Meðalverð á hótelgistingu í Reykjavík er með því hæsta sem fyrirfinnst í Evrópu. Aðeins tvær borgir eru með hærra meðalverð. Þetta kemur fram á vef Túrista.
Nú í desember er meðalverð í Reykjavík fyrir tveggja manna herbergi í eina nótt 22.895 krónur. Til samanburðar má nefna að meðalverðið í Istanbúl er 6.799 krónur og 11.344 krónur í Berlín.
Þegar borin eru saman verð í 51 Evrópuborg er Ísland með þriðja dýrasta meðalverðið en í öðru sæti er Genf í Sviss og þá trónir Monte Carlo á toppnum en þessar eru alla jafna á listum yfir dýrustu borgir heims, ekki bara fyrir ferðamenn heldur einnig íbúa samkvæmt frétt Túrista.
Þá kemur fram að meðalverð á tveggja manna herbergi í Reykjavík hefur hækkað um nærri fimmtung í verði frá því á sama tíma í fyrra.