Stjórnarþingmenn andvígir ríkisstjórnarfrumvarpi
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að ráðast gegn launamun kynjanna. „Í því skyni að sporna við launamisrétti af völdum kynferðis verði áskilið að fyrirtæki með 25 starfsmenn eða fleiri taki upp árlega jafnlaunavottun.“ Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er frumvarp um jafnlaunavottun boðað en félags- og jafnréttismálaráðherra, Þorsteinn Víglundsson, ætlar að leggja frumvarpið fram. Jafnlaunavottun var eitt af stærstu kosningamálum Viðreisnar.
Nú bregður hins vegar svo við að þingmenn ríkisstjórnarinnar, eða öllu heldur þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hafa lýst því yfir að þeir hyggist ekki styðja frumvarpið. Fyrstur reið á vaðið Óli Björn Kárason sem sagði í viðtali við Viðskiptablaðið 9. febrúar að hann myndi ekki styðja frumvarpið. Ríkisstjórn sem boði aukin afskipti af atvinnulífinu sé ekki sérlega hægri sinnuð, sagði Óli Björn og meinti ekki sem hrós.
Nokkrum dögum síðar lýsti Brynjar Níelsson því einnig yfir, í viðtali við mbl.is að hann myndi ekki heldur styðja frumvarp um jafnlaunavottun. „Ég held að þetta sé bara vanhugsað og menn séu að gefa sér rangar forsendur,“ sagði Brynjar og bætti við: „Þetta er bara einhver vitleysa. Ég vona að menn endurskoði þetta.“ Brynjar hafði raunar áður lýst því yfir að hann væri óánægður með stjórnarsáttmálann og sérstaklega jafnlaunavottunina. Í viðtali við DV kallaði hann frumvarpið óþarfamál, „til dæmis þessi helvítis jafnlaunavottun. Það er algjörlega fráleitt.“
Auk þeirra Óla Bjarnar og Brynjars hefur Sigríður Á. Andersen einnig tjáð sig um kynbundinn launamun og jafnlaunavottun. Í grein í árshátíðarriti Orator, félags laganema við Háskóla Íslands, sagði Sigríður að ekkert væri hægt að fullyrða um kynbundið misrétti á launamarkaði. Sigríður vitnaði í skýrslu velferðarráðuneytisins frá árinu 2015 þar sem sagt er að ekki sé hægt að fullyrða að óútskýrður launamunur sem mælist sé eingöngu vegna kynferðis. Yrði þeim upplýsingum gerð betri skil í opinberri umræðu léki ekki vafi á að þrýstingur á opinberar aðgerðir í jafnréttismálum „til dæmis kynjakvóta og jafnlaunavottanir, myndi minnka.“
Ríkisstjórnin hefur minnst mögulegan meirihluta, 32 þingmenn af 63. Í praxís má því segja að stjórnin sé fallin, alla vega í þessu máli. Nánast fordæmalaust er að svo margir þingmenn ríkisstjórnarflokka lýsi sig andsnúna ríkisstjórnarfrumvarpi að þingstyrkur sé ekki fyrir málinu. Ríkisstjórnin mun því þurfa að treysta á velvild stjórnarandstöðunnar til að koma málinu í gegn. Samkvæmt heimildum DV munu þingmenn stjórnarandstöðunnar vera nokkuð klofnir í málinu. Annars vegar hlakkar í þeim vegna vandræða ríkisstjórnarinnar en hins vegar eru þeir margir með hálfgert óbragð í munninum vegna þess. Ástæðan er sú að almennt styðja þeir jafnlaunavottun og sjá ekki fyrir sér að geta verið á móti málinu en hafa á sama tíma engan áhuga á að skera ríkisstjórnina úr snörunni.