Dæmt í markaðsmisnotkunarmáli – Fjórir sakfelldir og í óskilorðsbundið fangelsi
Hæstiréttur Íslands þyngdi í dag dóm yfir Sigurjóni Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, í átján mánaða fangelsi. Áður hafði Sigurjón hlotið tólf mánaða fangelsisdóm í héraðsdómi.
Ívar Guðjónsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin fjárfestinga hjá Landsbankanum, var dæmdur í tveggja ára fangelsi og Júlíus S. Heiðarsson, fyrrverandi starfsmaður eigin fjárfestinga, fékk eins árs dóm. Þeir höfðu áður hlotið níu mánaða fangelsi í héraðsdómi, þar af voru sex mánuðir skilorðsbundnir. Sindri Sveinsson var dæmdur í níu mánaða fangelsi en hann var sýknaður í héraðsdómi. Dómarnir sem féllu í Hæstarétti í dag eru allir óskilorðsbundnir.
Málið snýr að markaðsmisnotkun skömmu fyrir hrun og var fjórmenningunum gefið að sök að hafa handstýrt hlutabréfaverði í bankanum í aðdraganda hrunsins. Í ákæru kom fram að markaðsmisnotkunin hafi verið framkvæmd að undirlagi Sigurjóns. Þannig voru gerð stór kauptilboð frá þeim sem sáu um fjárfestingar fyrir bankann með litlu innbyrðis verðbili í hlutabréf í bankanum. Þá hafi verið komið í veg fyrir eða hægt verulega á verðlækkun hlutabréfa í bankanum.
Sigurjón hafði áður hlotið þriggja og hálfs árs fangelsi í Ímon-málinu svokalla í Hæstarétti.