun fyrir ósakhæfa einstaklinga og að allt bendi til þess að borgaryfirvöld séu vísvitandi að fela það fyrir íbúum í hverfinu. Þetta eru auðvitað forkastanleg vinnubrögð,“ segir ósáttur íbúi í samtali við DV.

Tvær mismunandi skýrslur

Í byrjun nóvember síðastliðinn frétti viðmælandi DV, sem ekki vill láta nafns síns getið, að Reykjavíkurborg hygðist ráðast í framkvæmdir í Bjarkarási í Fossvogi, nánar tiltekið á lóðunum Stjörnugróf 9 og 11. Þar er ráðgert að byggja tvö samtengd raðhús, annars vegar 450–600 fermetra hús sem hýsa á 5–7 einstaklinga og hins vegar 350–500 fermetra hús sem hýsa á 4–6 einstaklinga. Þann 21. nóvember birtist skýrsla á vef Reykjavíkurborgar, dagsett 2. nóvember, þar sem breytingarnar á deiliskipulaginu eru auglýstar. Þar kemur orðrétt fram að um sé að ræða „styrkta búsetu fyrir fólk með sértækar og flóknar greiningar“.

„Við gerðum engar athugasemdir við þessa uppbyggingu. Ás styrktarfélag er með starfsemi á svæðinu sem fellur vel inn í íbúðabyggðina í kring,“ segir viðmælandinn. Nokkrum mánuðum síðar rakst hann fyrir tilviljun á nákvæmlega sömu skýrslu á vef Reykjavíkurborgar. Sú skýrsla var einnig dagsett þann 2. nóvember og hafði verið lögð fyrir umhverfis- og skipulagsráð borgarinnar þann 9. nóvember þar sem hún var samþykkt. Skýrslurnar eru nákvæmlega eins fyrir utan þá staðreynd að í stað styrktrar búsetu er talað um öryggisheimili fyrir skjólstæðinga velferðarsviðs Reykjavíkurborgar með geðfötlun og þroskaskerðingu.

„Þetta er ekkert annað en fangelsi“

„Það er alveg ljóst að heyrst hefði í íbúum ef Reykjavíkurborg hefði tilkynnt að öryggisheimili myndi rísa í hverfinu okkar í stað styrktrar búsetu. Borgin er því vísvitandi að blekkja íbúa. Þetta verður heimili fyrir ósakhæfa einstaklinga sem krefjast sólarhringsvöktunar. Þetta er ekkert annað en fangelsi og því skil ég ekki hvernig skipulagsyfirvöldum dettur í hug að koma slíkri starfsemi fyrir í næsta nágrenni við Víkina, sem er vinsælt íþróttasvæði barna. Auðvitað þarf að að hlúa vel að þessum einstaklingum en það hlýtur að vera hægt að gera það öðruvísi en svo að það sé í miðri íbúðabyggð,“ segir viðmælandinn.

Íbúar fá að andmæla

Í svari frá Regínu Ásvaldsdóttur, sviðstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, kemur fram að íbúum í hverfinu muni gefast kostur á að koma formlegum athugasemdum á framfæri. „Í tilvitnuðum skýrslum er um að ræða skipulagslýsingu sem segir frá verkefninu sem fara á í. Tillagan sjálf er í mótun og allt það lögformlega ferli sem samþykkt hennar krefst er því eftir. Þar munu íbúar hafa tækifæri til að koma athugasemdum sínum og ábendingum á framfæri. Í greinargerð með skipulagsskilmálum verður starfsemin útskýrð eins og vera ber,“ segir Regína í skriflegu svari.

Hún kann ekki skýringar á mismunandi orðalagi skýrslnanna en að hennar sögn telur skipulagsfulltrúi að hugsanlega hafi komið fram ábending um hugtakanotkunina. „Styrkt búseta, öryggisheimili eða öryggisbúseta eru einfaldlega ólík orð yfir sama úrræði. Þetta er ný tegund af úrræði hjá Reykjavíkurborg og ekki er búið að festa hugtökin í sessi. Það þarf alltaf að hafa í huga að þarna mun fólk búa og í umræðum um heimili þess þarf að sýna ákveðna nærgætni,“ segir Regína.

Varðandi hvort starfsemi sem þessi sé heppileg í íbúðabyggð segir Regína: „Skýrt er kveðið á um í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að þessir einstaklingar skuli búa í samfélagi án aðgreiningar. Það er því eðlilegt að fatlaðir einstaklingar búi í íbúðahverfum eins og aðrir íbúar en ekki lokaðir inni á stofnunum fjarri annarri byggð.“ Þá segir hún að sambærilegt heimili hafi verið starfrækt á Akureyri í nokkur ár með góðum árangri. „Skipulag hússins er með þeim hætti að nágrannar verða ekki fyrir ónæði vegna heimilisins,“ segir Regína.

Tímabundið úrræði í Rangárseli

Uppbygging Reykjavíkurborgar við Stjörnugróf er hugsuð sem framtíðar uppbygging styrktrar búsetu. Á dögunum fjallaði DV um tímabundið úrræði við Rangársel 16-20 sem tengdist framkvæmdunum við Stjörnugróf. Þar fylgdust íbúar í nærliggjandi húsum undrandi með því þegar öryggisgirðingar risu í skjóli nætur utan um tvær íbúðir í eigu borgarinnar og fjölmörgum öryggismyndavélum var komið fyrir. Þegar íbúar leituðu eftir svörum kom fram að komið yrði á „styrktri búsetu“ fyrir tvo einstaklinga sem þurftu eftirlit allan sólarhringinn. Málið vakti nokkra athygli og varð til þess að minnihluti Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina óskaði eftir svörum frá borgarráði.

Svarið barst í byrjun apríl og var undirritað af Regínu. Í því kom kom fram að uppbyggingin í Rangárseli væri til þess að leysa bráðavanda tveggja einstaklinga tímabundið. Ráðgert er síðan að þessir einstaklingar verði fluttir í öryggisheimilið við Stjörnugróf þegar byggingarnar rísa. Vandi þessara tveggja einstaklinga er slíkur að nauðsynlegt er að hvor þeirra sé undir eftirliti tveggja starfsmanna allan sólarhringinn. Þá er sérstakur forstöðumaður yfir starfseminni. Í svari Regínu kom fram að miðað við mönnun, þjónustu og stuðning við einstaklingana tvo þá gerði velferðarsvið ekki ráð fyrir að umhverfinu stafaði ógn af þeim.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ásdís Rán svaraði Heimi Má – „Ekki segja að ég geti það ekki, ég er hér núna“

Ásdís Rán svaraði Heimi Má – „Ekki segja að ég geti það ekki, ég er hér núna“
Fréttir
Í gær

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi