fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

Níu Íslendingar í haldi í erlendum fangelsum

Sitja inni í Bandaríkjunum, Brasilíu, Ástralíu, Þýskalandi, Spáni og Noregi

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 26. ágúst 2016 21:49

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Alls eru níu Íslendingar í varðhaldi eða að afplána fangelsisdóma erlendis. Samkvæmt upplýsingum frá Utanríkisráðuneytinu eru átta einstaklingar í haldi yfirvalda í fimm löndum, þrír afplána dóm í Brasilíu, tveir í Noregi og einn Íslendingur er í haldi í Ástralíu, Þýskalandi og Spáni. Þá greinir DV frá því í dag að íslensk stúlka Sandra Sigrún Fenton, sem einnig er bandarískur ríkisborgari, var dæmd í 37 ára fangelsi árið 2013 fyrir tvö bankarán í tveimur mismunandi ríkjum Bandaríkjanna. Áhrifamikið viðtal sem blaðamaðurinn Auður Ösp Guðmundsdóttir tók við móður Söndru Sigrúnar má lesa á blaðsíðu x í blaðinu.

Engar formlegar tilkynningar

Utanríkisráðuneytinu var ekki kunnugt um dóm Söndru Sigrúnar og því má leiða að því líkum að fleiri íslenskir ríkisborgarar geti verið í haldi erlendra yfirvalda án þess að vitneskja um það hafi borist til stjórnvalda hér. Íslenskum stjórnvöldum berast ekki formlegar tilkynningar þegar landsmenn eru handteknir erlendis heldur gera aðstandendur þeirra utanríkisþjónustunni viðvart. Helsta hlutverk utanríkisþjónustunnar í þessum málum er að hafa eftirlit með því að almennra mannréttinda sé gætt gagnvart íslenskum ríkisborgurum í haldi erlendra ríkja.

Þá sitja átta Íslendingar í fangelsi hérlendis vegna dóma sem þeir hlutu utan landsteinanna. Allir dómarnir eru frá Norðurlöndunum en Fangelsismálastofnun vildi ekki gefa frekari upplýsingar um í hvaða löndum dómarnir féllu út af persónuverndarsjónarmiðum.

Ekki vitað um tvo

DV hefur ekki upplýsingar um hverjir tveir af þessum níu föngum eru, sem ekki er fjallað um sérstaklega hér. Fyrir liggur að þessir einstaklingur sitja í fangelsi í Þýskalandi og á Spáni. Eins og DV greindi frá í október síðastliðnum var 58 ára Íslendingur handtekinn fyrir meinta aðild að rekstri stærstu marijúanaverksmiðju Evrópu. Engar upplýsingar hafa borist um dóm yfir manninum og því er mögulegt að hann sé sá sem er í haldi yfirvalda á Spáni. Það hefur DV ekki fengið staðfest.

Siguringi í sjö ára fangelsi í Ástralíu

Siguringi Hólmgrímsson

Siguringi Hólmgrímsson

Staður: Melbourne

Land: Ástralía

Nafn: Siguringi Hólmgrímsson

Lengd dóms: Sjö ára fangelsi

Hinn 29. maí 2015 var Siguringi Hólmgrímsson, þá 26 ára gamall, dæmdur í sjö ára fangelsi í Melbourne fyrir smygl á fíkniefnum. Tæpum tveimur árum fyrr, þann 20. ágúst 2013, var hann handtekinn ásamt félaga sínum og fundust 1,2 kíló af hreinu kókaíni í tösku Siguringa en tæpt eitt kíló í tösku félaga hans.

Siguringi játaði sekt sína en hann samþykkti að smygla fíkniefnunum til að gera upp fíkniefnaskuld upp á 2,2 milljónir hérlendis. Hann gaf eiðsvarna yfirlýsingu um að félagi hans hafi ekki vitað af fíkniefnunum í tösku sinni. Siguringi hafði boðið manninum í ókeypis frí til Ástralíu og lagt til ferðatösku þar sem efnin voru falin. Dómari í málinu sagði Siguringa „grimman og hjartalausan“ fyrir að hafa komið svona fram við félaga sinn sem sat saklaus í gæsluvarðhaldi í 567 daga.

Siguringi þarf að lágmarki að sitja inni í fimm ár að frádregnum þeim 647 dögum sem hann hafði setið í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Því má gera ráð fyrir að Siguringi losni úr haldi haustið 2018.

Sveddi tönn í 22 ára fangelsi í Brasilíu

Sverrir Þór Gunnarsson

Sverrir Þór Gunnarsson

Staður: Ríó de Janeiro

Land: Brasilía

Nafn: Sverrir Þór Gunnarsson

Lengd dóms: 22 ára fangelsi

Hinn 2. júlí 2012 var hinn fertugi Sverrir Þór Gunnarsson, betur þekktur sem Sveddi tönn, handtekinn á kaffihúsi í Ipanema-hverfi Ríó de Janeiro ásamt brasilískum félaga sínum. Það var eftir ábendingu 26 ára gamallar brasilískrar konu sem handtekin var með 46 þúsund e-töflur á Tom Jobim-flugvellinum í brasilísku borginni. Hún var að koma til landsins frá Lissabon í Portúgal. Um var að ræða mesta magn slíkra eiturlyfja sem lögreglan hafði lagt hald á á umræddum flugvelli.

Burðardýrið ætlaði að hitta Sverri Þór og félaga hans, sem reyndist vera kærasti hennar, á kaffihúsinu og afhenda þeim fenginn. Þess í stað fór lögreglan til móts við tvímenningana og handtók þá.

Við handtökuna reyndi Sverrir Þór að villa á sér heimildir með því að segjast vera annar íslenskur maður en allt kom fyrir ekki. Við leit á hótelherbergi hans fannst hass sem lögreglan taldi að Sverrir Þór hefði smyglað inn í landið í sama flugi frá Portúgal og burðardýrið. Í lok nóvember 2012 var Sverrir dæmdur í 22 ára fangelsi vegna málsins.

Sverrir Þór á langan afbrotaferil að baki og meðal annars var hann einn af höfuðpaurunum í Stóra fíkniefnamálinu. Hann var dæmdur í 7 og hálfs árs fangelsi vegna málsins í febrúar 2001 og gerðar voru upptækar rúmar 20 milljónir í hans vörslu.

Hlynur og Birgitta í fimm ára fangelsi í Brasilíu

Hlynur Kristinn

Hlynur Kristinn

Staður: Fortaleza

Land: Brasilía

Nafn: Hlynur Kristinn Rúnarsson og Birgitta Gyða Bjarnadóttir

Lengd dóms: 5 ár og 20 dagar

Þann 16. júní 2016 voru Hlynur Kristinn og Birgitta Gyða dæmd í rúmlega 5 ára fangelsi fyrir smygl á fíkniefnum. Þau voru gripin með fjögur kíló af kókaíni í fórum sínum á móteli í brasilísku borginni Fortaleza. Um hreina tilviljun var að ræða því þerna á mótelinu fann lítinn hluta af efninu í snyrtitösku parsins.

Kókaínið var falið í þremur ferðatöskum með fölskum botni. Þau fengu lægstu mögulegu refsingu þar sem um fyrsta brot þeirra í Brasilíu var að ræða. Með góðri hegðun má gera ráð fyrir að þau þurfi að afplána 2–2½ árs dóm en síðan mega þau ekki yfirgefa landið fyrr en dómurinn hefur runnið sitt skeið að fullu.

„Þessi stelpa er harðari en allt og er ótrúlega jákvæð þrátt fyrir allt sem á undan er gengið,“ sagði Esther Ósk Estherardóttir, móðir Birgittu, í vor en DV birti myndskeið sem sýndi skelfilegar aðstæður í fangelsinu.

Hlynur Kristinn Rúnarsson tjáði sig einnig við DV og greindi frá því að hann hefði ekki fengið borgað fyrir ferðina og hótaði að nafngreina skipuleggjendur smyglsins. Gaf hann þeim vikutíma til að hafa samband við aðstandendur hans. Hlynur sagði um vistina í fangelsinu: „Hér eru ekki mannréttindi. Verðirnir nota táragas, piparúða og barefli hiklaust á fanga sér til skemmtunar.“

Dæmd fyrir tvö bankarán

Sandra Sigrún Fenton

Sandra Sigrún Fenton

Staður: Virginía

Land: Bandaríkin

Nafn: Sandra Sigrún Fenton

Lengd dóms: 38 ára fangelsi

Sandra Sigrún fékk þyngsta dóm sem Íslendingur hefur hlotið þegar hún var dæmd árið 2014 fyrir tvö bankarán vestan hafs. Ránin áttu sér stað sama dag, 13.ágúst 2013, hið fyrra í borginni Norfolk í Virginíu-fylki og hið síðara í borginni Chesapeake. Sandra Sigrún sá um að ræna útibúin á meðan að eiturlyfjasalinn hennar beið úti í bíl.

Lesendum er bent á áhrifamikið viðtal við móður Söndru Sigrúnar á öðrum stað í blaðinu.

……………………..

Kaj Anton í 28 mánaða fangelsi í Noregi

Kaj Anton Arnarson

Kaj Anton Arnarson

Staður: Stavanger

Land: Noregur

Nafn: Kaj Anton Arnarson

Lengd dóms: 2 ára og 2 mánaða fangelsi

Hinn 13. júní síðastliðinn var Kaj Anton dæmdur í 28 mánaða fangelsi fyrir að hafa misþyrmt tveggja ára dreng hrottalega. Árásirnar áttu sér stað um tveggja daga skeið í október á síðasta ári. Áverkar drengsins líktust helst því að hann hefði lent í bílslysi. Hann var tvíhandleggsbrotinn, með heilahristing og áverka um allan líkamann.

Kaj Anton hafði nýlega endurnýjað kynni sín við móður drengsins og var gestkomandi á heimili mæðginanna í Stavanger. Móðir drengsins hafði nýverið fengið vinnu í bænum og bauðst Kaj Anton til þess að gæta drengsins heima við. Það traust misnotaði hann gróflega.

Kaj Anton afplánar dóminn í sérstöku fangelsi fyrir barnaníðinga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum
Fréttir
Í gær

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum