Nú er ég búin að vera heima með veikt barn í nokkra daga og hvað gerir maður þá annað en að baka?
Ég er búin að vera að prufa mig áfram með uppskrift af gersnúðum, sem eru í senn mjúkir að innan en með stökkri skorpu að utan. Og auðvitað þurfa þeir að vera unaðslega bragðgóðir líka 😉
Það þarf aðeins að hafa fyrir því að baka þá, ef maður vill ná þeim fullkomnum, mjúkum og góðum.
Lykilatriðið er að gefa sér góðan tíma til að hnoða deigið 5-10 mínútur í hrærivél með K-inu er alveg nauðsynlegt (Já, ég veit að það virðist vera langur tími, en alveg þess virði) og eins þarf að gefa sér tíma í að láta þá hefast. Ég læt deigið hefast tvisvar. Fyrst læt ég deigið hefast áður en ég flet það út og svo læt ég snúðana hefast áður en ég baka þá.
En hér kemur uppskriftin:
Snúðar: C.a. 18 stk
1000 gr hveiti
1 1/2 tsk salt
1 bréf þurrger
100 gr sykur
4 dl volgt vatn
1 dl volg mjólk
1 dl jurtaolía
Fylling:
Smjör við stofuhita
8msk sykur
2 msk kanill
Blandið saman í skál
Hvítur glassúr:
300gr. Flórsykur
Soðið vatn (c.a. hálfur til 1 dl)
Súkkulaði glassúr:
800gr flórsykur
50gr kakó
3 tsk brætt smjör
1/2 bolli heitt kaffi
1 tappi vanilludropar
1 dl soðið vatn (má sleppa vatninu og nota bara meira af kaffi í staðinn)
Snúðar ~ Aðferð
Setjið saman þurrefnin í hrærivélaskál og blandið aðeins saman. Hitið vatnið og mjólkina svo það sé vel volgt. Hellið vökvanum út í þurrefnin og hnoðið í hrærivélinni. Gott er að hnoða fyrst á hægum hraða og auka svo hraðann. Hnoðið vel saman og látið deigið hefast á volgum stað.
Mér finnst gott að setja plastfilmu eða rakt viskastykki yfir skálina og láta hana í eldhúsvaskinn sem ég hef fyllt af heitu vatni og láta deigið hefast þar.
Takið svo deigið úr skálinni og setjið á borðið, gott er að strá smá hveiti yfir borðplötuna svo deigið festist ekki við hana. Fletjið deigið út smyrjið það með linu smjöri og stráið kanilsykrinum jafnt yfir.
Rúllið upp í lengju og skerið lengjuna í hæfilega stóra snúða og raðið á bökunarplötu.
Setjið rakt stykki yfir snúðana og látið þá hefast á borði í 60 mín.
Einnig er hægt að láta þá hefast í ofninum, en þá hita ég ofninn í 50°c, úða þá með volgu vatni ásamt því að úða ofninn að innan með vatninu. Snúðana læt ég svo hefast í ofninum í ca. 40 mínútur og úða þá á c.a. 20 mín. fresti með vatni.
Takið nú snúðana út úr ofninum og hitið hann í 220°c og bakið snúðana í c.a. 8-10 mínútur.
Súkkulaði glassúr ~ Aðferð
Flórsykri og kakó hrært saman. Smjörið brætt og bætt útí, kaffi og vanilludropum bætt út í og hrært vel saman. Ef þú vilt hafa glassúrinn þynnri, þá má bæta út í hann soðnu vatni eða örlítið meira af heitu kaffi.
Best er að bæta vökvanum smám saman út í svo glassúrinn verði ekki of þunnur.
Færslan er skrifuð af Fríðu B. Sandholt og birtist upphaflega á bloggsíðu hennar.
Snapchat: fridabsandholt