fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Arndís Anna: „Skilgreiningin á flóttamanni er gyðingur í seinni heimsstyrjöldinni“

„Það verður fleiri barnafjölskyldum vísað úr landi á næstu misserum“

Björn Þorfinnsson
Þriðjudaginn 2. febrúar 2016 07:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Málefni hælisleitenda, eða þeirra sem sækjast eftir alþjóðlegri vernd hérlendis, eru flókin og erfitt að átta sig á því af hverju sumir fá vernd en öðrum er úthýst. Lögfræðingur Rauða krossins segir nánast ómögulegt fyrir fólk frá Balkanlöndunum að fá hér hæli. „Það verður fleiri barnafjölskyldum vísað úr landi á næstu misserum,“ segir Arndís Anna K. Gunnarsdóttir í yfirferð um málaflokkinn með blaðamanni.

Fréttir af málefnum hælisleitenda hafa verið áberandi í fjölmiðlum undanfarið enda er málefnið aðkallandi og í raun eitt af stóru vandamálum samtímans. Umsóknum um hæli, eða alþjóðlega vernd, fer fjölgandi hérlendis eins og annars staðar og því er ljóst að fréttaflutningur af slíkum málum mun síst minnka. Þjóðin skiptist í fylkingar um hvernig taka eigi á málunum og til þess að fá betri mynd af málefninu ræddi blaðamaður við lögfræðing Rauða krossins, Arndísi Önnu K. Gunnarsdóttur, sem sérhæfir sig í réttarstöðu hælisleitenda.

Skilgreiningin á flóttamanni

Fyrsta spurning var hvort að hún gæti útskýrt hvaða skilyrði einstaklingur þyrfti að uppfylla til þess að fá örugglega hæli hérlendis: „Skilgreiningin á flóttamanni er gyðingur í seinni heimsstyrjöldinni. Þar værum við með einstakling sem er ofsóttur af sínu eigin ríki fyrir trúarbrögð sín. Slíkur einstaklingur fengi örugglega hæli hérlendis,“ segir Arndís. Eins og DV greindi frá um miðjan mánuðinn þá sótti metfjöldi um hæli hérlendis á síðasta ári. Alls 354 manns. Allt útlit er fyrir að það met verði stórbætt á árinu sem nú er nýhafið.

Þrír möguleikar

Þegar einstaklingur sækir um alþjóðlega vernd hérlendis eru þrír möguleikar hvað varðar flokkun umsóknar hans. Að viðkomandi sé að sækja um stöðu flóttamanns, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Á tveimur fyrrnefndu réttarstöðunum er engin munur hérlendis en sömu sögu er ekki að segja frá Evrópu. „Flóttamannahugtakið er í raun ekki sniðið utan um fólk sem er að flýja stríð heldur fólk sem er að flýja persónulegar ofsóknir. Þá er yfirleitt átt við ofsóknir af hálfu ríkisins en þó einnig ef ríkið getur ekki verndað þig fyrir slíkum ofsóknum. Röksemd Útlendingastofnunar varðandi það að Albönum sé ekki veitt hæli hérlendis er yfirleitt sú staðreynd að þar geisi ekki stríð. Þeir einstaklingar sem hingað koma frá Albaníu eru hins vegar að flýja persónulegar ofsóknir og það leikur vafi á hvort yfirvöld í Albaníu séu fær um að vernda það fólk,“ segir Arndís.

Sýrlendingar fá vernd

„Viðbótarvernd var í raun hugtak sem var fundið upp innan Evrópu til þess að ná utan um þá sem eru að flýja stríðsátök. Sums staðar í Evrópu veitir þetta ekki sömu réttindi, til dæmis hvað snertir fjölskyldusameiningu,“ segir Arndís. Dvalarleyfi af mannúðarástæðum er þriðji kosturinn en að sögn Arndísar er það ekki gott leyfi. Meðal annars gildir það aðeins í eitt ár og er í raun eins konar „ruslakista“ þegar allt annað þrýtur. En hverjir eru að fá grænt ljós frá yfirvöldum hérlendis? „Sýrlendingar eru að fá vernd hérlendis sem og Íranir sem storkað hafa klerkaveldinu þar í landi. Einnig einstaklingar frá Pakistan og Erítreu, þar ganga stjórnvöld mjög hart gegn ákveðnum þegnum,“ segir Arndís.

Nota Dyflinnarreglugerðina miskunnarlaust

Hún segir að Sýrlendingar fái undantekningarlaust að minnsta kosti viðbótarvernd nema ef þeir hafi þegar fengið hæli í öðru Evrópulandi, þá eru þeir einfaldlega sendir þangað. Ef þeir hafa umsókn í gangi, jafnvel aðeins ef fingraför þeirra hafa verið tekin í einhverju Evrópulandi, þá eru þeir sendir þangað á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. „Það að viðkomandi hafi þegar fengið hæli annars staðar eða notkun Dyflinnarreglugerðarinnar er eina ástæðan fyrir synjun Sýrlendinga. Þeir eru ekki sendir til heimalandsins. Íslensk stjórnvöld beita reglugerðinni miskunnarlaust og ganga mun harðar fram í þeim efnum en önnur ríki. Við getum ekkert gert og fólk er sent af hörku til dæmis til Búlgaríu og Ítalíu þar sem ástandið er slæmt. Skilaboðin eru einfaldlega þau að fólkið geti bara leitað réttar síns fyrir þarlendum dómstólum,“ segir Arndís.

Tungumála- og staðháttapróf

Blaðamaður ber undir Arndísi þá flökkusögu að einstaklingar hafi fengið hæli hérlendis á þeim forsendum að þeir séu frá stríðshrjáðu landi þegar raunin sé sú að þeir séu frá allt öðru landi. Til dæmis herma heimildir DV að nokkrir Marokkómenn hafi sótt um hæli hérlendis á þeim forsendum að þeir séu frá Sýrlandi. Arndís telur litla hættu á að slíkt geti gerst. „Allir sem hafa fengið jákvæð viðbrögð við umsókn um hæli eru settir í tungumála- og staðháttapróf. Það framkvæmir erlent fyrirtæki sem sérhæfir sig í slíku. Þá mætir viðkomandi og talar í síma við sérfræðing í 30 mínútur og þar er hann spurður út í alls konar staðhætti varðandi borgina eða bæinn sem hann segist vera frá. Einnig greina þeir hreim og orðanotkun viðkomandi þannig að þeir geta til dæmis sagt með nokkur vissu hvort viðkomandi sé frá Suður-Aleppo eða Damaskus. Ef leikur einhver vafi á uppruna þínum þá ferðu í slíkt próf.“

„Þau vilja ekki liggja á kerfinu“

Útlendingastofnun hefur afgreitt umsóknir frá Balkanlöndunum sem tilhæfulausar umsóknir. Þær raddir hafa heyrst í umræðunni að slíkir umsækjendur, sem ættu að vita að þeim verði hafnaði séu aðeins hér til þess að fá ókeypis húsaskjól og uppihald. Með öðrum orðum að lifa á kerfinu. Aðspurð hvort að slíkt sé vandamál hérlendis segir Arndís: „Útlendingastofnun telur umsóknir frá Balkanlöndunum vera tilhæfulausar umsóknir, það er nánast útilokað að ná slíkum umsóknum í gegn. Hins vegar vill fólk láta á þetta reyna enda vill það vera hérna og yfirgnæfandi meirihluti sækir fast að fá vinnu, sérstaklega þeir sem eru frá Balkanlöndunum. „Þau vilja ekki liggja á kerfinu heldur vinna á meðan umsókn þeirra er í vinnslu. Flestir útvega sér vinnu þrátt fyrir að það sé mjög flókið ferli. Fólk verður til dæmis að útvega eigið húsnæði, það má ekki vera í húsnæði sem yfirvöld útvega. Um leið og þú færð tekjur þá hættirðu að vera á framfæri yfirvalda. Miðað við leigumarkaðinn hérlendis þá er það hægara sagt en gert fyrir fólk að útvega sér húsnæði. Þeir eru fáir leigusalarnir sem myndu leigja útlendingi sem segðist ætla að sækja um atvinnuleyfi, svo redda sér vinnu og þá geti hann greitt leiguna,“ segir Arndís. Hún bendir einnig á að sumir hælisleitendur hafi rúm fjárráð og geti leyft sér að dveljast á gistiheimili á eigin vegum. Það auðveldar þeim verulega að taka þátt á vinnumarkaði.

Þeir hafa dvalið í Reykjanesbæ ásamt eiginkonu Hassans og tveimur systrum. Umsókn þeirra hefur verið í kerfinu í um ár en þeir sóttu fyrst um hæli á Ítalíu þaðan sem þeir komu til Íslands. Með vísan í orð Arndísar þá má telja víst að fjölskyldunni verði vísað aftur til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, þrátt fyrir að fjölskyldan komi frá stríðshrjáðu landi og hafi komið sér vel fyrir. Fallah ræddi við blaðamann á lýtalausri íslensku.
Feðgarnir Hassan og Fallah Þeir hafa dvalið í Reykjanesbæ ásamt eiginkonu Hassans og tveimur systrum. Umsókn þeirra hefur verið í kerfinu í um ár en þeir sóttu fyrst um hæli á Ítalíu þaðan sem þeir komu til Íslands. Með vísan í orð Arndísar þá má telja víst að fjölskyldunni verði vísað aftur til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, þrátt fyrir að fjölskyldan komi frá stríðshrjáðu landi og hafi komið sér vel fyrir. Fallah ræddi við blaðamann á lýtalausri íslensku.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Þröngar heimildir varðandi atvinnuþátttöku

Í því samhengi gagnrýnir Arndís hversu þröngar heimildir eru til þess að veita dvalarleyfi á grundvelli atvinnuþátttöku. „Þar eru bara tvær leiðir í boði. Annars vegar svokallað sérfræðingaleyfi og hins vegar dvalarleyfi vegna skorts á vinnuafli. Til þess að fá sérfræðingaleyfi er gerð krafa um að viðkomandi hafi þekkingu sem ekki finnst á EES-svæðinu og fyrirtækið þarf að sýna fram á að það hafi leitað eftir slíkum starfsmanni á svæðinu, undantekningin er ef starfið krefst háskólamenntunar,“ segir Arndís og bendir á starf forritara sem gott dæmi um starf þar sem skortur er á fólki og sérfræðingaleyfi fæst fyrir.

„Mannfjandsamlegt leyfi“

Hinn möguleikinn er atvinnuleyfi vegna skort á vinnuafli og Arndís sparar ekki stóru orðin varðandi þann kost. „Það er mannfjandsamlegasta leyfið, það gildir í eitt ár en hægt er að framlengja það um annað ár. Það er ekki endurnýjanlegt fyrr en þú ert búinn að vera tvö ár frá landinu og er ekki grundvöllur búsetuleyfis. Þá geta einstaklingar ekki fengið fjölskyldu sína til sín,“ segir Arndís. Þá er sá hængur á að sækja þarf um þessi leyfi áður en viðkomandi kemur til landsins: „Þér er gert að yfirgefa landið á meðan umsóknin er tekin fyrir,“ segir hún.

Engin bylting í nýju frumvarpi

Drög að frumvarpi um ný útlendingalög hafa legið fyrir frá því í fyrrahaust en málið hefur ekki enn verið lagt fram á Alþingi. Markmiðið er að það gerist fyrir febrúarlok, en telur Arndís að byltingarkenndar betrumbætur séu þar í farvatninu: „Í stuttu máli: nei. Það eru vissulega tæknilegar umbætur en ekkert sem stendur upp úr. Það verður áhugavert að sjá hvort Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem sat í þingmannanefnd um frumvarpið, standi við þau ummæli að hún ætli að berjast fyrir rýmri heimildum til þess að fólk geti komið hingað og unnið.“

Í frumvarpinu er hins vegar ekkert sem breytir afgreiðslutíma umsóknanna. Afgreiðsla hælisumsóknar tekur að meðaltali um 80 daga en sé niðurstaðan kærð getur afgreiðslutíminn verið allt að 18 mánuðir. „Eitt stærsta vandamálið er hversu langan tíma ferlið tekur, hver sem niðurstaðan er þá er alltaf gott að fá niðurstöðuna sem fyrst. Ég er ekki endilega að tala um tvo sólarhringa heldur styttri tíma en 18 mánuði. Það má hins vegar ekki koma niður á rannsóknarskyldunni. Eins og þú segir er aðaltöfin varðandi kæruferlið. Það hefur lagast undanfarið en settu marki, sem var þrír mánuðir, hefur ekki verið náð. Mál tengd Balkanlöndunum virðast vera í forgangi en þau geta samt tekið meira en sex mánuði,“ segir hún.

Fleiri barnafjölskyldum vísað úr landi

Fjölmiðlar hafa rækilega fjallað um málefni albanskra fjölskyldna sem staðið hafa í stríði við kerfið en höfðu sigur fyrir atbeina almennings og velunnara. Að sögn Arndísar munu fleiri slík mál koma upp á yfirborðið á árinu: „Það er nánast ómögulegt að ná málum frá Balkanlöndunum í gegn. Við reynum af öllum mætti en það getur verið mjög niðurdrepandi því maður veit að það mun líklega ekkert bíta. Það verður fleiri barnafjölskyldum vísað úr landi á næstu misserum. Fólki sem hefur dvalið hér í allt að 18 mánuði og myndað hér sterk tengsl. Börnin komin í skóla og hafa náð ótrúlegum árangri varðandi tungumálið,“ segir Arndís.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Pétur Einarsson látinn

Pétur Einarsson látinn
Fréttir
Í gær

Hefur þú stofnað bankareikning í Danmörku? Þá þarftu kannski að bregðast hratt við svo peningarnir þínir renni ekki í danska ríkiskassann

Hefur þú stofnað bankareikning í Danmörku? Þá þarftu kannski að bregðast hratt við svo peningarnir þínir renni ekki í danska ríkiskassann
Fréttir
Í gær

Facebook hafnaði kosningaauglýsingu Guðmundar Felix á undarlegum forsendum

Facebook hafnaði kosningaauglýsingu Guðmundar Felix á undarlegum forsendum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí