fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Bókasöfn í Ameríku

Ásamt Dashiell Hammett og Skarphéðni Njálssyni

Ritstjórn DV
Laugardaginn 8. október 2016 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég var á ferðalagi á dögunum í Bandaríkjunum, nú í Colorado-fylki en þangað hafði ég ekki komið áður. En alltaf tekst þessari makalausu heimsálfu að hrífa mann eða vekja hjá manni furðu með öllu sínu stórfenglega landslagi, samfélagi, kraftinum og svo stórbrotnu öfgunum. Ég kom í borgir eins og Denver og Boulder, en þar sem þær standa lýkur sléttunum miklu, eða gresjunum sem ná eiginlega samfleytt frá miðvesturríkjunum og þarna vestur, en þar rísa síðan snarbrött Klettafjöllin upp af sléttunni, og mynda svona vesturvegg fyrir nefndar borgir. Landslagið í giljum og dölum og skörðum Klettafjallanna er yfirgengilegt, þarna svífa yfir klógulir ernir og í skógunum lifa meðal annars birnir, elgir, fjallaljón og gaupur. Stór svæði eru friðuð með öllu, þjóðgarðar, og þar má ekki hrófla við neinu, ekki einu sinni fjarlægja trjástofna sem fallið hafa um sjálfa sig sakir ellihrumleika og fúa.

Út á slétturnar, eða „the high plains“ í austurhluta Colorado er líka gaman að ferðast, þar er landbúnaður með alls kyns kornrækt og gífurlegum nautgripahjörðum og tilheyrandi kúrekum á hestum og með stetsonhatta. Að koma inn á lókalkrár þar á sléttunum er hreinlega eins og hafa villst inn á settið í amerískri bíómynd, með tilheyrandi drafandi köllum og púlborðum og kántrímúsík. Á sléttunum, hjá bændafólkinu, aka flestir á risastóru amerísku pikköppbílunum – þetta eru alvöru Ameríkanar sem trúa á Biblíuna og Repúblikanaflokkinn, en í háskólaborg eins og Boulder er annar bragur með áherslu á reiðhjól og hlaupaleiðir og merkilegt nokk eru bílarnir þar flestir frá Evrópu eða Asíu, rétt eins og hér heima.

„Þarna var helgidómur fyrir bækur og bókmenntir og öllum, líka heimilislausum og utangarðsfólki, hjartanlega heimiluð innganga.“
Glæsilegt bókasafn í Denver „Þarna var helgidómur fyrir bækur og bókmenntir og öllum, líka heimilislausum og utangarðsfólki, hjartanlega heimiluð innganga.“

Krafturinn og öfgarnar

Svo eru það öfgarnar: maður kemst yfirleitt ekki hjá því þegar þegar hin stóru Bandaríki eru heimsótt að dást að öllum kraftinum sem þar má sjá og finna: hvernig allt þetta mikla flæmi og mannhaf og borgir, bæir og sveitir, virkar saman; allt er í fullum gangi, á akbrautunum og í húsunum, verksmiðjunum, öllum verslununum með sitt ótrúlega úrval og svo veitingastaðirnir sem eru á hverju strái. Allur maturinn sem er étinn, allar umbúðirnar sem falla til; hvernig vörubílar og flutningabílar eru á fullu spani, og allt virkar þetta, gengur upp. Velmegunin er auðvitað mikil og meirihlutinn hefur það gott, en svo er það hitt: allir fátæklingarnir og utangarðsfólkið sem verður einhvern veginn eftir og er bara látið afskiptalaust og sigla sinn sjó; allir vita að stór hluti landsmanna í þessu hámenntaða og sterkefnaða samfélagi mun aldrei eiga kost á menntun eða sómasamlegu lífi; fólk fæðist á götunni og deyr svo þar líka, án þess meðborgararnir kippi sér upp við það. Ég man þegar ég heimsótti land á Arabíuskaganum á sínum tíma að þá var ein fyrsta hugsunin sem kviknaði: Hér hefðu nú kvenréttindahreyfingar verk að vinna. Og svipað verður manni hugsað í USA: Hér þyrftu jafnaðarmenn og sósíaldemókratar að fá að taka til hendinni. En það verður líklega seint. Þótt snillingurinn Bernie Sanders næði miklum árangri í aðdraganda forsetakosninga nú í ár, þá slógu kunnáttumenn því föstu að eftir yfirlýsingu hans um að hann væri „demókratískur sósíalisti“ þá hefði hann þar með aldrei átt jarðneskan séns á forsetaembættinu. Í Bandaríkjunum haldast gáfurnar og heimskan á mjög sérkennilegan hátt í hendur: snilldin og dellan aka þar í einum vagni.

„The public libraries“

Humphrey Bogart, Peter Lorre, Mary Astor og Sidney Greenstreet voru öll frábær í Möltufálkanum frá árinu 1941.
Klassísk kvikmynd Humphrey Bogart, Peter Lorre, Mary Astor og Sidney Greenstreet voru öll frábær í Möltufálkanum frá árinu 1941.

En þótt einstaklingshyggjan sé allsráðandi í þessu mikla landi og að það sé almenn skoðun að skattar séu eitthvað í ætt við fjandsamlega fjárkúgun, þá er ýmislegt sem þeir gera í sameiningu og er algerlega til fyrirmyndar. Og þar koma mér einna fyrst í hug almenningsbókasöfnin. Sem eru víða stórkostlegar stofnanir í borgum og bæjum Norður-Ameríku; merkilegt er að koma inn í lítil sveitaþorp þar sem opinberar byggingar eru miðsvæðis: lögreglustöðin, slökkviliðið og „the public-library“, hvert í sinni virðulegu byggingu. Margir hafa séð almenningsbókasafnið í New York, sem er í nokkurs konar musterisbyggingu við sjálfa Fimmtu Tröð. Í háskólasmáborginni Boulder er afar fallegt, líflegt og vandað nýlega byggt almenningsbókasafn sem gaman var að skoða; vert er að geta þess að þangað eru allir velkomnir og það kostar ekkert að nota safnið eða fá lánaðar bækur. Í stórborginni Denver var sömuleiðis alveg frábært almenningsbókasafn, í stórbyggingu frá tíunda áratug liðinnar aldar, og ekkert til sparað fyrir almenning þeirrar borgar.

Er ég kom þar var molluheitur síðsumardagur, mælarnir úti á götu sýndu 95°F, eða svona 35 á Celsius, en inni á safninu var þægileg loftkæling, og þetta var eins og að koma inn í vin. Þar eru salir fullir af bókum á mörgum hæðum, deild eftir deild, maður fann strax að það hefði verið gaman að koma með lítinn krakka á barnadeildina, hún iðaði af glaðværð, enda eini partur stofnunarinnar þar sem ekki var mælst til þess að fólk færi hljóðlega – þar var líka stór unglingadeild, en hana var ekki hægt að skoða því að þar stóð að fólki væri bannaður aðgangur nema í fylgd með unglingum. Og svo voru líka salir undir skáldsögur, ljóð og fræði, og úti um allt stórir amerískir hægindastólar, auk skrifborðanna að sjálfsögðu. Og þarna var ekki reynt að fela bækur, eins og manni skilst að nú sé að komast í tísku á norrænum söfnum; þarna var helgidómur fyrir bækur og bókmenntir og öllum, líka heimilislausum og utangarðsfólki, hjartanlega heimiluð innganga.

„Ég var farinn að sjá fyrir mér og heyra röddina í Humphrey Bogart þegar ég las eða hugsaði um Skarphéðin í Njálu.“

Drengurinn Dashiell í San Francisco

Ein alfínasta sagan sem ég kann um örlög manns og svona amerísks bókasafns er um rithöfundinn Dashiell Hammett sem ólst upp í San Francisco. Hann fæddist árið 1894 og var því 23 ára 1917 þegar Bandaríkjamenn blönduðust í Fyrri heimsstyrjöldina, og skráði sig þá til herþjónustu eins og aðrir ungir menn. Hann var tekinn inn, en eftir læknisskoðun var hann úrskurðaður óhæfur til herþjónustu vegna heilsubrests; læknarnir álitu reyndar að hann ætti aðeins fá ár ólifuð vegna berklaveiki. En þar sem hann hafði verið skráður í herinn var hann þar með jafnframt orðinn uppgjafahermaður og kominn á eftirlaun eða lífeyri sem slíkur, rúmlega tvítugur að aldri. Og næstu árum, sem hann hefur trúlega haldið að yrðu jafnframt sín síðustu, varði hann á almenningsbókasafninu í San Fran; kom þar á morgnana, og lá svo í bókum fram á kvöld, í björtum og fögrum salarkynnum safnsins.

En svo fór heilsan batnandi, hann fór að vinna fyrir sér sem einkaspæjari og á endanum, þá kominn yfir þrítugt, að skrifa skáldsögur.

Bogart og Möltufálkinn

Langfrægasta bók Hammetts heitir Möltufálkinn, The Maltese Falcon, og er frá 1929. Allnokkrum árum síðar var gerð úr henni frábær kvikmynd með Humphrey Bogart í aðalhlutverki. Þessi bók er almennt talin hafa brotið blað í glæpa- og spæjarabókmenntum, og stórskáld eins og Raymond Chandler vísuðu jafnan til hennar sem sinnar stóru fyrirmyndar; þetta er fyrsta „harðsoðna“ ameríska glæpasagan. Ég var mjög upptekin af þessari bók þegar ég var að skrifa mínar fyrstu skáldsögur og meðal annars farinn að pæla í því ameríkaníseraða söguefni sem síðar varð að Djöflaeyjunni og þeim bókum; það sem hreif mig var stíllinn, samtölin og þó umfram allt persónusköpunin.

Af einhverjum ástæðum þá minnti aðalpersóna Möltufálkans, spæjarinn kýníski og orðheppni, Samuel Spade, mig á sjálfan Skarphéðin Njálsson, og það gekk svo langt að ég var farinn að sjá fyrir mér og heyra röddina í Humphrey Bogart þegar ég las eða hugsaði um Skarphéðin í Njálu. Og þegar ég birtist í fyrsta sinn í viðtali við íslenskt dagblað sem höfundur skáldsögu (árið 1981), þá var yfirskrift viðtalsins: „Bogart hefði átt að leika Skarphéðin“. Þetta var í Þjóðviljanum, sem mjög var hallur undir varðveislu íslensks þjóðernis á móti framgangi amerískrar lágkúru, og þótti mörgum staðhæfing mín jaðra við guðlast.

„Old norse tales“

Á þessum tíma vissi ég ekkert hvort Hammett hefði haft nokkur kynni af norrænum fornsögum, og hefði líklega þótt það heldur ósennilegt. Mörgum árum seinna barst í hendur mér nýleg bók, ævisaga Dashiells Hammett sem breskur sagnfræðingur hafði skrifað eftir ítarlegar rannsóknir. Hún var kannski ekkert sérlega fjörlega skrifuð, en efnið er hins vegar stórmerkilegt, og sömuleiðis rannsóknir höfundar ævisögunnar. Eitt af því sem hann hafði komist yfir í sínu grúski var sjálft bókasafnskort Hammetts frá árunum þegar hann hékk sem ungur maður á almenningssafninu í San Fran, en af því mátti sjá hvað hann hefði verið að lesa og þá hverjir væru hugsanlegir áhrifavaldar á hinn unga væntanlega rithöfund.

Breski höfundurinn segir að vísu að það sé kannski ekki óvænt hvað ungur námfús og bókmenntasinnaður Bandaríkjamaðurinn hafi verið að lesa á þessum tíma; það voru enskar skáldsögur eftir Dickens og þá, og svo amerísk klassík frá 19. öld eins og eftir Melville og Mark Twain. En hann bætir því síðan við að sömuleiðis hafi hinn ungi Hammett greinilega verið að detta í undarlega hluti; hann hafi margoft fengið lánaðar einhverjar „old norse tales“ þar á safninu. Svo eru ekki frekari ályktanir dregnar af því, enda kannski breski sagnfræðingurinn lítt handgenginn Íslendingasögum, en ég þóttist nú skilja hvaðan skyldleikinn við Skarphéðin Njálsson væri kominn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“
Fréttir
Í gær

Paul Watson undirbýr Operation ICESTORM – „Tíminn er liðinn hjá heimsins alræmdasta hvalveiðimanni, Kristjáni Loftssyni“

Paul Watson undirbýr Operation ICESTORM – „Tíminn er liðinn hjá heimsins alræmdasta hvalveiðimanni, Kristjáni Loftssyni“
Fréttir
Í gær

Fékk skilorð fyrir ofsafengna sveðjuárás

Fékk skilorð fyrir ofsafengna sveðjuárás
Fréttir
Í gær

Fór huldu höfði á Íslandi en eftirlýstur í Póllandi – Sagðist ekki geta farið í flugvél vegna höfuðhöggs

Fór huldu höfði á Íslandi en eftirlýstur í Póllandi – Sagðist ekki geta farið í flugvél vegna höfuðhöggs
Fréttir
Í gær

Ritstjóri Austurfréttar ánægður með árshátíðina dýru – „Ekki há upphæð fyrir fyrirtæki með tekjur upp á 52 milljarða króna“

Ritstjóri Austurfréttar ánægður með árshátíðina dýru – „Ekki há upphæð fyrir fyrirtæki með tekjur upp á 52 milljarða króna“