Fyrsta plata Kuldabola, Vafasamur lífsstíll, er gefin út af Hið myrka man
Köld, harðger og groddaleg en jafnframt melódísk raftónlist, sem vísar í hljóðheim níunda og tíunda áratugarins, með hrjúfa og lífræna áferð sem fæst meðal annars með heimasmíðuðum hljóðgervlum og trommuheilum.
Þannig mætti lýsa tónlistinni á fyrstu plötu Kuldabola, Vafasamur lífsstíll, sem kom út á dögunum hjá grasrótarútgáfunni Hið Myrka Man.
Kuldaboli er sólóverkefni Arnars Más Ólafssonar sem hefur meðal annars gefið út raftónlist undir nafninu Ultraorthodox en var áður gítar- og bassaleikari í ýmsum þungarokkhljómsveitum.
„Ég byrjaði í hardcore-pönki og metalcore-i – spilaði á gítar og bassa í jaðarsenunni sem var þá í gangi – en ég hafði alltaf áhuga á raftónlist samhliða því. Þegar síðasta hljómsveitin sem ég var í, Celestine, hætti sá ég ekki fram á að nenna að spila meira pönk eða þungarokk, svo ég fór að gera tónlist einn í tölvunni og gefa út undir nafninu Ultraorthodox,“ segir Arnar Már, en tvær plötur hafa komið út undir þeim hatti á síðustu árum og vakið nokkra athygli.
Hann segir hins vegar vera grundvallarmun á þessum tveimur verkefnum, enda sé tónlist Ultraorthodox öll smíðuð á tölvuhugbúnað en hljóðin á Kuldabola komi úr utanáliggjandi rafhljóðfærum, jafnt aðkeyptum sem heimasmíðuðum.
„Fyrir um það bil tveimur árum seldi ég bassann minn og keypti nokkra gamla eitís-„syntha“ í staðinn og fór að smíða lög á þá. Upp frá því fór ég að hafa mjög mikinn áhuga á „analog hardware“ og datt inn á D.I.Y. samfélag á netinu með áherslu á heimasmíðuð hljóðfæri, þá byrjaði ég að smíða mínar eigin græjur: hljóðgervla og trommuheila. Smám saman söfnuðust upp lögin sem ég hafði gert á þessi hljóðfæri svo ég ákvað að stofna Kuldabola. Um það bil helmingur hljóðanna á plötunni er framkallaður á heimasmíðuð hljóðfæri. Þannig að ég held ennþá í D.I.Y. nálgun pönksins,“ segir Arnar og vísar þar í hin alþekktu einkunnarorð pönksins „gerðu það sjálfur“ eða „do it yourself.“
„Kuldaboli hljómar allt öðruvísi en það sem ég hef verið að gera með Ultraorthodox. Það er allt önnur stemning, þetta átti líka að vera meira „In-your-face“, hrárra, ekki jafn dularfullt og svo vildi ég leyfa mér að vinna með einhvern svartan húmor,“ segir Arnar Már en húmorinn má ekki síst greina í yfirmáta þungbúnum lagatitlum á borð við Alvarleiki ástandsins, Maður er negldur, Hugarfóstureyðing og Nýtt heimsmet í kvíðakasti karla.
„Góður lagatitill getur gert lag miklu sterkara. Þetta eru bara mismunandi hliðar á sama teningnum. Það skiptir máli fyrir upplifunina á laginu að nafnið passi,“ segir Arnar Már.
Vafasamur lífsstíll kemur út hjá grasrótarútgáfunni Hið myrka man, sem er rekið af Sólveigu Matthildi og Margréti Rósu úr Kælunni miklu.
„Við Sólveig höfðum lengi talað um að hún myndi gefa eitthvað út eftir mig. Þær eru að gera mjög kúl hluti með þessa útgáfu. Þetta er algjör grasrót og ég fíla stemninguna í kringum hana. Dulvitund-platan er mjög góð og líka tónleikarnir sem þær hafa verið að halda.“
Nú er platan þegar komin út á netinu en er væntanleg á kassettu og geisladisk, af hverju notast þú við það útgáfuform?
„Það er svo ógeðslega dýrt að pressa vínyl, en það er ekki dýrt að gera geisladiska. Mér fannst kúl að nota þetta format – sem er alveg að verða úrelt. Mig langaði líka að gera eitthvað meira en stafræna útgáfu, eitthvað sem fólk gæti fengið í hendurnar.“
Útgáfutónleikar Kuldabola fara fram á Gauknum í kvöld, föstudaginn 6. janúar. Húsið verður opnað klukkan 21.00 en tónleikarnir hefjast seint. Aðgangseyrir er 1.000 krónur og Vafasamur lífsstíll 2015-2016 verður til sölu.