fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024

Baldur: „Engin þjóð í heiminum sem tekur eins mikil reiðiköst og eins oft og Íslendingar“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 23. febrúar 2019 12:30

Baldur Hermannsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vorið 1993 var íslenska þjóðin harkalega vakin upp af draumi. Drauminum um að í gegnum aldirnar hefði hér ríkt samhent og nánast stéttlaust samfélag, andstætt við lénsveldi Evrópu. Í þáttum Baldurs Hermannssonar, Þjóð í hlekkjum hugarfarsins, var á hispurslausan hátt greint frá því hvernig íslenskir bændur viðhéldu völdum sínum með því að koma í veg fyrir þéttbýlismyndun. Afleiðingin varð fátækt og ofbeldi, sem vinnuhjú fengu að kynnast á eigin skinni öld eftir öld. Þættirnir hreyfðu við fólki og sumir vildu banna þá, þeir væru árás á landsbyggðina. DV ræddi við Baldur um þættina og viðbrögðin við þeim.

 

Íslendingar uppteknir af konungablóðinu í sjálfum sér

Strax í fyrsta þættinum skipti Baldur Íslandssögunni upp í fjögur megintímabil. Landnámsöld, goðaveldi, bændaveldi og borgaröld. Bændaveldið var viðfangsefni þáttanna, skilgreint frá árinu 1262 til 1893, eða röskar sex aldir. Þrátt fyrir að landið væri undir konungi hafi bændur verið hér alráðir og vísvitandi hindrað þéttbýlismyndun til að halda völdum sínum. Ægivaldi þeirra lutu íslensk vinnuhjú og smælingjar sem bundnir voru í vistarband.

Baldur mótaði þessa kenningu eftir að hafa kynnt sér verk sagnfræðinganna Gísla Gunnarssonar og Ólafs Ásgeirssonar og einnig Kirstens Hastrup mannfræðings. Ólafur, sem lést langt fyrir aldur fram, hélt því fram að barátta vinstri- og hægrimanna á 20. öldinni væri hjómið eitt miðað við baráttuna milli dreifbýlis og þéttbýlis, sem var háð með fullri hörku um langt skeið.

Í samtali við DV segir Baldur að hann hafi hins vegar ekki litið á sitt hlutverk sem fræðimennsku, heldur fjölmiðlun. Hann var jafnframt hvattur áfram af Hrafni Gunnlaugssyni, þá dagskrárstjóra hjá Ríkissjónvarpinu, sem stóð fyrir uppátækjum og nýbreytni í dagskránni. Hrafn vildi að Baldur kæmi þessum hugmyndum beint inn í stofuna hjá fólki. Hugmyndum sem voru í hrópandi mótsögn við þá glansmynd sem dregin var upp á tyllidögum og í sögukennslubókum.

„Íslendingar eru svo uppteknir af konungablóðinu í sjálfum sér,“ segir Baldur. „Þetta eru leifar af sjálfstæðisbaráttunni frá 19. öld þegar Fjölnismenn mögnuðu hér upp mikla þjóðerniskennd, sem skilaði árangri. Við lítum til upprunans og hinnar stórbrotnu menningar á 13. öld. En brjótum ekki heilann um það hvernig smælingjar höfðu það og hvernig farið var með brotamenn sem stálu sér til matar.“

Þjóð í hlekkjum hugarfarsins
Förukonan Þuríður og sonur hennar Jón voru brennd á báli.

Verkkunnáttan frumstæð og sjálfsbjargargetan hverfandi

Harkan og refsigleðin er gegnumgangandi stef í þáttunum og áhorfendur heima í stofu fengu að heyra lýsingarnar ómengaðar. Líkt og Björn Blöndal sýslumaður sagði þegar Agnes og Friðrik voru höggvin: „Það má enginn undan líta.“ Baldur segir:

„Sennilega hafa Íslendingar skammast sín fyrir þetta seinna meir og ekki viljað hampa þessari sögu. Rétt eins og nú á dögum þegar fréttir eru fluttar af ömurlegum aðstæðum erlends verkafólks sem farið er með eins og þræla. Þegar sagt er frá þessu í sjónvarpinu þá rífa allir sig ofan í kok af hneykslun. En við höfum vitað af þessu í tíu ár, við töluðum hins vegar ekki um þetta.“

Var vistarbandið okkar þrælahald á árum áður?

„Nei, það má ekki svartmála þetta. Vistarbandið var ekki aðeins kvöð fyrir vinnuhjúin heldur skuldbatt það einnig húsbændurna og þeir tók á sig mikla ábyrgð. Þetta var fyrst og fremst leið til að koma í veg fyrir að hér myndaðist þéttbýli og borgir. Þessi skelfilega ákvörðun sem leiddi það af sér að Ísland stóð höllum fæti miðað við Evrópu. Hér þróaðist til dæmis ekki handverk og vermenn urðu að fara heim í heiðardalinn eftir hverja vertíð. Á 18. öld var svo komið, að verkkunnáttan var frumstæð og sjálfsbjargargeta þjóðarinnar hverfandi. Mannfjöldinn rokkaði ekki nema frá þrjátíu upp í fimmtíu þúsund.“

Í kjölfar sjálfstæðisbaráttunnar var Dönum kennt um flestar hörmungar Íslands á fyrri öldum. Enn í dag eru margir sem halda því fram að Danir hafi arðrænt þjóðina og allir þekkja söguna um maðkaða mjölið.

„Við vorum alltaf að jagast út í Dani og kenna Dönum um allan fjandann. Danir gerðu Íslendingum aldrei nema gott eitt. Það sem skorti hérna var verkkunnátta. Verkkunnáttan og tæknin voru lykillinn að allri velmegun.“

 

Ofbeldishátíðir á þingum

Í þáttunum er fjallað um ofbeldi, bæði á þingum og einnig á heimilunum sjálfum. Fjölmörg dæmi af ofbeldi gagnvart vinnuhjúum eru tíunduð, líkamlegu og kynferðislegu.

Ríkti hér ofbeldismenning?

„Já, gríðarleg,“ segir Baldur með þunga og nefnir að refsigleði Íslendinga hafi gengið fram af Dönum. „Við höfðum þessa vitneskju um uppruna okkar, að við værum komin af vígamönnum, ofbeldismönnum. Það var enginn maður á Íslandi svo aumur að hann ætti ekki forföður sem hafði drepið menn. Þeim mun fleiri sem hann hafði drepið, því meiri sómi þótti að. Þetta endurspeglast í refsigleðinni, til dæmis á þingum þegar verið var að drekkja kvenfólki og hálshöggva karlmenn, hýða fólk til óbóta, pynta og berja. Á þingum, þegar ráðamenn komu saman, voru alltaf refsingar sem mætti líta á sem nokkurs konar ofbeldishátíðir.“

Brauð og leikar, eins og í hringleikahúsum Rómaveldis?

„Það mætti segja það, já. Það hefur verið glórulaust andrúmsloft þarna. Fólk sett í gapastokka við minnsta tilefni og dæmt til húðláts. Upp til hópa voru þetta smælingjar að reyna að ná sér í matarbita, rétt áður en þeir dræpust úr hungri. Þessi skefjalausa grimmd var sérkenni á landinu á þessum tíma.“

Inni á heimilunum endurspeglaðist ofbeldismenningin í húsaganum svokallaða, gegn vinnuhjúum og börnum. Baldur gerir hins vegar ekki lítið úr þeirri staðreynd að þessir hópar hafi einnig sætt hörku og ofbeldi í öðrum löndum.

Sennilega eru erfiðustu hlutar þáttanna frásagnir af förukonum. Margar þeirra höfðu komið ungar sem vinnukonur á bæi, verið nauðgað af húsbóndanum og hraktar á brott þegar þær báru barn hans undir belti. Gengu þær, illa klæddar og betlandi, milli bæja með króga sinn og urðu margar þeirra úti í vondum veðrum.

Fékk skítkast
Sumir tóku þáttunum sem árás á bændur samtímans.

Hollt að reiðast

„Ég held að mun fleiri séu móttækilegir fyrir þessari sögu í dag en þegar þættirnir voru sýndir,“ segir Baldur. Eins og margir muna vöktu þættirnir sterk viðbrögð. Sumir lýstu hrifningu sinni en aðrir urðu fokvondir og kröfðust þess að Ríkissjónvarpið stöðvaði sýningarnar.

„Það þjónar engum tilgangi að setja saman efni sem ekki kemur við nokkurn mann. Ég segi sem betur fer urðu margir reiðir, alveg hoppandi vondir. Reiðin er hluti af eðlilegu sorgarferli. Þegar sú glansmynd sem fólk hefur búið sér til um fortíðina er brotin, þá bregðast menn reiðir við.“

Baldur setur þetta í samhengi við nútímann, tíma samfélagsmiðla og hneykslunar.

„Þjóðin fær reglulega reiðikast. Það er engin þjóð í heiminum sem tekur eins mikil reiðiköst og eins oft og Íslendingar, kannski átta til tíu virkilega góð á ári. Til dæmis Klaustursmálið og mál Jóns Baldvins Hannibalssonar. Þetta er kannski einhver leið þjóðarinnar til að hreinsa úr sér skítinn og ég held að þetta sé að mörgu leyti hollt. Ég tók því ekki illa þegar skömmunum rigndi yfir mig á sínum tíma og hef ekki erft það við nokkurn mann.“

Áberandi var hversu mikill munur var á viðbrögðum borgarbúa og landsbyggðarfólks. Innfæddir Reykvíkingar tóku þeim mun betur en til dæmis Páll Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins, sem skrifaði harðorðan pistil.

Tóku sumir þáttunum sem árás á bændur samtímans?

„Já. Það þótti mér merkilegt og hafði ekki séð það fyrir. Meiningin var alls ekki að ráðast á bændur samtímans.“

Baldur segir hamaganginn jafnframt hafa sýnt að sagan skiptir fólk máli.

„Rétt eins og þín eigin fortíð skiptir þig máli. Saga forfeðranna er líka þín saga og hún snertir hjartað.“

 

Kraftur einfaldleikans

Hvernig tók fræðasamfélagið þáttunum?

„Ég tók eftir því að það var svolítill pirringur á meðal sagnfræðinga. Þeim fannst eins og það væri verið að stela frá sér, að þetta væri svið sem þeir ættu að sitja einir að. Það var að minnsta kosti mín tilfinning.“

Í þáttunum eru notuð sterk orð, til dæmis orðið nauðgun, sem fólk var ekki vant að heyra í sjónvarpinu heima hjá sér árið 1993. Þetta hispursleysi var væntanlega viðhaft meðvitað?

„Já. Ég starfaði um tíma hjá DV, undir Jónasi Kristjánssyni. Ég gerði mér því algerlega grein fyrir því hvað hispursleysið býr yfir miklum krafti, sem tepruskapurinn gerir ekki. Þegar þú setur mál þitt fram með tepruskap ertu að veikja málstaðinn. Einfaldleikinn og hispursleysið býr yfir krafti og fólk skilur það.“

Söguáhugi Baldurs hefur ekki dvínað eftir að hann settist í helgan stein. Milli þess sem hann spilar golf og teflir skákir á netinu, les hann sögubækur. Nú síðast góðar bækur Þórunnar Jörlu Valdimarsdóttur um Skúla fógeta og Snorra á Húsafelli og telur þær góðan efnivið í sjónvarpsþætti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Fögnuður Óskars í Noregi vekur mikla athygli – Af hverju var þetta lag undir?

Fögnuður Óskars í Noregi vekur mikla athygli – Af hverju var þetta lag undir?
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Þetta eru leikirnir sem liðin í titilbaráttu eiga eftir – Hvar endar sá stóri?

Þetta eru leikirnir sem liðin í titilbaráttu eiga eftir – Hvar endar sá stóri?
Eyjan
Fyrir 10 klukkutímum

Um átta af hverjum tíu óánægð með að Bjarni hafi sest í stól forsætisráðherra

Um átta af hverjum tíu óánægð með að Bjarni hafi sest í stól forsætisráðherra
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Bjarni og Inga nokkuð sammála um að kostnaður við árshátíð Landsvirkjunar hafi verið verulegur

Bjarni og Inga nokkuð sammála um að kostnaður við árshátíð Landsvirkjunar hafi verið verulegur
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Hefur fulla trú á sínu liði gegn ógnarsterkum andstæðingi – „Þurfum að horfa á okkur sjálfa en ekki of mikið á þá“

Hefur fulla trú á sínu liði gegn ógnarsterkum andstæðingi – „Þurfum að horfa á okkur sjálfa en ekki of mikið á þá“
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Málinu sem klauf kirkju aðventista vísað frá – Lambafell og Litla-Sandfell flutt til sementsgerðar í Þýskalandi

Málinu sem klauf kirkju aðventista vísað frá – Lambafell og Litla-Sandfell flutt til sementsgerðar í Þýskalandi
Fókus
Fyrir 13 klukkutímum

Ofurskutlan sem enginn veit hvort sé á föstu eða ekki er með skilaboð til einhleypra kvenna

Ofurskutlan sem enginn veit hvort sé á föstu eða ekki er með skilaboð til einhleypra kvenna
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Mikil gleðitíðindi fyrir Víking

Mikil gleðitíðindi fyrir Víking