fbpx
Sunnudagur 20.september 2020

Sara missti móður sína sex vikum eftir að hún eignaðist barn: „Núna er kominn tími til að stoppa og þora að finna“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Laugardaginn 21. september 2019 10:00

Sara þarf að taka sér hlé frá því að sinna fylgjendum sínum. Mynd: Heiða Dís, Studíó Dís ljósmyndun

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sara Barðdal, einkaþjálfari, heilsumarkþjálfi og eigandi Hiitfit, tilkynnti á Instagram á dögunum að hún ætlaði að taka sér frí frá samfélagsmiðlum. Tilkynningin kom fylgjendum hennar að óvörum, enda Sara dugleg að deila hvatningarorðum, æfingum sem hafa góð áhrif á andlega og líkamlega heilsu og ýmsu öðru heilsutengdu með sínum fylgjendum. Ástæðan fyrir þessu skyndilega brotthvarfi Söru af samfélagsmiðlum á sér hins vegar langan aðdraganda og tengist fráfalli móður hennar árið 2013 – áfall sem hún gróf djúpt niður og ýtti til hliðar.

„Við vorum mjög nánar, sérstaklega síðustu árin hennar, en þá eyddum við miklum tíma saman. Þá hafði sambandið breyst yfir í mikla vináttu þar sem ég var orðin fullorðin og við áttum mikið sameiginlegt,“ segir Sara í samtali við blaðamann um móður sína, Lindu Konráðsdóttur. „Hún var svo sannarlega mín besta vinkona. Við bjuggum einar saman þangað til ég varð níu ára, þá eignaðist ég yndislegan stjúpföður, þannig að fyrstu árin mín vorum við bara tvær saman. Hún var einstaklega skemmtileg, ástrík, glaðlynd og mikill húmoristi. Við gátum skemmt okkur endalaust saman og spjallað um allt milli himins og jarðar. Ég sé núna eftir á hversu heppin ég var með mömmu, hún gaf mér svo mikið og hugsaði vel um mig,“ bætir Sara við og brosir blítt.

Sara Barðdal
Sara ásamt móður sinni, Lindu. Mynd: Aðsend

Gaf gleði á hræðilegum tíma

Móðir Söru greindist með brjóstakrabbamein í lok árs 2008. Meinið færðist yfir í beinin og móðir hennar dó fimm árum seinna.

„Hún var ótrúlega sterk og dugleg þennan tíma og gerði allt til að láta þetta hafa sem minnst áhrif á lífið og okkur sem stóðum henni næst,“ segir Sara er hún rifjar upp þennan tíma. Þegar móðir hennar lá á dánarbeðinum einkenndist líf Söru af miklum andstæðum þar sem sex vikum áður en móðir hennar lést eignaðist hún sitt fyrsta barn, snáðann Alexander.

„Ég hugsa stundum að Alexander hafi algjörlega bjargað mér, hann gaf mér svo mikla gleði á hræðilegum tíma. Eftirvæntingin eftir honum gaf okkur mæðgum einnig mikla bjartsýni og eitthvað til að hlakka til og undirbúa. Hún var svo spennt að fá að sjá hann og ég er handviss um að hún hafi náð að lengja líf sitt því hún var svo harðákveðin í að fá að hitta hann. Hún hafði svo gaman af börnum og þráði ekkert meira en að hitta fyrsta barnabarnið sitt. Henni tókst það svo sannarlega, en fljótlega eftir fæðingu hans hrakaði henni hratt. Ég veit ekki hvernig það hefði verið að hafa ekki þennan litla ljóspunkt í lífi mínu, hann gaf mér eitthvað gott til að einblína á, en það leiddi hins vegar líka til þess að ég ýtti í burtu þessum erfiðu tilfinningum og sorginni. Þetta var mjög furðulegur tími, blandaður missi og gleði, maður vissi ekki hvernig maður átti að höndla þetta,“ segir Sara. Hún segist hafa ýtt sársaukanum við móðurmissinn til hliðar, algjörlega ómeðvitað, og þegar hún horfir til baka í dag er hún handviss um að hún hefði ekki getað tekist á við þessar aðstæður öðruvísi.

„Ég vildi gera allt mitt besta fyrir Alexander og standa mig vel í þessu nýja hlutverki, að hrynja ofan í djúpa sorg var þess vegna ekki í boði fyrir mig,“ segir Sara sem lenti einnig í því að fá sýkingu eftir fæðinguna og þurfti að liggja á spítala. Einnig þróaði hún með sér ofnæmi fyrir pensilíni og var hrædd við að missa mjólkina, eða lenda í einhverju þaðan af verra. „Ég ákvað því að reyna að einblína á allt þetta góða sem ég hafði, á Alexander, vera í góðu jafnvægi og sjá jákvæðu hlutina í lífinu. Það hjálpaði mér mikið á þessum tíma.“

Sara Barðdal
Sara ásamt syni sínum, Baltasar. Mynd: Aðsend

Byrjaði strax að hlaupa

Eftir andlát móður sinnar dýfði Sara sér í vinnu og að láta gott af sér leiða. Hún byrjaði að vinna í heilsubransanum þegar Alexander var nokkurra mánaða gamall og skráði sig í kjölfarið í einkaþjálfaranám. Hún flutti til Danmerkur sumarið 2015 og stofnaði Hiitfit þann 13. nóvember, á dánardegi móður sinnar, og varð ólétt aftur þann vetur. Hún var því að byggja upp fyrirtæki ásamt því að vinna í hlutastarfi, hugsa um einn lítinn snáða og ófrísk að öðrum.

„Eftir að Baltasar Máni kom í heiminn haustið 2016 fór ég á fullt að vinna sjálfstætt sem eina fyrirvinna heimilisins. Þetta hafa verið mjög skemmtileg og spennandi ár. Ég var mjög góð í að halda sjálfri mér upptekinni, sem er algengt hjá fólki á flótta og fólki sem auðkennir sig sem „duglegt“. Ég sé það núna að ég var alltof fljót í gang, ég byrjaði strax að hlaupa, einblína á að komast yfir þetta og halda áfram. Partur af því var hversu góð ég er að „hrista“ hlutina af mér. Ég er líka frekar jákvæð og lausnamiðuð að eðlisfari, sem hefur þjónað mér mjög vel, en það getur líka farið út í öfgar eins og í þessu dæmi. Maður hristir ekki svona missi af sér á nokkrum vikum,“ segir Sara.

Flöt og dofin

Hún segist hafa gert sér grein fyrir því smám saman að hún var að fela sig frá sársaukanum og sorginni.

„Það þurfti nokkur „aha-móment“ fyrir mig til þess að sjá þetta svona skýrt eins og ég sé það í dag. Eitt svoleiðis andartak var þegar ég skoðaði viðhorf mín gagnvart slæmum tilfinningum, en þá var ég að vinna með eins konar markþjálfa. Hún hjálpaði mér að sjá að ég merkti þær ómeðvitað sem veikleika. Ef ég væri leið, sorgmædd eða reið þá væri eitthvað „að“, þannig að ég leyfði mér ekki að upplifa þessar tilfinningar. Þegar maður heldur spegli svona nálægt sjálfum sér fer maður að átta sig á alls konar hugsanavillum sem maður hefur pikkað upp frá fólki í kringum sig, í gegnum uppeldi og umhverfi. Það er ótrúlega hollt og nauðsynlegt að kafa svona ofan í hlutina, virkilega spyrja sjálfa sig hvort það sem maður trúir sé virkilega satt, eða hvort það sé kannski eitthvað sem maður fékk lánað frá einhverjum í fjölskyldunni,“ segir Sara og heldur áfram. „Einnig tók ég eftir því að ég átti stundum erfitt með að sækja þessar góðu tilfinningar, ég upplifði mig frekar flata eða jafnvel dofna. Ég sá að með því að bæla niður þetta vonda, var ég líka að bæla niður þetta góða. Mig langar ekki að lifa þannig og ákvað því að ég yrði að gera eitthvað í málunum.“

Sara Barðdal
Sara ætlar að einblína á sjálfsvinnu næstu vikurnar. Mynd: Aðsend

Samfélagsmiðlar góð flóttaleið

Sara hefur gert ýmislegt til að rækta sig sjálfa og takast á við slæmu tilfinningarnar. Hún hefur farið á námskeið, unnið með þjálfa, farið á ráðstefnur, vinnustofur, hugleitt, skrifað og spjallað við nánar vinkonur.

„Allt hefur þetta hjálpað mér að þeim stað sem ég er komin á í dag og hef ég elskað ferðalagið, enda finnst mér ekkert meira skemmtilegt en að læra og þróa mig áfram sem einstakling. En núna er kominn tími til að stoppa og þora að finna. Ég sá tilvitnunina „To feel is to heal“ um daginn. Ætli það sé ekki mest ógnvekjandi parturinn fyrir mig,“ segir hún og bætir við að hún hafi leitað til Krabbameinsfélags Íslands í byrjun mánaðar þegar hún var stödd hér á landi og einnig fengið góð ráð frá sérfræðingunum þar.

En af hverju að taka frí frá samfélagsmiðlum?

„Eins mikið og ég elska samfélagsmiðlana og veit hvað þeir geta haft jákvæð áhrif þá er mjög lúmskt álag að vera alltaf að hugsa um að vera til staðar fyrir aðra. Vera stanslaust að búa til efni, hugsa hverju væri gaman að deila, hvað mundi hjálpa, hvetja áfram og svo framvegis. Sú vinna byrjar ekki klukkan átta og hættir klukkan fjögur, heldur er hausinn sífellt bundinn við þetta verkefni, frá morgni til kvölds. Þetta var farið að taka mikið á, því sálin mín var byrjuð að öskra á mig að fara að horfa inn á við, sem er afskaplega erfitt þegar hugurinn og einbeitingin er alltaf einhvers staðar annars staðar,“ segir Sara og telur að samfélagsmiðlar séu hentugt skjól fyrir fólk á flótta frá sér sjálfu. „Samfélagsmiðlar eru góð leið til að flýja, við erum aldrei til staðar í núinu, alltaf með hugann inni í þessum tilbúna heimi. Um leið og það opnast tómt rými, grípum við í símann. Það er eins og fólk sé hrætt við að vera eitt með sjálfu sér, upplifa tómarúmið, upplifa hljóð. Þetta er ákveðinn flótti; að vera alltaf að líta út á við, hvað er að gerast í lífi annarra? Í stað þess að horfa á sig. Ég veit að það er mikil vanlíðan hjá fólki vegna samfélagsmiðla, það er að máta sitt líf við glansmynd annarra og bera sig saman við aðra. Þetta veldur erfiðleikum fyrir marga og þessi stöðuga hugsun um „að vera aldrei nóg“ er slítandi. Margir setja í kjölfarið miklar kröfur á sjálfa sig til að geta tékkað í öll boxin og samfélagið virðist hlaupa hraðar og hraðar. Þunglyndi, streita og kulnun virðast sífellt verða algengari. Ég er ekki að kenna samfélagsmiðlum einum um, en ég held að við séum alltof af tengd okkur sjálfum og þurfum að fara líta meira inn á við og hætta að hlaupa.“

Upphafið að einhverju betra

Sara telur að margir séu í sömu sporum og hún var í sjálf – á flótta undan slæmu tilfinningunum, sársaukanum og sorginni. Veruleikanum í raun.

„Það var algengt í gamla daga að eldri kynslóðir töluðu ekki um tilfinningar, það var lítið pláss fyrir þær fyrr á 19. öld, þegar fólk þurfti að hugsa meira um að lifa af, fæða og klæða fjölskylduna sína. Ég veit að margir eru að glíma við leifar af þessum viðhorfum þar sem svona hlutir erfast niður í gegnum uppeldi, kynslóð eftir kynslóð. Einnig held ég að margir vilji halda uppi ákveðinni ímynd, að það sé allt fullkomið hjá þeim. Þessi glansmynd af lífinu sem margir eru með á samfélagsmiðlum er líka pressa á fólk um að ýta þessum slæmu hlutum frá sér og reyna að halda áfram,“ segir Sara og telur jafnvel að sum okkar séum jafnvel hrædd við að finna til. „Það er vont að upplifa slæmar tilfinningar og ég held að flestir vilji það ekki. Viljum við ekki frekar finna þetta jákvæða, gleðina, hamingjuna? En ég held að við þurfum líka að kunna að taka á móti þessu erfiða til þess að virkilega kunna að meta þetta góða. Ég er að læra að leyfa þessu vonda að vera, ekki streitast á móti, ekki loka á. Þá flæðir það frekar í gegn og líður hjá, frekar en að það safnist upp sem spenna í líkamanum.“

Sara hefur fundið fyrir miklum stuðningi síðan hún opnaði sig á Instagram og tilkynnti fjarveru sína frá samfélagsmiðlum, stuðning sem hún segir einmitt eina af jákvæðu hliðum miðlanna. Hún lítur björtum augum á framtíðina og finnur að hún stendur á miklum persónulegum tímamótum.

„Ég ætla að einblína á þetta verkefni næstu vikurnar, leyfa mér að gráta þegar ég þarf að gráta. Leyfa mér að vera leið, sorgmædd og upplifa allt sem kemur. Þegar mig langar að kyngja og ýta niður, að anda þá í staðinn og sleppa takinu. Því aðeins þannig kemst ég í gegnum þetta. Ég held að þetta sé upphafið að einhverju enn betra og að ég muni koma sterkari til baka, hvernig sem það mun líta út, það verður að koma í ljós. Markmið mitt er að verða frjáls og blómstra, því þannig get ég gefið enn meira af mér til annarra.“

View this post on Instagram

Ég hef verið í mikilli sjálfsvinnu síðastliðna mánuði og hef áttað mig á ákveðnum hlutum. Eitthvað sem ég hef ekki verið tilbúin að sjá sjálf. En málið er að þegar mamma dó fyrir tæpum 6 árum þá var Alexander 6 vikna gamall. Ég stóð með nýtt ungabarn í höndunum, glæ ný mamma sem vissi ekkert hvað hún var að gera og nánasta manneskjan í lífi mínu, mamma, sem ég talaði um allt við, kvaddi. 💔 Sársaukinn var svo mikill og það eina sem ég kunni var að ýta honum niður, sleppa því að finna hann. Því þannig komst ég í gegnum dagana. En málið var að ég stoppaði aldrei almennilega og syrgði, ég gat ekki talað um hana án þess að gráta, og sleppti því helst að tala um hana. Svo hélt ég sjálfri mér mjög upptekinni við að vera allt fyrir alla aðra. Standa mig vel, stofna fyrirtæki til að hjálpa öðrum við heilsuna sína, sjá um fjölskylduna o.s.frv. Þetta var í rauninni ákveðinn flótti. Að halda sér rosa upptekinni við að láta gott af sér leiða og allt gekk voða vel! En því sem maður ýtir niður, kemur alltaf upp aftur. Sorgin sem ég hafði unnið svo hart til að hunsa var byrjuð að koma fram í líkamanum. Óunnar tilfinningar setjast að og geta skemmt útfrá sér í birtingarmynd sjúkdóma. Ég finn að tíminn er komin til að leyfa mér að staldra við, hætta að flýja, og finna fyrir þessum erfiðu tilfinningum. Ég get ekki hunsað þennan hluta af mér sem verður að fá að koma fram. Þegar maður er vanur að vera sterkur, jákvæður og peppaður fyrir alla er erfitt að skipta um gír, sérstaklega þar sem ég vinn við það. En ég hef ákveðið að ég þurfi að taka smá pásu frá samfélagsmiðlum, þá sérstaklega story. Mér finnst það mjög scary, en ég finn að það er eitthvað sem ég verð að leyfa mér í þessu ferli. Það hefur verið lærdómsríkt að átta sig á þessu og velti ég fyrir mér hvort það séu ekki fleiri í sömu stöðu, sem finnst þau ekki geta stoppað í kapphlaupi lífsins og unnið úr áföllum. Ég ætla að minnka mínar eigin kröfur á mig, nota næstu vikur og líta innávið, vera til staðar, hér og nú, símalaus 🙏❤️ (eða svona næstum því 🤪 það verður enn hægt að ná í mig) og kem svo til baka þegar ég finn að ég er tilbúin! ❤️

A post shared by Sara Barðdal (@sara_barddal) on

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Heung-Min Son með fernu í sigri Tottenham

Heung-Min Son með fernu í sigri Tottenham
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

„Því miður erum við að sjá að fólk er á ferðinni þegar það er veikt“ – „Heimilisofbeldi hefur aukist mjög mikið“

„Því miður erum við að sjá að fólk er á ferðinni þegar það er veikt“ – „Heimilisofbeldi hefur aukist mjög mikið“
Matur
Fyrir 9 klukkutímum

Maríukakan sem lætur þig ákalla sneið í draumi

Maríukakan sem lætur þig ákalla sneið í draumi
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

„Er virkilega ekki hægt að gera betur?“ spyr Lára – „Líklega ein versta tilfinningin“

„Er virkilega ekki hægt að gera betur?“ spyr Lára – „Líklega ein versta tilfinningin“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Sjáðu myndbandið: Risastórar öldur á Seltjarnarnesi – „Klikkað“

Sjáðu myndbandið: Risastórar öldur á Seltjarnarnesi – „Klikkað“
433Sport
Fyrir 23 klukkutímum

Marta og knattspyrnustjarnan stunduðu ekki kynlíf í hálft ár – Búin að græða tugi milljóna á samfélagsmiðlum

Marta og knattspyrnustjarnan stunduðu ekki kynlíf í hálft ár – Búin að græða tugi milljóna á samfélagsmiðlum
433Sport
Í gær

3. deild karla: 23 mörk í fjórum leikjum

3. deild karla: 23 mörk í fjórum leikjum
Fréttir
Í gær

Skemmtistaðurinn Brewdog opinberar smit á staðnum – „Þessi umræddi starfsmaður var á vakt um síðustu helgi“

Skemmtistaðurinn Brewdog opinberar smit á staðnum – „Þessi umræddi starfsmaður var á vakt um síðustu helgi“

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.