Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hvetur stjórnarandstöðuna til að leggja fram vantrauststillögu á Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Það gerði Þorsteinn í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2.
Líkt og kom fram á DV.IS blöskrar Þorsteini umræðan sem farið hefur fram um Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur og eignir hennar. Anna er eiginkona Sigmundar. Þorsteinn segir að vantrauststillaga myndi styrkja stöðu Sigmundar Davíðs, þegar allt kæmi upp á yfirborðið. Þorsteinn sagði:
„Ef að þetta er áhugamál hjá þeim og ef þeir telja sig fá eitthvað fram með því að gera þetta þá ættu þeir endilega að gera það. Það mun bara styrkja stöðu forsætisráðherra ef menn fara yfir þessi mál og hans störf.“
Þá sagði hann ennfremur að hans skoðun væri að öllum spurningum hefði verið svarað, meðal annars í greinargóðu bréfi Önnu.
Fyrr í dag sagði Þorsteinn nánast ómögulegt væri orðið að ráðast gegn Sigmundi og því væri gripið til þess ráðs að beina spjótum sínum að eiginkonu hans og eignum hennar. Þorsteinn segir það vera „nýjan kafla í lágkúruumræðu,“ enda alþekkt að Anna Sigurlaug sé velefnuð og engin leynd hafi hvílt yfir því.
„Það liggur fyrir að eiginkona forsætisráðherra hefur ef eitthvað er tapað eignum vegna þeirra aðgerða sem eiginmaður hennar hefur staðið fyrir. En hælbítarnir gefast ekki upp enda eru pólitísk samtök þeirra við það að þurrkast út. Það ætti ekki að koma neinum á óvart sem fylgst hefur með framgöngu þeirra undanfarin ár.“