fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Helgi Hrafn svarar Ásmundi fullum hálsi: „Ekki hlutverk grunnskólakerfisins að sjá um trúarlegt innræti“

Auður Ösp
Föstudaginn 9. desember 2016 11:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Trú fólks og barna eru einfaldlega einkamál þeirra, og þau rök fyrir kirkjuheimsóknum grunnskólabarna að kristni sé í meirihluta eru nákvæmlega rök gegn því að neyða fólk til að velja þarna á milli, vegna þess að það barn, eða foreldri þess, sem ákveður að barnið sæti ekki trúboði er einmitt alltaf að láta í ljós minnihluta-trúarskoðun,“ ritar Helgi Hrafn Gunnarsson Píratiá fésbókarsíðu sína nú í morgun en tilefnið er frétt DV á miðvikudag þar sem Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins kvaðst vera fylgjandi kirkjuheimsóknum skólabarna en hann telur mikilvægt að þjóðin standi vörð um kristin gildi. Þá sagði hann skammarlegt að Píratar hefði talað gegn þessum heimsóknum. Helgi Hrafn segir það ekki vera hlutverk grunnskólakerfisins að sjá um trúarlegt innræti fyrir hönd kirkjunnar.

Líkt og fram kom í ofangreindri frétt DV á miðvikudag hefur stjórn Pírata í Reykjavík hvatt grunn og leikskóla borgarinnar til að fara ekki í kirkjuheimsóknir í desember og vísa í reglur Reykjavíkurborgar og grunnstefinu Pírata um borgararéttindi og friðhelgi einkalífs. Segir í tilkynningu að flokkurinn telji að skólastjórnendur „hafi ekki rétt til að setja börn og fjölskyldur þeirra í þá aðstöðu að þurfa að gera grein fyrir lífsskoðunum sínum og að það brjóti gróflega á friðhelgi allra skjólstæðinga skólakerfisins, ekki einungis þeim sem aðhyllast ekki hina kristnu meirihlutatrú.“

Óhætt er að segja að frétt DV hafi vakið sterk viðbrögð en í meðfylgjandi könnun voru lesendur spurðir hvort það ætti að leyfa kirkjuheimsónir barna á skólatíma. Rúmlega 67 % þáttakenda svöruðu játandi en niðurstöður má sjá hér.

Í samtali við DV á miðvikudag sagði Ásmundur að verið væri að ýta kristnum gildum úr skólunum. „Það hefur enginn skemmst af því að heyra fallegan boðskap kristninnar, mér sýnist ekki veita af því á þessari tölvuöld þar sem allt gengur út á tölvuleiki þar sem unga fólkinu er kennt að drepa hvort annað. Það mætti beina því á aðrar brautir,“ sagði hann og bætti við að íslendingar ættu að passa upp á kristin gildi. „Þeir sem hafa verið að sækja moskur skammast sín ekki fyrir sína trú og mér finnst að við kristnir menn eigum ekki að gera það heldur.“

Segir málið ekki snúast um jólaskemmtanir

Í færslu sem Helgi Hrafn birtir á facebooksíðu sinni í dag segir hann ekki boðlegt að neyða foreldra til þess að gera upp á milli þess að börnin sæti annaðhvort trúboði eða þá að þau fái á sig einhvers konar „öðruvísi trúar“ stimpil.

„Sennilega er ekkert sem veldur jafn hratt deilum og trúarlegur ágreiningur. Að setja börn í þá stöðu að útskýra fyrir félögum sínum hvers vegna þau fari ekki með þeim í trúboðsferð, eða að öðrum kosti að sæta trúboði í lögbundinni skólaskyldu, er ekki boðlegt val, hvorki fyrir barnið né foreldra þess.“

Þá segir Helgi Hrafn málið ekki snúast um það hvort börn fari í kirkjuheimsóknir eða ekki.

„Það er sjálfsagt að þau geri það, en þá er líka sjálfsagt að það sé þá bara gert í gegnum kirkjustarfið sjálft. Af hverju er það svo hræðileg krafa? Hvers vegna telur kristnin sig, ein allra trúarbragða á Íslandi, þurfa að blanda sér í lögbundna skólaskyldu til að breiða út sína trú? Ef trúin er svo mikilvæg og jákvæð, þá ætti hún ekki að eiga í neinum vandræðum með að fá til sín börn í heimsókn án þess að hengja sig í lögbundna skyldu foreldra til að setja börn sín í skóla, heldur gæti gert það á eigin forsendum og undir eigin formerkjum.

Af hverju er það til of mikils ætlast, að fólk sem vilji að börnin sín sæti trúboði, fari einfaldlega sjálft með börn sín í trúboðið? Hvernig varð það að einhvers konar ánauð fólks að geta ekki misnotað lögbundna skólaskyldu til að dreifa sinni trúarsannfæringu?“

Þá bendir Helgi Hrafn jafnframt á að umræðan hafi ekkert með jólaskemmtanir að gera; ekki sé verið að gera kröfu um að afnema jólin, eða taka af börnunum skemmtun, hvort heldur sem er kristnum eða heiðnum sið. Málið snúist fyrst og fremst um trúboð.

„Grunnskólinn er veraldleg stofnun. Það er sjálfsögð krafa að foreldrar sem vilji börnin sín í kirkju einfaldlega fari með börnin sín í kirkju og hætti að kvarta yfir því að grunnskólakerfið sjái ekki um trúarlegt innræti fyrir sína hönd. Það er einfaldlega ekki hlutverk þess, sama hversu æðisleg kristið fólk telur trúarbrögð sín vera.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ásdís Rán svaraði Heimi Má – „Ekki segja að ég geti það ekki, ég er hér núna“

Ásdís Rán svaraði Heimi Má – „Ekki segja að ég geti það ekki, ég er hér núna“
Fréttir
Í gær

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi