fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Þetta gæti gerst í Evrópu eftir BREXIT

Augu heimsbyggðarinnar voru á Bretlandi í dag

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Föstudaginn 24. júní 2016 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi mun nær örugglega hafa alvarlegar afleiðingar á öllum sviðum frá fjármálamörkuðum til stjórnmálalegrar stefnumótunar Evrópu og stöðugleika innan Evrópusambandsins. Bretar hafa kosið að ganga úr Evrópusambandinu og David Cameron, forsætisráðherra Breta, hefur tilkynnt að hann muni segja af sér í kjölfar niðurstöðunnar.

51,9 prósent kjósenda ákváðu að hagsmunum Breta væri betur borgið utan sambandsins en innan þess. David Cameron tilkynnti um ákvörðun sína nú í morgunsárið þegar niðurstöðurnar lágu fyrir. Cameron var harður talsmaður þess að Bretar yrðu áfram innan ESB. Ákvörðunin hefur strax haft gríðarleg áhrif og pundið er í frjálsu falli.

Fjölmiðillinn Politico kannaði fyrr í vikunni viðhorf stjórnmálamanna og sendifulltrúa víða um Evrópu til þess hverjar afleiðingar gætu orðið af úrsögn Breta úr ESB.

Raddir eru uppi um að úrsögn Breta veiti gagnrýnendum ESB aukinn innblástur og hærri raddir innan heimaríkja þeirra, viðskiptatækifæri glatist með úrsögn Breta og brotthvarf af sameiginlegum markaði ESB og að breska röddin sem boðað hafi frelsi í viðskiptum við borð ESB muni nú þagna á þeim vettvangi.

Hér er ágrip af því hvernig staðan er nú metin innan einstakra landa innan ESB.

Nágrannar,vinir og fjandvinir

Írland – Helsta áhyggjuefnið: fjárhagslegar afleiðingar

Þar sem Írland er eina ESB ríkið sem deilir landamærum með Bretlandi (utan Spánar sem liggur að Gíbraltar), þá hefur Írland mestu að tapa á því að Bretar ganga úr ESB. Heildarveltan í viðskiptum Íra og Breta er um 1.2 milljarðar evra í hverri viku. Þessi viðskipti landanna standa undir um 400 þúsund störfum. Írska ríkisstjórnin hefur ekki tekið neinu sem gefnu. Ólíkt Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og mörgum ríkisstjórnun innan Evrópusambandsins þá hefur ríkisstjórnin í Dublin unnið með opinskáum hætti að undirbúningi þess að Bretar ákvæðu að ganga úr ESB. „Augljóslega munum við verða sú aðildarþjóð ESB sem verður fyrir mestum áhrifum, svo við munum hafa meiri áhuga [á að koma á fót hagstæðum samskiptum við Bretland] og á sumum sviðum öðruvísi stöðumat varðandi suma þætti en aðrir kunna að hafa,“ sagði Dara Murphy ráðherra Írlands í málefnum varðandi ESB í samtali við Politico. Murphy sagði að endusköpun landamæra milli Írlands og Bretlands yrði „neikvætt skref“ – í það minnsta táknrænt séð – þegar snýr að því að tryggja frið í Norður Írlandi sem byggir á samkomulagi sem veltur á nánum tengslum landanna tveggja. „Við teljum ekki að friðarferlinu verði ógnað…en við teljum að hvert skref aftur á bak sé neikvætt skref,“sagði Murphy. Hann sagðist einnig einvörðungu sjá hugsanleg sóknarfæri fyrir Írland yrði niðurstaða Bretlands sú að yfirgefa ESB. Hugsanlega yrði það vítamínsprauta fyrir Dublin ef fjármálastofnanir og önnur fyrirtæki innan landamæra Bretlands tækju þá ákvörðun að færa sig um set til að hafa bækistöðvar sínar innan Evrópusambandsins.

Frakkland – Helsta áhyggjuefnið: Aukin Evrópugagnrýni

Frakkland er eitt þeirra ríkja sem stofnsettu Evrópusambandið en það er einnig heimaland eins af sterkustu stjórnmálaflokkum Evrópu sem eru gagnrýnir á sambandið. Þetta setur Frakka í klemmu þegar kemur að niðurstöðu bresku þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Nýjustu skoðanakannanir sýna að Marine Le Pen leiðtogi Þjóðfylkingarinnar gæti komist gegnum fyrstu umferð forsetakosninganna 2017 og í lokaumferðina. Almenn andúð á Brusselvaldinu er sterk í Frakklandi. Skoðanakönnun Pew rannsóknastofnunarinnar sem gerð var fyrr í þessum mánuði sýnir að franskur almenningur hefur jafnvel enn minna álit á ESB heldur en Bretar. Frönsk stjórnvöld hafa undirbúið sig í ljósi þess að Bretar höfnuðu áframhaldandi aðild að ESB, til að vinna gegn því að ESB andúð breiðist frekar út og verði sterkari bæði innan Frakklands og ESB. Hátt settir franskir sendimenn segja að í þessu felist meðal annars að áhersla verði lögð á að ná fram skjótum skilnaði við Bretland í gegnum samningaviðræður án þess að gefið verði færi á því að semja upp á nýtt. Frakkland hefur einnig fleiri þætti að líta til sem valda áhyggjum. Landið hefur fjárfest verulega í Bretlandi og þar búa nú um stundir yfir 160 þúsund franskir borgarar. Talið er að 400 þúsund breskir borgarar búi í Frakklandi og þeir gætu nú staðið frammi fyrir því að tapa réttindum sínum innan ESB. Stjórnmálalega séð gæti Frakkland ekki átt neins annars kosts en að reyna að ná stjórnmálalegri forystu með Þýskalandi og öðrum Evrópuríkjum til að reyna að komast hratt fram á veginn með Evrópusambandið eftir að Bretar hafa ákveðið útgöngu. Heimildamenn herma að æðstu sendifulltrúar Þýskalands og Frakklands hefðu þegar rætt þessi mál áður en atkvæðagreiðslan fór fram í Bretlandi í gær á þann veg að Evrópusamstarfið yrði styrkt þegar kæmi að öryggismálum, en dregið yrði úr vægi þess varðandi sameiginlegar lagasetningar ESB og áhrif þess á daglegt líf.

„Kjarni“ Evrópu

Belgía – Helsta áhyggjuefnið: Efnahagsleg áhrif

Belgía er ekki einvörðungu aðsetur helstu stofnana ESB; Bretland er einnig eitt helsta viðskiptaland Belga. Rannsókn ING-bankans í janúar 2016 sýndi fram á að Belgía væri meðal þeirra ESB landa sem eru viðkvæmust fyrir útgöngu Breta úr ESB þegar kemur að áhrifum á viðskiptajöfnuð. Önnur lönd í þessum hópi eru Írland, Þýskaland og Holland. „Allt sem veikir ESB veikir einnig Belgíu,“ sagði belgískur embættismaður sem spáði því að áhrif úrsagnar Bretlands yrðu „alvarleg og afdrifarík.“ Kris Peeters fjármálaráðherra Belgíu lýsti því yfir á dögunum að hann hefði skipað aðgerðahóp til að skoða hvernig efnahagslíf Belga ætti að takast á við hugsanlega útgöngu Breta.

Lúxemborg – Helsta áhyggjuefnið: Áfall fyrir liðsandann í ESB

Sem einn af stofnendum ESB mun hertogadæmið að öllum líkindum verða fyrir truflandi áhrifum af útgöngu Breta, jafnvel þó að útganga Breta reynist gott fyrir viðskiptalífið í Lúxemborg ef fjármálastofnanir Breta ákveða að halsla sér völl innan einnar þekktustu skattaparadísar Evrópu. Xavier Bettelforsætisráðherra hefur lýst áhyggjum yfir því að ESB sýndi Bretum of mikla undanláttsemi í viðleitni til þá ofan af hugleiðingum um að ganga úr sambandinu. Það hefði bitnað á grundvallarreglum sambandsins um frjálsa för ferðalanga og vinnuafls. Það er þó ólíklegt að Lúxemborg mælist til refsiaðgerða gegn Bretandi nú þegar Bretar hafa ákveðið að ganga úr ESB.

Holland – Helsta áhyggjuefnið: Aukin Evrópugagnrýni

Öfl andstæð ESB öllu þegar pólitískum öldugangi í apríl þegar þau hjálpuðu tilvið að leiða andstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fór fram um samkomulag ESB við Úkraínu. Litið var fyrst og fremst á það sem skilaboð um andstöðu við stefnu ESB. Útganga Breta mun að líkinum blása anstæðingum ESB í Hollandi frekari baráttuanda í brjóst og veita Frelsisflokknum sem nýtur nú 18 prósenta stuðnings í skoðanakönnunum, aukinn byr í seglin til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB aðild. Oftast er litið á Holland sem bandamann Bretlands innan ESB og löndin hafa staðið saman í atkvæðagreiðslum um breytingar í viðskiptamálum í átt til aukins frjálslyndis. Mark Rutte forsætisráðherra Hollands írekaði þessi tengsl í ræðu í sem hann hélt í Haag þar sem hann sagði meðal annars: „Bretland er með frjálst markaðshagkerfi sem horfir út á við, einmitt eins og Holland. Bæði lönd eru siglingaþjóðir, vanar verslun og starfsemi við opin landamæri.“ Hann sagði mikilvægt að land á borð við Bretland héldist áfram innan ESB.

Þýskaland – Helsta áhyggjuefnið: Áfall fyrir liðsandann í ESB

Þrátt fyrir að útganga Breta sé þungt áfall fyrir liðsandann og jafnvel trúna á drauminn um Evrópusambandið þá er ekki líklegt að Þýskaland muni dvelja lengi við slæmar fréttir af úrsögn Breta. Reyndir sendimenn innan ESB sögðu fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu Breta að stjórnvöld í Berlín myndu leitast við að viðhalda sterkum viðskiptasamböndum við Bretland sem er einn helsti útflutningsmarkaður og vettvangur þýsks viðskiptalífs á mörgum sviðum. Þrátt fyrir að flokkurinn „Valkostur fyrir Þýskaland (Alternative für Deutschland (AfD))“ njóti verulegs stuðnings í skoðanakönnunum þá er lítil hætta á að krafa um þjóðaratkvæði um veru Þýskalands í ESB smitist þangað frá Bretlandi því stuðningur er mikill meðal Þjóðverja við ESB. Útganga Breta gæti hins vegar haft mikil áhrif á hlutverk Þýskalands sem megin aflvaki innan heildarinnar í sambandinu. Útganga Breta fjarlægir Bretland sem hefðbundið mótvægi gegn – og stundum jafnvel á milli – Frakklands og Þýskalands þegar kemur að lykilmálum sem snerta Evrópu. Brotthvarf Breta gæti styrkt þegar sterka rödd Þýskalands við borð leiðtogaráðs ESB þar sem Bretland var landið sem síst var líklegt til að greiða atkvæði eins og Þýskaland. Það eru þó líkur á að þetta kallaði fram bakslag fyrir stöðu Þýskalands. „Hættan er sú að Þýskaland verði of sterkt og að hin löndin muni taka sér stöðu að baki Frakklandi gegn Þýskalandi,“ sagði reyndur sendifulltrúi innan ESB. „Þýskaland vill ekki verða of sterkt, Þjóðverjar vilja starfa með sterkum ríkjum og ef Frakkland er efnahagslega veikt þá er það vandamál.“

Mið- og Austurblokkin

Tékkland – Helsta áhyggjuefnið: Efnahagsleg áhrif

Þetta er eitt þeirra landa þar sem meðhöndlun stjórnvalda í Brussel á flóttamannavandanum hefur nært elda Evrópusambandsgagnrýnenda (kommúnistaflokkurinn KSCM hafði 14 prósenta stuðning í skoðanakönnun nú í vor). Stjórnmálaöfl bæði til vinstri og hægri þrýsta á að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Tékklands að ESB. Þegar kemur að efnahagsmálum þá horfist Tékkland í augu við Bretland og virðist undir það búið að gera skilnaðinn sem bærilegastan. „Okkar forgangsmál verður að takmarka neikvæðar afleiðingar þess fyrir efnahag ESB og gera útgöngu Breta eins hreinskipta og kostur er fari svo að Bretar vilji úr ESB,“ skrifaði Tomas Prouza ritari Tékklands í málefnum ESB í tölvupósti til Politico áður en atkvæðagreiðslan fór fram í Bretlandi. „Ég er sannfærður um að ESB verði áfram fært um að samhæfa sig gagnvart Bretlandi á mörgum sviðum utanríkismála, einnig þegar snýr að hernaðarlegum þætti utanríkismálanna og þá í gegnum NATO og sterkari samvinnu ESB við NATO.“ Prouza lagði þó áherslu á eitt af helstu áhyggjuefnum margra Austur Evrópuþjóða innan ESB. Það gerði hann með því að benda á að ef Bretland vildi verða áfram hluti af sameiginlegum markaði ESB þá yrði landið að virða frjálsa för verkafólks. Það er einmitt þessi frjálsa för sem útgöngusinnar í Bretlandi hafa einna helst viljað stöðva.

Pólland – Helsta áhyggjuefnið: Borgarar í Bretlandi

Útganga Breta gæti haft mjög mikil áhrif á stjórnmálaþróun og efnahag í Póllandi.Um það bil ein milljón Pólverja búa nú og starfa í Bretlandi. Sum þeirra óttast nú að þau muni þurfa að hverfa aftur heim í leit að atvinnu. Könnun sem gerð var í síðustu viku af pólska fyrirtækinu IBRiS sýndi að kysu Bretar að fara úr ESB þá myndu 47 prósent Pólverja velja að búa áfram í Bretlandi. Hins vegar myndu 26 prósent þeirra þó snúa aftur heim til Póllands ef tilraunir þeirra til að setjast að í Brelandi færu út um þúfur. „Fólk segir að það sé að reyna að verða sér úti um annað ríkisfang,“ sagði pólskur sendifulltrúi. „Pólverjar búsettir í Bretlandi óttast að verða neydd til að búa við sömu reglur og giltu fyrir aðild Póllands að ESB.“ Sendimenn innan ESB eru meðvitaðir um þessi tengsl og sögðu að stjórnvöld í Varsjá myndu vilja ganga hóflega fram í samningaviðræðum við Breta um nýja tilhögun viðskiptamála. Hugsanlega myndu pólsk stjórnvöld þrýsta á um sérstakt samkomulag við ESB með tilliti til þess að réttindi yrðu tryggð fyrir pólska ríkisborgara sem byggju enn í Bretlandi. Þegar kemur að útgöngu Breta er þó jákvætt fyrir Pólverja að hún mun beina athygli ESB frá stjórnun Póllands. Um leið mun úrsögnin minnka á lýkur á að Brussel vilji verða uppvíst frekar að því að ráðskast með einstök meðlimaríki ESB. „Eðlilega yrði það í samræmi við þá stöðu sem Pólland hefur tekið sem er að draga úr áhrifavaldi ESB á stjórnun Póllands þannig að meira vald verði fært í hendur ríkisstjórnanna,“ sagði pólski sendifulltrúinn. Hann sagði að í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar í Bretlandi ríkti „eins konar afneitun“ varðandi þann möguleika að Bretar gengju út. Ótti væri við að það leiddi til þess að kjarnaríki innan ESB sæu sig tilneydd að stökkva ofan í skotgrafirnar og einangra sig. Það myndi þá gerast á kostnað Póllands og annarra ríkja Austur Evrópu innan sambandsins.

Slóvakía – Helsta áhyggjuefnið: Borgarar í Bretlandi

Nýleg skoðanakönnun sýnir að 75 prósent Slóvaka eru ánægð með stöðu lands síns innan ESB. Þar er því ekki talin mikil hætta á að þeim sem gjalda varhug við ESB muni vaxa ásmegin eftir að Bretar ganga út. Slóvakía mun á hinn bóginn þrýsta á að tryggt verði að 90 þúsund borgarar hennar verði ekki skildir eftir á flæðiskeri. „Borgarar ESB sem búa og starfa í Bretlandi hafa áunnið sér ákveðin lagaleg réttindi meðan þau lögðu sitt til efhags Bretlands. Við trúum ekki öðru en að staðið verði við þessi réttindi,“ sagði Peter Javorcik sendifulltrúi Slóvakíu hjá ESB í tölvupósti.

Ungverjaland – Helsta áhyggjuefnið: Missir bandamanns

Útganga Breta gæti styrkt Viktor Orbán leiðtoga Ungverja en hann hefur gagnrýnt stefnu ESB, sérstaklega þegar kemur að flóttamannavandanum. Það hefur um árabil verið eitt hans helsta tromp. Orbán notfærði sér meira að segja þjóðaratkvæðagreiðsluna í Bretlandi til að opna á þrýsting sinn á að Ungverjaland haldi eigin þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort landið eigi að taka við flóttafólki eða ekki. Útganga Breta mun þó einnig kosta hann bandamann við borð leiðtoga ríkja Evrópusambandsins. Hann og David Cameron sem nú hverfur af stóli sem forsætisráðherra Bretlands, hafa oft staðið í fararbroddi þeirra sem barist hafa gegn tillögum ESB. Þeir voru tveir einir um að vera á móti því að Jean-Claude Juncker yrði forseti framkvæmdastjórnar sambandsins. Orbán hafði áður en atkvæðagreiðsla Breta fór fram, gefið skýrt til kynna að hann vildi ekki sjá á bak Breta úr ESB. Hann sagði seinast í síðustu viku að hann ætlaði persónulega að berjast gegn úrsögn Breta. Péter Szijjarto utanríkisráðherra Ungverjalands sagði að úrsögn Breta úr ESB yrði meiriháttar tap bæði stjórnmálalega og efnahagslega fyrir land sitt. „Ungverjaland deilir mörgum sjónarmiðum með Bretlandi hvað varðar spurningar um aðlögun þjóða að ESB, svo sem varðandi mikilvægi fullveldis og ábyrgð þjóðþinga,“ sagði hann. „Það er mikilvægt að slík sjónarmið eigi sér sterka fulltrúa innan ESB.“

Austurríki – Helsta áhyggjuefnið: Aukin Evrópugagnrýni

Hinn hægri sinnaði Frelsisflokkur Austurríkis var aðeins hársbreidd frá því að vinna forsetaembættið þar í landi í síðasta mánuði. Þetta var viðvörunarmerki um að landið geymir enn viðkvæman jarðveg fyrir lýðskrumskennda gagnbyltingu gegn ESB í kjölfar þess að Bretar yfirgefa nú sambandið. Harald Vilimsky leiðtogi flokksins hefur þegar krafist þess að Austuríki haldi sína eigin þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi veru í ESB.

Litháen – Helsta áhyggjuefnið: Borgarar í Bretlandi

Forgangsefni númer eitt fyrir þetta Eystrasaltsríki í kjölfar útgöngu Breta er að tryggja afdrif þeirra 200 þúsund litháískra borgara sem búa nú í Bretlandi. „Það verður uppi óvissa í málum þeirra sem hafa búið skemur en fimm ár þar í landi,“ sagði Linas Antanas Linkevicius utanríkisráðherra Litháens við Politico. Hann sagði þó að stjórnvöld í Litháen hefðu ákveðin skilaboð fram að færa til þeirra Litháa sem byggju í Bretlandi og hefðu nú áhyggjur af því hvað yrði um þau. „Við bjóðum þeim öllum að snúa aftur. Í hreinskilni sagt, við vorum 3,5 milljónir talsins hér í þessu landi, nú erum við 3 milljónir.“

Rúmenía – Helsta áhyggjuefnið: Borgarar í Bretlandi

Í Búkarest munu stjórnvöld þrýsta á að rúmenskt verkafólk haldi áfram rétti sínum til að dvelja og búa í Bretlandi eftir að Bretar ganga úr ESB. „Frjáls för vinnuafls verður að haldast sú sama,“ sagði rúmenskur sendifulltrúi. Bretar hafa fjárfest mikið í Rúmeníu og áhyggjur eru vegna framtíðar efnahagslífsins þar. „Við munum kalla eftir sérkjörum fyrir Bretland innan ESB,“ sagði sendifulltrúinn. „Við myndum vilja viðhalda sömu forréttindum og ef Bretland væri áfram innan sambandsins.“

Norræna víddin

Finnland – Helsta áhyggjuefnið: Aukin Evrópugagnrýni

Embættismenn finnskra stjórnvalda hafa nokkrar áhyggjur af því að hægriflokkurinn Sannir Finnar muni styrkjast eftir útgöngu Breta.Það gæti leitt til klofnings í samsteypustjórn Finnlands þar sem sitja bæði Evrópusambandssinnar og Evrópusambandsandstæðingar. Á liðnu ári hafa Sannir Finnar þó misst rúmlega helming þess stuðnings sem þeir höfðu, að sögn finnsk sendimanns, þannig að áhyggjur af þessu eru ekki svo miklar. Finnland hefur að öðru leyti verið sterkur bandamaður Bretlands þegar kemur að ESB málefnum og hefur haft svipaða hagsmuni og Bretar hvað varðar samkeppnishæfni, frjálsa verslun, markaðsmál, regluverk og góða stjórnsýslu. Finnland á landamæri að Rússlandi og það hefur þýtt að landið leggur áherslu á samvinnu við Breta í öryggismálum.

Svíþjóð – Helsta áhyggjuefnið: Missir bandamanns

Bretland er helsti bandamaður Svíþjóðar í ráðherraráði ESB. Löndin hafa greitt atkvæði þar á sama veg í 89 prósent tilvika samkvæmt því sem kemur fram í gögnum VoteWatchEurope. „Fyrir okkur yrði það mikill missir ef Bretland færi út,“ sagði Anders Ahnlid sendiherra Svíþjóðar hjá ESB. „Hagsmunir okkar fara saman þegar kemur að því hvernig gera á umbætur á innri markaðinum og hann markaðssettur. Við deilum sömu áherslum hvað varðar verslun og fjárfestingar út á við.“ Ahnlid benti á veruleg viðskipti milli Bretlands og Svíþjóðar, og að það yrði mikilvægt fyrir ESB að ná fram útgöngusamningi við Breta „eins fljótt og auðið verður“ án þess þó að Bretar fengju allt fyrir ekkert. „Bretland getur ekki haldið sömu tengslum við sameiginlega markaðinn og það hefur í dag,“ sagði Ahnlid. Flokkurinn Svíþjóðademókratar sem nýtur um 16 prósenta fylgis í skoðanakönnunum og er gagnrýninn á Evrópusambandið, hefur kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um innflytjendamál en þau hafa valdið miklum deilum í Svíþjóð. Margir óttast að útganga Breta muni ljá þeirri kröfu byr undir báða vængi.

Suður Evrópa

Ítalía – Helsta áhyggjuefnið: Aukin Evrópugagnrýni

Útganga Breta mun ekki valda Ítalíu beinum skakkaföllum, en hún gæti leitt til alvarlegrar umræðu um stöðu evrunnar sem er mjög óvinsæl þar í landi eftir að efnahagskreppan dundi yfir. Evrópugagnrýnir stjórnmálaflokkar eru bæði til hægri (Norðurbandalagið) og vinstri (5 stjörnu hreyfingin). „Nái útganga Breta fram að ganga þá gætu lýðskrumarar eða Evrópugagnrýnendur í öðrum löndum reynt að endurtaka leikinn um þjóðarkvæðagreiðslu í sínum heimalöndum. Þetta gæti gerst í Ítalíu rétt eins og í öðrum löndum jafnvel í löndum sem ekki eru með evruna,“ sagði Roberto Basso talsmaður ítalska fjármálaráðuneytisins. Hann sagði þó einnig að Ítalía myndi taka harða afstöðu gegn því að Bretar gætu notið sérréttinda utan ESB klúbbsins. „Kjósir þú að skrá þig úr klúbbnum þá getur þú ekki ætlast til þess að vera utan hans þýði það sama og að vera innan,“ sagði Basso.

Malta – Helsta áhyggjuefnið: Efnahagsleg áhrif

Þetta litla eyríki sem er fyrrum bresk nýlenda hefur áhyggjur af því að ferðaiðnaður landsins verði fyrir áföllum ef útganga Breta leiðir til hækkunar flugfargjalda innan ESB. Viðskipti við Bretland námu 7,8 prósentum af heildar þjóðarframleiðslu (GDP) árið 2013. Samskipti við breska banka eru afgerandi fyrir efnahag Möltu. Joseph Muscat forsætisráðherra Möltu hefur sagt að útganga Breta gæti þrátt fyrir þetta reynst fela í sér tækifæri fyrir hið enskumælandi land hans. Bresk fyrirtæki sem vildu halda fótfestu innan ESB gætu nú viljað færa sig um set til Möltu. „Margir líta svo á að með útgöngu Bretlands gæti það farið svo að margir breskir fjármálasjóðastjórnendur laðist til Möltu sem verður áfram í ESB,“ sagði háttsettur maltneskur embættismaður.

Grikkland – Helsta áhyggjuefnið: Efnahagsleg áhrif

Umræðan um útgöngu Breta úr ESB hefur gagnast hinni skuldaklyfjuðu grísku þjóð með óbeinum hætti. Það er vegna þess að lánveitendur hennar, þar með talið aðrar þjóðir innan evrusvæðisins, féllust hratt á að veita Grikkjum meiri lán og framlengingar svo athyglin beindist ekki að fjármálavandræðum Evrópu. Eftir að Bretland gengur nú úr ESB hafa sendifulltrúar varað við því að evruríki utan Grikklands muni ekki lengur vilja sýna jafn mikinn sveigjanleika þegar kemur að skuldamálum grísku þjóðarinnar. Evruríkin gætu freistast til að beita meiri hörku nú þegar ekki þarf lengur að óttast þrýsting og afskipti frá Lundúnum.

Spánn – Helsta áhyggjuefnið: Efnahagsleg áhrif

Ótti er við að útganga Breta muni leiða til háværarri krafna í Katalóníu um að hún kjúfi sig frá Spáni – sérstaklega ef úrsögn Breta verður þess valdandi að Skotland haldi aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um að segja sig frá Bretlandi. Annar þáttur sem snýr að Spáni eru landamæri Spánverja að Bretlandi, það eru þau sem eru syðst á Íberíuskaganum og liggja að Gíbraltar. Þar er mikill stuðningur við áframhaldandi veru Bretlands í ESB vegna ótta við að Spánn muni herða landamæraeftirlit og að Gíbraltar missi hagstæð skattafríðindi sem samið hefur verið um innan ESB. Þúsundir Spánverja fara daglega yfir þessi landamæri til og frá vinnu. Spænsk stjórnvöld sögðu að kæmi til úrsagnar Breta þá myndi Spánn fallast á áframhaldandi markaðsaðgang fyrir Bretland innan ESB að því skilyrði að Bretar fallist á sameiginleg yfirráð með Spáni á Gíbraltarklettinum – það eru ekki miklar líkur á að breskir fallist á það.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí