Aron Ívar Benediktsson er einkaþjálfari í Reykjanesbæ. Hann sýnir hvernig hægt er að gera 50 mismunandi æfingar með einni æfingateygju.
Nú þegar líkamsræktarstöðvar hafa lokað þarf fólk að æfa heima fyrir. Margir eiga erfitt með að finna út úr því hvað sé hægt að gera með litlum eða engum búnaði. En möguleikarnir eru nánast endalausir eins og Aron Ívar sýnir í nýju myndbandi á YouTube.
Fyrir stuttu byrjaði Aron Ívar að deila myndböndum eða pistlum vikulega á Facebook-síðu sinni.
„Tilgangurinn með því er að koma heilsu og hreyfingu meira á framfæri. Svo þegar þessi veira skellur á datt mér í hug að setja inn þetta æfingamyndband með teygjum þar sem þær eru ódýrar, fyrirferðarlitlar og hægt að gera lygilega margar styrktaræfingar með þeim,“ segir hann í samtali við DV.
Þetta þarf ekki að vera flókið. Horfðu á myndbandið hér að neðan.
Í síðustu viku greindum við frá því að íslenskt íþróttafólk væri að deila alls konar heimaæfingum sem allir ættu að geta gert.