fbpx
Föstudagur 23.júlí 2021

Stjörnuspá fyrir árið 2020 – Ástin, fjármálin, framinn og heilsan

Ritstjórn Bleikt
Miðvikudaginn 1. janúar 2020 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú gengur nýja árið brátt í hönd og því fannst spákonu DV tilvalið að lesa í stjörnumerkin fyrir árið sem heilsar og athuga hvað það ber í skauti sér fyrir stjörnumerkin okkar.

Hrútur
21. mars–19. apríl

Happatölur: 4, 11, 36
Happadagur: Miðvikudagur

Ástin

Ástalífið er stöðugra en það hefur verið undanfarin ár. Hrúturinn er búinn að læra mikið inn á sjálfan sig og tilfinningar og er loksins farinn að uppgötva að hann sjálfur er nóg. Hrútar sem eru í sambandi ættu samt að varast að tala ekki mjög opinskátt og hispurslaust við makann um málefni sem þeir veit að makinn á erfitt með að opna sig um. Þótt hrúturinn þekki vel inn á sig sjálfan verður hann einnig að bera virðingu fyrir tilfinningum annarra – annars gæti sambandið verið í hættu. Einhleypir hrútar eru sjálfum sér nógir þetta árið og engin alvarleg ástarsambönd í kortunum. Þeir ættu frekar að styrkja vinasamböndin og fara meira út með sínum nánustu. Árið er nefnilega fullt af skemmtilegum vinasamkomum og hver veit – kannski bankar ástin á dyr þegar þú átt síst von á?

Framinn

Þú hefur leynt og ljóst verið að setja þér markmið í vinnu eða skóla og klífur metorðastigann hratt en örugglega. Þú skalt búa þig undir að það klifur taki mikið á þig andlega. Þú finnur fyrir meiri orku og vinnugleði í byrjun árs sem hjálpar þér að koma þér af stað. Þegar líða fer á árið færðu sífellt meira krefjandi verkefni og í lok árs nærðu markmiðum þínum með stæl. Þú ættir að eyða meiri tíma utan vinnu í áhugamálin þín í staðinn fyrir að hanga fyrir framan sjónvarpið. Með því að leysa sköpunarkraft úr læðingi eykur þú árangur þinn í vinnu eða skóla.

Fjármálin

Fjárhagur er nokkuð góður. Í raun einkennist allt árið þitt af stöðugleika og þar eru fjármálin engin undantekning. Mundu bara að spara afgangseyrinn og koma upp varasjóð – það á eftir að vera mikið heillaspor.

Heilsan

Þér líður betur líkamlega og andlega. Það er að þakka þessari miklu sjálfskoðun sem þú hefur verið í síðustu vikur og mánuði. Þú finnur fyrir meira jafnvægi og það auðveldar þér að hugsa betur um hvað þú borðar. Þess vegna er orkustig þitt hátt og framkvæmdagleðin fylgir.

stjornuspa

Naut
20. apríl–20. maí

Happatölur: 3, 19, 42
Happadagur: Þriðjudagur

Ástin

Nú er kominn tími til að þú skoðir þín nánustu sambönd og ákveðir hvað þú raunverulega vilt út úr þeim. Þú vilt kannski ekki breyta til þegar kemur að ástinni, en það borgar sig til lengri tíma litið. Það er algjör óþarfi að hanga í óhamingjusömu sambandi. Opnaðu þig og vittu til – kannski er maki þinn sama sinnis. Einhleyp naut eru með sjarmann í botni og þurfa að passa sig á tilfinningum annarra. Ekki gefa öðrum óþarflega mikið undir fótinn ef þú ætlar ekki að standa við stóru orðin.

Framinn

Ef þú vinnur við skrifborð allan daginn í frekar skrifstofulegu andrúmslofti þá ættir þú að huga að því að finna þér vinnu þar sem þú leysir sköpunarkraftinn úr læðingi. Þú ert nefnilega miklu meira skapandi en þú heldur og rútína og fyrirsjáanleiki í vinnu hentar þér illa. Þér gengur ágætlega í vinnunni en ættir jafnvel að spá í að stofna þitt eigið fyrirtæki til að geta verið þinn eigin herra.

Fjármálin

Þú lentir í fjárhagskröggum árið 2019 sem eiga eftir að smita út í árið 2020. Þú þarft að setja það í forgang að laga það eins fljótt og þú getur. Það er dýrt að skulda og erfitt að hafa fjárhagsáhyggjur hangandi yfir sér langt fram á vor.

Heilsan

Þú hefur einnig fundið fyrir því að heilsu þinni hrakar. Þú verður að setja þig í fyrsta sæti þegar kemur að því og velja rétt. Ekki velja mat, drykk eða hreyfingu sem lætur þér líða illa.

stjornuspa

Tvíburar
21. maí–21. júní

Happatölur: 22, 50, 91
Happadagur: Sunnudagur

Ástin

Þetta er svo sannarlega ár rómantíkurinnar eftir mörg mögur ár. Árið 2019 stóðstu á krossgötum. Árið 2020 veistu nákvæmlega hvað þú vilt og þú ætlar að sækjast eftir því. Ástin ber á dyr og áður en þú veist af hrífur hún þig með sér. En þú ert með báða fætur á jörðinni því þú ætlar ekki að lenda aftur í sambandi með einstaklingi sem heldur aftur af þér. Þú þarft að fá að blómstra og þú þarft að fá rými til að segja þínar skoðanir án þess að vera dæmd/ur fyrir þær.

Framinn

Það virðist sem uppsagnir hafi átt sér stað á vinnustað þínum og þær halda áfram á nýja árinu. Þótt þú sért örugg/ur með vinnu þá tekur þetta á móralinn og þú byrjar að leita þér að nýju starfi. Þig langar að söðla um og gera eitthvað allt annað. Þig langar í álagsminni vinnu og stekkur á tækifæri sem þér finnst kannski galið. Sú vinna er erlendis og þótt erfitt sé að flytja búferlum þá verður þetta mikið gæfuspor í þínu lífi.

Fjármálin

Þú ert svo sem ekki í vanda stödd/staddur en peningar á milli handanna mættu vera meiri. Þú hefur ávallt verið skynsöm/samur þegar kemur að peningum og ef þú átt eitthvað eftir þegar þú hefur lagt inn á sparireikning ættir þú að gera eitthvað skemmtilegt fyrir rest.

Heilsan

Þú hefur verið að taka þig á, hreyfa þig meira og borða skynsamlegar. Þú grennist á nýja árinu og styrkist, sem veitir þér mikla ánægju. Þú hefur meira sjálfstraust og ánægðari með þig.

stjornuspa

Krabbi
22. júní–22. júlí

Happatölur: 26, 75, 99
Happadagur: Mánudagur

Ástin

Þú lærir mikið um þig sjálfa/n út frá því hvernig aðrir sjá þig. Það er ýmislegt í fari þínu sem getur stundum gert þína nánustu gráhærða en þú bætir það upp með þínum endalausa sjarma og húmor. Árið 2020 er frábært ár til að finna ástina fyrir krabba, svo lengi sem þeir hafa ekki fundið hana nú þegar. Þú þarft samt fyrst að hugsa hvað þú vilt í þínu langtíma sambandi – ekki bara hoppa upp í bíl með hverjum sem er. Veldu vel, kæri krabbi. Þú sérð ekki eftir því.

Framinn

Það koma upp einhver átök á vinnustað. Þú ert ekki í hringiðunni heldur fremur áhorfandi. Samt sem áður taka þessi átök sinn toll og þú efast um stöðu þína. Það leiðir af sér að þú ferð í samkeppni við vinnufélaga. Það er hollt að fara í samkeppni en þú skalt muna að berjast á heiðvirðann hátt, en ekki tapa gildum þínum í æsingi og vitleysu. Hvatvísi er þinn helsti kostur og þú skalt læra að beisla hana.

Fjármálin

Í peningamálum ert þú sveipuð/aður mikilli lukku. Þú færð óvænt mikið fé á fyrstu mánuðum ársins og þú þarft engar áhyggjur að hafa. Þú hefur átt sama áhugamálið mjög lengi og árið 2020 verður það áhugamál að aukavinnu sem gefur vel í aðra hönd.

Heilsan

Þú skalt varast að hætta að hreyfa þig. Þú ert alltaf á iði og það gefur hjartanu, æðum og lungum mikið og gott súrefni. Það versta sem þú getur gert er að drabbast niður í hreyfingarleysi. Mundu það.

stjornuspa

Ljón
23. júlí–22. ágúst

Happatölur: 6, 13, 84
Happadagur: Sunnudagur

Ástin

Breytingar einkenna ástalífið 2020. Í raun umbreytingar. Þú kemst að einhverju nýju varðandi maka þinn í dag. Þó að þessar upplýsingar séu ekki hræðilegar þá breyta þær samt sýn þinni á makann sem verður til þess að þú verður að endurhugsa sambandið, jafnvel slíta því. Þetta kemur þér ekki á óvart því þú hefur verið að velta þessu fyrir þér í talsverðan tíma og lokaðir augunum fyrir vissum hlutum.

Framinn

Fókusinn er í botni í vinnu eða skóla og þú hefur sjaldan verið orkumeiri. Þú skilar þínu og rúmlega það og samstarfsmenn þínir eru hálfhræddir við þessa framtakssemi. Þú finnur þig aftur eftir áralanga hvíld – þú varst nefnilega alltaf mjög dugleg/ur í vinnu en týndir þér í nokkur ár. Þetta ár verður gjöfult og farsælt vinnulega séð fyrir ljónin þarna úti.

Fjármálin

Þú getur verið algjör eyðslukló, en árið 2020 mætir sparsama ljónið á völlinn. Þú sparar meira en þú eyðir og það er eins og þú sért að búa þig undir magra tíma. Þú átt eftir að þakka fyrir þessa sparsemi síðar meir.

Heilsan

Þig langar að prófa nýja hluti og dregur vini þína með á alls kyns námskeið og skemmtilegheit. Þú hreyfir þig mikið, borðar hollari mat en heldur í nautnasegginn innra með þér. Virkilega góð blanda. Í stuttu máli: Þú verður þú sjálf/ur árið 2020 og verður bættari manneskja þegar því lýkur.

stjornuspa

Meyja
23. ágúst–22 .sept

Happatölur: 9, 11, 38
Happadagur: Laugardagur

Ástin

Meyjan er á grænni grein í ástamálum. Árið 2019 var gjöfult þegar kom að ástinni og árið 2020 verður enn betra. Þú hefur fundið það sem þú leitaðir svo lengi að og gerir hvað sem er til að halda í það. Þú hefur kynnst sjálfri/um þér alveg upp á nýtt síðustu ár og árið 2020 nýtir þú alla þessa visku til að gera líf þitt enn betra. Þú getur alltaf bætt samskiptin við makann og setur það sem markmið á nýja árinu. Einhleypar meyjur geta átt von á því að kynnast draumamakanum í byrjun árs.

Framinn

Þú sérð allt skýrar og sérð hve mikils virði þú ert. Þess vegna sættirðu þig ekki við neitt bull á vinnustaðnum. Ef hlutirnir eru ekki gerðir eftir þínu höfði þá skiptirðu um vinnu. Í raun er mikið rót á þér í vinnulífinu og þú þráir að finna vinnustað sem kann að meta þig almennilega. Að skipta um starfsvettvang gæti verið mjög hollt fyrir þig og þá sérstaklega ef þú söðlar rækilega um.

Fjármálin

Þú bætir þig í fjármálalæsi, enda búin/n að ganga í gegnum alls kyns hæðir og lægðir. Þú lærir betur á peninga og nærð að leggja aðeins til hliðar, þótt erfitt sé. Á vormánuðum færðu stórkostlegt tækifæri sem gefur vel af aurum.

Heilsan

Loksins mætir orkumikla meyjan aftur á sviðið. Þú kemur þér upp rútínu og hugsar vel um þig sjálfa/n eftir margra mánaða dvala. Ekkert nema jákvætt að segja um það – áfram þú!

stjornuspa

Vog
23. sept–22. Okt

Happatölur: 10, 80, 93
Happadagur: Föstudagur

Ástin

Þær vogir sem hafa verið að glíma við erfiðleika í ástarsamböndum þurfa ekki að hafa áhyggjur af þeim árið 2020. Þetta leysist allt og við blasa bjartari tímar – með eða án maka. Ekki gleyma þeim lexíum sem þú hefur lært síðasta árið – það á við öll samböndin í lífi þínu. Einhleypar vogir kæra sig ekkert um ástina en hún gæti bankað upp á. Þá þarft þú að vera viðbúin/n því að velja vel og láta ekki aðra ráðskast með þig.

Framinn

Þú hefur meiri löngun til að vinna mikið, en ekki aðeins í þínu aðalstarfi heldur einnig í áhugamáli þínu. Það er eitthvert áhugamál sem togar rækilega í þig og þú skalt láta undan og láta slag standa. Þetta áhugamál tengist vinnu með höndunum og er það líkt og hugleiðsla fyrir þig. Í byrjun árs kemur nýtt og spennandi atvinnutækifæri upp í hendurnar á þér sem þú ættir að skoða gaumgæfilega áður en þú stekkur á vagninn.

Fjármálin

Engin stórútgjöld eru fyrirsjáanleg, allavega ekki fyrstu mánuði ársins. Því hefur þú nóg á milli handanna og hefur þróað með þér betra vit fyrir peningum. Þú eyðir peningum í þá sem þú elskar, og hefur alltaf gert það. Það er ekkert að fara að breytast.

Heilsan

Ekki láta græðgina verða þér að falli. Láttu sykraðan og feitan mat vera og finndu hreyfingu sem þú hefur gaman af.

stjornuspa

Sporðdreki
23. okt–21. nóv

Happatölur: 19, 23, 63
Happadagur: Laugardagur

Ástin

Það er líkt og þú hafir losnað úr fjötrum fortíðar, sem er dásamleg tilfinning. Nú tekur við ár ástríðunnar þar sem þú hefur nóg af orku og ást til að gefa. Þú kynnir þér nýjar og spennandi leiðir til að upplifa unað og heill heimur opnast. Hvort sem þú ert í sambandi eður ei þá á eitthvað stórt eftir að gerast á árinu, til dæmis nýtt barn eða brúðkaup. Þetta ár mun líða hjá hraðar en þú getur ímyndað þér og því skaltu nýta hvert augnablik og njóta.

Framinn

Þér leiðist í vinnunni og kemur litlu í verk. Þetta þýðir bara eitt: Þú verður að skipta um vinnu. En landslagið á atvinnumarkaði er ekkert til að hrópa húrra yfir og því dregur þú lappirnar með þessa stóru ákvörðun. Það er leti að hrjá þig og þú verður að finna leiðir til að sporna gegn henni – annars dregur hún þig niður í svaðið.

Fjármálin

Þú ert frekar nægjusöm/samur og því hafa fjármál aldrei vafist fyrir þér. Í þeim efnum er lítið að frétta árið 2020 og lífið gengur sinn vanagang.

Heilsan

Þú skalt nýta fyrstu mánuði ársins í að taka mataræðið í gegn. Þú munt finna stóran mun á þér ef þú gerir það. Þú leitar til sérfræðings sem segir þér hvernig þú átt að borða miðað við blóðflokk. Það mun skipta sköpum fyrir orkustigið í líkamanum.

stjornuspa

Bogmaður
22. nóv–21. des

Happatölur: 27, 49, 94
Happadagur: Sunnudagur

Ástin

Hvort sem þú ert einhleypur elsku bogmaður eða lofaður þá er árið 2020 mikið breytingaár. Ef þú ert einhleypur þá er þetta tilvalið ár til að leita að nýjum maka því það er svo mikil ást í loftinu. Ef þú ert lofaður þá þýðir það ekki að þú skiljir heldur fremur að þú leitir hjálpar eða ráðgjafar til að laga það sem er aðeins bogið, áður en það brotnar. Það er engin skömm í því!

Framinn

Þér vegnar vel í vinnunni – betur en þér hefur gengið undanfarin ár. Það er einhver skýrleiki og æðruleysi sem umlykur þig og þú tekur á öllum vandamálum strax í staðinn fyrir að fresta þeim. Þú vinnur mikið og ert oft þreytt/ur eftir vinnu. Það gerir þig leiða/n en þú verður að sama skapi að finna einhverja dægradvöl til að hafa gaman eftir að þú stimplar þig út á daginn.

Fjármálin

Vegna þess að þú vinnur svo mikið þá uppskerðu vel. Þú kannski syndir ekki í seðlum, en í fyrsta sinn á ævinni áttu meira en nóg til að lifa af. Það er stórkostleg tilfinning.

Heilsan

Fylgstu vel með meltingunni því þú gætir verið með einhvers konar kvilla eða sjúkdóm sem gerir það að verkum að þú getur ekki borðað hvað sem er. Reyndu að borða meira af trefjum og leitaðu til læknis.

stjornuspa

Steingeit
22. des–19. janúar

Happatölur: 44, 46, 69
Happadagur: Fimmtudagur

Ástin

Þær steingeitur sem hafa verið stutt saman geta hlakkað til ársins 2020. Það er ár breytinga og stórra ákvarðana; flytja inn saman, búa til börn, trúlofa sig. Það er svo mikil ást í loftinu og þú ert tilbúin/n til að binda þig. Í langtímasamböndum steingeitarinnar verður hins vegar eitthvað að breytast svo hún nenni að gefa meiri ást. Leitaðu til vina þinna og fáðu ástarráð, því nánast öllu er hægt að bjarga ef gripið er inn í nógu snemma.

Framinn

Þú ert einbeittari og orkumeiri í vinnunni. Þú færð meira krefjandi verkefni og færð að kynnast nokkrum viðskiptavinum betur, jafnvel mynda vinasambönd. Þú gleymir samt ekki að sambönd við vinnufélaga eru einnig mikilvæg og þú gerir í því að reyna að bæta þau, sem á eftir að skila sér í góðum árangri almennt í vinnunni.

Fjármálin

Þú gengur í gegnum erfitt tímabil fjárhagslega og þér reynist erfitt að koma þér upp úr lægðinni. Þú ert samt svo klók/ur að þú getur nánast hvað sem er, þannig að ekki örvænta.

Heilsan

Haltu áfram að gera það sem þú hefur verið að gera – það er að virka!

stjornuspa

Vatnsberi
20. janúar–18. febrúar

Happatölur: 17, 28, 42
Happadagur: Miðvikudagur

Ástin

Lofaðir vatnsberar eru einstaklega ástríðufullir þetta árið og finna upp á nýjum og spennandi leiðum til að láta logann brenna sem skærast. Einhleypir vatnsberar leita að hinni einu, sönnu ást þetta árið eftir marga froska í fortíðinni. Sú leit gengur með afburðum vel og gefur af sér samband seinnipart árs sem er til langtíma, jafnvel að eilífu.

Framinn

Þú þarft að varast að vera of hvatvís í vinnunni eða skóla. Þar safnast saman alls kyns ólíkt fólk og þú verður að virða að það er ekki allir eins og þú. Í vinnunni gengur allt á afturfótunum í kringum þig og þú kemur litlu í verk fyrri part árs. Um miðbik ársins verður áfall á vinnustaðnum sem breytir öllu og fær þig til að hugsa þér til hreyfings.

Fjármálin

Það er ekki langt síðan þú glímdir við skuldahala. Nú geturðu hins vegar borgað allar skuldir og fyrir það sem þú þarft. Passaðu þig vel að lenda ekki í skuldafeni aftur.

Heilsan

Þú hefur verið að glíma við einhverja kvilla sem hafa færst í aukana. Nú er kominn tími til að þú leitir til sérfræðings og fáir bót þinna mála – áður en það er of seint.

stjornuspa

Fiskar
19. febrúar–20. mars

Happatölur: 36, 70, 100
Happadagur: Mánudagur

Ástin

Þig þyrstir í ævintýri og stuð en maki þinn gæti haft allt aðrar þarfir en þú. Ætlar þú að setja þínar þarfir í fyrsta sæti eða sætta þig við það sem þú hefur? Það er stóra spurningin sem þú þarft að svara og það sem fyrst. Þú skalt síðan passa þig á afar heillandi manneskju sem getur hvatt þig til að fremja hjúskaparbrot. Ekki gera það elsku fiskur – ljúktu hinu sambandinu áður en þú hoppar upp í rúm með einhverjum öðrum.

Framinn

Þú ert í frábærri vinnu þar sem hæfileikar þínir blómstra. Seinni part árs kemur hins vegar nýr aðili inn á vinnustaðinn sem ógnar þér að einhverju leyti. Það væri dæmigerður þú að leggja árar í bát en þú finnur fyrir nýjum krafti og berst fyrir þínu.

Fjármálin

Þú spáir lítið í fjármálin sem gæti orðið til þess að þú lentir í kröggum. Ekkert alvarlegt, en væri betra að sleppa við það. Passaðu þig!

Heilsan

Þú tekur eftir að slæmir ávanar þínir hafa slæm áhrif á líf þitt. Á vormánuðum einsetur þú þér að sleppa þessum ávönum og tileinka þér nýja og betri. Þú sérð ekki eftir því! Ég sé þig breyta út af vananum og keppa í keppnisíþrótt með góðum árangri.

stjornuspa

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 klukkutímum

Alríkisdómari stöðvar ný fóstureyðingalög í Arkansas

Alríkisdómari stöðvar ný fóstureyðingalög í Arkansas
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Lögregla elti ofbeldismenn upp á Kjalarnes

Lögregla elti ofbeldismenn upp á Kjalarnes
Kynning
Fyrir 5 klukkutímum

Plaköt af verkum Samúels til sölu til uppbyggingar Samúelssafnsins í Selárdal: Hans var aldrei getið í íslenskri listasögu

Plaköt af verkum Samúels til sölu til uppbyggingar Samúelssafnsins í Selárdal: Hans var aldrei getið í íslenskri listasögu
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Víðir er þreyttur, bugaður, fúll, pirraður og leiður

Víðir er þreyttur, bugaður, fúll, pirraður og leiður
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Hjólar í sína fyrrum liðsfélaga – ,,Ótrúlega flatt, bara vond frammistaða“

Hjólar í sína fyrrum liðsfélaga – ,,Ótrúlega flatt, bara vond frammistaða“
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Grunsamlegar mannaferðir í Reykjavík

Grunsamlegar mannaferðir í Reykjavík

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.