„Ég var búinn að gera svipað albúm áður með Jesú Kristi. Það fór eins og eldur um sinu á netinu svo ég ákvað að henda í svipað mótíf fyrir frelsarann okkar á Íslandi,“ segir Guðlaugur Aðalsteinsson, hugmyndasmiður hjá auglýsingastofunni Brandenburg en hann hefur útbúið bráðskemmtilega myndaseríu sem sýnir forseta Íslands í hinum ýmsu aðstæðum.
Eftir að ljóst var í gær að Ólafur Ragnar Grímsson myndi sækjast eftir endurkjöri í komandi forsetakosningum ákvað Guðlaugur að birta myndaseríuna á facebooksíðu sinni í gær en hann hafði upphaflega birti seríuna á síðu sinni í desember.
Guðlaugur bjó svo vel að því að hafa greiðan aðgang að hönnuðum sem gátu aðstoðað hann við að láta hugmyndina verða að veruleika.
„Ég fann myndir af forsetanum á google og svo smá aðstoð frá grafískum hönnuðum á Brandenburg auglýsingastofu þegar það vantaði myndefni við rímið,“ segir hann en hugmyndin hefur vakið mikla lukku.
„Sérstaklega eftir að forsetinn ákvað að henda sér aftur í slaginn að þá er stöðugt verið að deila þessu og ég er að fá vinabeiðnir frá miðaldra fólki sem ég þekki ekki neitt.“