fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Garðar vinnur í breska þinginu: Veit ekki hvenær hann fær að fara heim – „Þetta er ákveðið sjokk og mikil óvissa“

Ringulreið eftir árás í London – Garðar Agnarsson starfar sem matreiðslumaður í lávarðadeildinni

Einar Þór Sigurðsson
Miðvikudaginn 22. mars 2017 18:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Staðan núna er þannig að það er búið að smala öllum saman inn í hátíðarsalinn. Hér erum við saman tvö til þrjú hundruð manns,“ segir matreiðslumaðurinn Garðar Agnarsson Hall sem starfar í lávarðadeild breska þingsins (e. House of Lords).

Fjórir látnir og margir særðir

Hálfgerð ringulreið hefur ríkt í London í dag eftir að maður ók á hóp vegfarenda á Westminster-brúnni. Skömmu síðar var ekið á girðingu við breska þinghúsið. Ökumaður bifreiðarinnar fór út úr bifreiðinni, yfir girðingu og hljóp vopnaður hnífi í átt að þinghúsinu. Þar stakk hann lögreglumann áður en hann var skotinn.

Staðfest hefur verið að fjórir eru látnir, árásarmaðurinn þar á meðal, og tuttugu slasaðir, þar af margir alvarlega.

Allir í raun kyrrsettir

Garðar hefur starfað sem matreiðslumaður í lávarðadeildinni síðan í nóvember síðastliðnum og gerðust atburðirnir steinsnar frá vinnustað hans. Garðar var í vinnunni þegar starfsfólk fékk veður af því sem var að gerast fyrir utan um klukkan hálf þrjú í dag. „Það var öllum smalað saman og hryðjuverkalögreglan mætti á svæðið með alvæpni.“ Hann segir að skömmu síðar hafi allir í húsinu í raun verið kyrrsettir.

„Það voru vopnaðir verðir í kringum okkur til að verja okkur,“ segir Garðar sem var enn í þinghúsinu á sjöunda tímanum í kvöld. Samkvæmt frétt BBC leitar lögregla enn eins manns og hefur hún hvatt fólk til að halda sig fjarri svæðinu við breska þinghúsið og önnur þekkt kennileiti borgarinnar. Garðar segir að óvíst sé hversu lengi fólk þarf að vera á svæðinu. Það sé lögreglu að ákveða.

Sjokk og óvissa

Sem fyrr segir var lögreglumaður stunginn og lést hann af sárum sínum þegar árásarmaðurinn reyndi að komast að þinghúsinu. Það gerðist við hlið sem Garðar ekur um þegar hann mætir til vinnu á morgnana og segir hann að það sé óhugnanlegt að hugsa til þess. „Þetta er ákveðið sjokk og mikil óvissa,“ segir hann.

Garðar segir að hann hafi sjálfur ekki orðið var við margt, fyrir utan það þegar lögregla kom á svæðið og lokaði því af. Hann segir aðspurður að fólki hafi verið brugðið en samstarfsfólk hans upplifi sig þó öruggt. „Það er ekki hræðsla í gangi eða neitt slíkt, en menn eru sjokkeraðir. Fólk reynir samt að vera létt og skemmtilegt þrátt fyrir allt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa
Fréttir
Í gær

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Brim fjárfestir í nýjasta kælibúnaði frá KAPP

Brim fjárfestir í nýjasta kælibúnaði frá KAPP
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hefur þú stofnað bankareikning í Danmörku? Þá þarftu kannski að bregðast hratt við svo peningarnir þínir renni ekki í danska ríkiskassann

Hefur þú stofnað bankareikning í Danmörku? Þá þarftu kannski að bregðast hratt við svo peningarnir þínir renni ekki í danska ríkiskassann