fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

Ólafur (ekki) ósigrandi

Þetta þarf til að leggja sitjandi forseta – Stefnir í þungavigtareinvígi við Andra Snæ – Álitsgjafar segja sína skoðun

Ritstjórn DV
Föstudaginn 22. apríl 2016 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er fræðilega hægt en þó á sama tíma nær ómögulegt að sigra sitjandi forseta til 20 ára með eins sterka stöðu og Ólafur Ragnar Grímsson hefur að mati álitsgjafa DV. Andri Snær Magnason þykir líklegastur til að veita Ólafi verðuga samkeppni af þeim frambjóðendum sem komnir eru fram en Guðni Th. Jóhannesson er talinn geta komið sterkur inn ef hann ákveður að taka slaginn. Kjark þarf til að taka slaginn við forseta Íslands sem þykir snjallasti stjórnmálamaður samtímans, bæði ljón og refur en líka óforskammaður og óvæginn. Sá slagur yrði því alltaf blóðugur. Fæstir búast við því að nýir frambjóðendur taki slaginn úr þessu, og telja það jafnvel óðs manns æði, eftir að Ólafur Ragnar lýsti því yfir að hann myndi bjóða sig fram til forseta í sjötta sinn í vikunni.

DV leitaði til álitsgjafa úr ýmsum áttum til að svara því hvort Ólafur Ragnar sé ósigrandi eins og margir vilja meina, hvað þurfi til að eiga möguleika gegn honum, hver væri líklegastur til að veita honum verðuga samkeppni og hvort þeir teldu líklegt að nýir frambjóðendur kæmu fram úr þessu í baráttunni um Bessastaði. Þetta höfðu þeir að segja.


1. Er hægt að sigra sitjandi forseta til 20 ára eins og Ólaf Ragnar Grímsson í kosningum?

„Það er vel hægt að sigra hann. Þótt hann hafi lipran talanda og traustlegt yfirbragð, þá kemur í ljós þegar orðræða hans er skoðuð að þar er á ferð samsafn af innihaldslitlum og jafnvel barnalegum klisjum. Frambjóðandi sem ósmeykur gengur á hólm við það getur vel unnið.“

„Já, það er hægt en það þarf eitthvað mikið að koma til til þess að það gerist. Hann er í mjög sterkri stöðu. Hann er pólitískur refur og um leið og færi að halla undan fæti myndi hann finna leið til að ráðast á hættulegasta frambjóðandann og ganga frá honum eins og hann gerði við Þóru. Ólafur Ragnar er snjallasti stjórnmálamaður samtímans, bæði ljón og refur í hinum pólitíska slag. Enginn er betri í tímasetningum en hann. Enginn er óforskammaðri en hann. Enginn slær eins fast frá sér ef honum finnst þess þurfa. Enginn skiptir á svo skömmum tíma um bandamenn í pólitík. Enginn fórnar bandamönnum sínum fyrir framan alþjóð á sama hátt og hann til að tryggja stöðu sína. Hann skiptir um lið án þess að hika. Það er því mjög erfitt að fella hann.“

„Nei. Það er auðvitað hægt að sigra sitjandi forseta, og það hefur gerst í öðrum löndum, en staða Ólafs Ragnars er sterk um þessar mundir. Fólki finnst öryggi að honum.“

„Ef það er hægt að sigra sitjandi forseta á Íslandi þá er það nú. Öll þjóðin var búin að gíra sig upp í að fá loksins nýjan forseta og svo dembir hann því á okkur að hann sé barasta aftur hættur við að hætta. Þetta er löngu orðið þreytandi.“

„Já, réttur frambjóðandi sem er þjóðþekktur, tiltölulega óumdeildur og nýtur trausts getur það.“

„Já, eða við verðum að minnsta kosti að vona það. Í hnefaleikum er gjarnan sagt að þú þurfir að stöðva heimsmeistara til að verða heimsmeistari. Það þýðir ekki að vinna á stigum, eða verða heimsmeistari því hinn er hættur. Ætli þetta sé ekki eins með Ólaf. Hans einu örlög eru að tapa í kosningum. Annars losnarðu ekki við hann.“

„Auðvitað er það fræðilega hægt. Ólafur Ragnar nýtur þess þó að hann nýtur mikils trausts meðal almennings þótt stjórnmálastéttin sé honum frekar andsnúin. Það er þó líka styrkur hans. Styrkur Ólafs felst einnig í því að hvert mannsbarn á Íslandi þekkir hann. Enginn sem orðaður hefur verið við forsetaembættið er viðlíka vel þekktur og hefur jafnsterkt tengslanet.“

„Hefðin segir að það sé ekki hægt og það verður ekki heldur í þetta sinn, því miður – hér búa sömu kjósendur og áður.“


2. Hvað þurfa aðrir frambjóðendur fyrst og fremst að gera til að eiga möguleika að þínu mati?

„Þeir þurfa að sýna heiðarleika og auðmýkt, og að þeir séu ekki í framboði til að fara út í klækjastjórnmál. Þá er líka einfalt að benda á að Ólafur Ragnar er guðfaðir sitjandi ríkisstjórnar, ríkisstjórnar sem stór hluti þjóðarinnar vill frá.“

„Vera þjóðþekktir, sýna þjóðinni að þeim sé treystandi til að taka við og að þeir séu ekki ofurseldir pólitískum öflum.“

„Frambjóðendur til forseta þurfa að vera þjóðkunnir og njóta trausts og hafa unnið sér inn fyrir embættinu. Þeir þurfa að hafa reynslu af mannaforráðum og kunna að koma virðulega fram á erlendum vettvangi. Enginn hinna frambjóðendanna fullnægði þessum skilyrðum, og framboð flestra þeirra var fullkominn skrípaleikur.“

„Til að sigra þarf frambjóðandi fyrst og fremst að bjóða upp á skýra framtíðarhugsun. Hugsun Ólafs Ragnars er föst í fortíðinni og hann mun ekki komast þaðan héðan af.“

„Þeir þurfa skýran málflutning og hugmynd. Þeir þurfa líka að vera tilbúnir að slást. Ólafur Ragnar er bardagamaður, hreinræktaður. Hann er með pólitískt IQ sem er óviðjafnanlegt. Hann leikur sér að því að láta fólk líta illa út en heldur rosalegu kúli á meðan. Hann hefur yfir sér þennan gamla og vitra sjarma, en hann er slóttugur og snjall. Frambjóðendur þurfa að vera snjallari. Ekki einlægari eða krúttlegri – þeir þurfa að vera snjallari og slóttugri. Þeir þurfa að taka hann í bólinu.“

„Skammt er til kosninga og nýir frambjóðendur hafa ekki mikinn tíma til að kynna sig og afla sér stuðnings. Þeir geta ekki treyst á fjölmiðla og verða sjálfir að eyða fé og vinnu í að tengjast kjósendum. Þetta þarf Ólafur ekki að gera. Veikleiki Ólafs felst í því að honum er legið á hálsi fyrir að vera þaulsætinn í embætti og hann er að eldast.“

„Þeir þurfa að taka stjórnina á umræðunni frá sitjandi forseta. Sitjandi forseti hefur nú skilgreint kosningabaráttuna út frá óvissu og ólgu í samfélaginu. Ef einhver ætti að eiga séns í hann þyrfti viðkomandi að endurskilgreina baráttuna, jafnvel benda á mistök sem sitjandi forseti hefur gert á síðustu misserum og benda þjóðinni á hvernig áframhaldandi seta hans muni ekki leysa vanda þjóðarinnar.“

„Það þarf að vera skýrt hvað þeir standa fyrir og þeir þurfa að benda með mjög skýrum hætti á veikleika Ólafs Ragnars. Hafa kjark til að vera með beitta gagnrýni í garð Ólafs og taka slaginn við hann sem yrði blóðugur.“

3. Hver er líklegastur í augnablikinu til að veita Ólafi verðuga samkeppni? (Af þeim sem komnir eru fram eða ekki)

„Andri Snær getur unnið ef hann nær að höfða til fleiri en hingað til. Og ef hann er vel búinn undir þann skít sem Ólafur Ragnar mun nú leynt eða ljóst ausa yfir hann, líkt og kom Þóru Arnórs úr jafnvægi fyrir fjórum árum.“

„Andri Snær Magnason. Ekki spurning. Ég hafði vonað að Guðni Th. myndi bjóða sig fram en ég reikna ekki með því úr þessu.“

„Guðni Th. Jóhannesson er sá eini sem nefndur hefur verið sem mögulega gæti att kappi við Ólaf.“

„Enginn þeirra, sem nú er kominn fram. Eini maðurinn, sem hefði átt svipaða möguleika og Ólafur Ragnar, er Davíð Oddsson. Hann hefði haft víst um 30–35% fylgi og hefði fullnægt öllum sömu skilyrðunum og Ólafur til að geta verið forseti. Hann hefði auk þess áreiðanlega unnið fylgi í kosningabaráttunni.“

„Guðni Th. Jóhannesson væri mjög sterkur kandídat og ég skora hér með á hann að láta slag standa þó að mér heyrist hann hafa gefið það frá sér. Andri Snær mun annars fá næstflest atkvæði. “

„Andri Snær. Ekki spurning. En hann verður líka að vera tilbúinn að „get down and dirty“, þetta vinnst því miður ekki á málefnunum. Ekkert vinnst á málefnunum. “

„Afar hæfur, sjarmerandi og vel þekktur einstaklingur sem gæfi kost á sér gæti e.t.v. náð að hrífa kjósendur með sér undir slagorði um nýja og betri tíma. Slíkir einstaklingar hafa þó ekki verið á lausu sem skýrir e.t.v. hvers vegna Ólafur Ragnar býður sig enn á ný fram.“

„Líklega Guðni Th. Af þeim sem eru komnir fram Andri Snær – aðrir eiga ekki möguleika.“


4. Heldur þú að einhver nýr frambjóðandi sé líklegur til að koma fram úr þessu?

„Davíð [Oddsson] ætlaði fram, en hann þorir vart héðan af. Það er þrýst á Kötu Jak að endurskoða ákvörðun sína um að fara ekki fram, en ég efast um að hún skipti um skoðun. Hvað Guðni Th. gerir veit enginn. Hann myndi vinna Ólaf Ragnar örugglega ef Andri Snær væri ekki á sviðinu.“

„Ekki séns. Frambjóðendur eru nú þegar farnir að hætta við framboð þannig að þróunin verður frekar í þá átt.“

„Nei, því miður.“

„Nei, ég tel það frekar ólíklegt.“

„Nei, enginn með vigt allavega.“

„Nei, en fleiri munu heltast úr lestinni – með réttu.“

„Ekki sterkur frambjóðandi. Það er óðs manns æði að fara gegn Ólafi Ragnari í þeirri sterku stöðu sem hann er.“


Álitsgjafar DV:

Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur og dósent. Friðjón R. Friðjónsson, almannatengill. Illugi Jökulsson, blaðamaður. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, stjórnmálafræðiprófessor. Björk Eiðsdóttir, ritstjóri. Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðiprófessor. Halldór Halldórsson (DNA), leikari og grínisti. Erla Hlynsdóttir, ritstjóri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum
Fréttir
Í gær

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum