fbpx
Sunnudagur 14.desember 2025

Pistill: Bréfið á stigapallinum

Ritstjórn DV
Laugardaginn 23. júlí 2016 18:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég er að flytja og það kemur ýmislegt í ljós við slíkan gjörning. Það hefur glatt mig, sérstaklega á ögurstundum þegar ég er við það að sækja mér gröfu til að moka út, að finna póstkort, afmæliskort og bréf á víð og dreif um íbúðina. Og hvort það hefur. Ég hef notið þess að lesa afmæliskort, póstkort frá öllum heimsálfum og svo stöku sendibréf, sem mér hafa borist á ýmsum stigum ævi minnar. Pökkunarferlið hefur fyrir vikið verið heldur seinlegt.

En svo fann ég bréfið. Ég man ekki eftir að mér hafi borist það. Ég hef verið sautján ára og var búsett erlendis þegar það kom. Líklega hef ég lesið það, og skellt örlítið upp úr að gamansemi vinkonu minnar sem skrifar svo skemmtilega að ég verð stundum græn af öfund þegar ég verð vitni að þessari náðargáfu.

Ég brosti þegar ég fann bréfið, faðmaði það að mér og settist á stigapallinn til að lesa það. Hún hafði skrifað það á línustrikað blað, með litríkum penna. Mig grunar að hún hafi jafnvel stolist til að skrifa það í tíma í skólanum. Það væri alveg eftir henni.

En það er víst efni bréfsins sem mig langar að segja frá. Í bréfinu byrjar þessi ágæta vinkona mín að segja mér frá kvöldstund sem hún og aðrar vinkonur mínar höfðu eytt saman – eða svona að mestu leyti. Þær voru að skemmta sér, ein þeirra átti afmæli. Þær voru ungar, sætar og sumar áttu meira að segja kærasta. Ekki þessi vinkona mín þó. Hún var laus og liðug og fór að skemmta sér. Á þessum tíma var það eiginlega hennar sérgrein enda geislandi fögur, klár og skemmtileg.

Lýsingar hennar á kvöldinu eru eins og að horfa á kvikmyndasenu – svo ljóslifandi sé ég þær fyrir mér: hana renna hýru auga til pilts í partíinu sem þær héldu, aðra vinkonu mína vilja komast snemma heim og enn aðra sannfæra þá þreyttu um að keyra þær þó að minnsta kosti í bæinn áður en hún skriði undir sæng heima. Sem hún og gerði, því í næstu andrá voru þær komnar á djammið í Reykjavík.

Í bænum kynntist bréfritarinn pilti. Hún fór í smá göngutúr með honum. Svo fóru þau heim til hans. Hún vildi fara að sofa, en hann linnti ekki látunum fyrr en hún hafði gert hluti – sem hún alls ekki vildi gera. Lýsingarnar á þessum hlutum eru ekkert verr skrifaðar en aðrar lýsingar bréfsins. Rithöndin er sú sama, sami tóninn, en undirliggjandi er tregafullur ómur; þegar hún segir mér frá vandræðaganginum daginn eftir, hvernig hún vildi komast heim, hvernig hann „þakkaði henni fyrir“ og hversu illa henni leið þegar heim var komið. Hún kennir sjálfri sér um, vitnar til þess að ástand hennar hafi verið frekar bágborið. Hún tekur ábyrgð á því sem gerðist. Ábyrgð sem var svo sannarlega ekki hennar.

Ég hélt áfram lestrinum með herkjum, enda bréfið hnausþykkt. Þar sem hún sat á bömmer, alein heima og með sjálfsásakanirnar í fimmta gír hringdi önnur vinkona okkar í hana. Ein þeirra úr partíinu hafði nefnilega endað kvöldið heima, með kærastanum sínum. Ég man eftir honum, sérstaklega hvað við vorum allar skotnar í honum. Hann var og er talsvert eldri en við. En sá hafði þó raunar fallið nokkuð í áliti sagði bréfritarinn, enda hafði hann harðneitað að setja upp smokk þetta örlagaríka kvöld. Vinkonu okkar bráðlá því á að komast í apótek. Þar afhentu þær 2.000 krónur fyrir „morguninn eftir pilluna“. Hann hafði beðið hana að hringja í vinkonur sínar og bjarga þessu. Þetta var náttúrlega „hennar vandamál.“

Ég veit ekki hvort sautján ára gamla ég meðtók þessi skilaboð. Ég man það ekki. Ég sat sem slegin á stigapallinum. Hvernig gat þetta hafa gerst? Hvernig gat þetta hafa farið framhjá mér. Ætli hún sé búin að vinna úr þessu – ætli hún vilji ræða þetta? Bréfið lá þungt eftir í kjöltu minni eftir lesturinn. Ég fann hvernig hrollurinn læsti sig um mig. Hvernig gat ég ekki hafa séð alvarleika málsins fyrr. Hvernig mundi ég ekki hvað gerðist? Af hverju var ég bara fyrst núna að átta mig á þessu? Ég ákvað að ræða við bréfritarann um þetta og segja frá þessum fundi mínum. Spyrja hvort það væri í lagi að ég segði frá.

Hún tekur ábyrgð á því sem gerðist. Ábyrgð sem var svo sannarlega ekki hennar.

Við vorum sammála um að á þessum tíma hafi sárvantað vitneskjuna um að við gætum sett mörk, að okkur væri leyfilegt að setja mörk, segja nei, segja stopp. Að það mætti ekki vaða yfir þessi mörk – að það væri ofbeldi. Að nei, þýddi nei. Ég vona að ég hafi verið góð vinkona þegar þetta gerðist, meðvituð, skilningsrík og hughreystandi. Getað blásið þeim hugrekki í brjóst. Ég vona að þær hafi sagt einhverjum hvað gerðist – einhverjum sem gat hjálpað þeim. Einhverjum sem gat sett þetta í samhengið sem við virðumst ekki hafa haft þroska til.

Ég vona það, því þegar ég las bréfið aftur áttaði ég mig á því, að þrátt fyrir gamansaman tóninn var það fullt óverðskuldaðra sjálfsásakana og neyðarópa sem stukku upp af pappírnum. Líklega var ég ekki manneskja til þess þá – en ég skil núna. Ég veit að ábyrgðin er gerandans. Ég vil að þær viti að ég er til staðar. Ég vona að þær hafi unnið sig út úr þessu. Ég vona að þær mæti í druslugönguna.

Pistillinn birtist í helgarblaði DV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Faðir fékk áfall þegar TR krafði hann um meðlagsgreiðslur þrátt fyrir jafna umgengni og staðfest samkomulag við barnsmóður

Faðir fékk áfall þegar TR krafði hann um meðlagsgreiðslur þrátt fyrir jafna umgengni og staðfest samkomulag við barnsmóður
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Unglingar niður í 16 ára aldur sagðir hafa fengið frían bjór í Ungliðapartý Miðflokksins

Unglingar niður í 16 ára aldur sagðir hafa fengið frían bjór í Ungliðapartý Miðflokksins
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Kolla hefur samúð með Þórunni: „Getur ekki verið skemmtilegt hlutskipti að vera skyldaður til að hlusta á stjórnarandstöðu landsins“

Kolla hefur samúð með Þórunni: „Getur ekki verið skemmtilegt hlutskipti að vera skyldaður til að hlusta á stjórnarandstöðu landsins“
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

„Kaffistofan er ekki endastöð, hún getur verið upphaf að nýju lífi“

„Kaffistofan er ekki endastöð, hún getur verið upphaf að nýju lífi“
Fókus
Fyrir 17 klukkutímum

Gímaldin gefur út nótnahefti og helmingur rennur til verkefna á Gaza

Gímaldin gefur út nótnahefti og helmingur rennur til verkefna á Gaza
Fókus
Fyrir 18 klukkutímum

Bókinni ætlað að kynna börn fyrir veiði og gefa skjánum frí

Bókinni ætlað að kynna börn fyrir veiði og gefa skjánum frí
433Sport
Fyrir 21 klukkutímum

Hættir í fótbolta – Greindist með sjúkdóm eftir að hafa fallið í yfirlið á æfingu

Hættir í fótbolta – Greindist með sjúkdóm eftir að hafa fallið í yfirlið á æfingu
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Stórtækir þjófar létu greipar sópa á Hornafirði

Stórtækir þjófar létu greipar sópa á Hornafirði
433Sport
Fyrir 23 klukkutímum

Amorim veit ekki hvort lykilmenn geti spilað á mánudag

Amorim veit ekki hvort lykilmenn geti spilað á mánudag
433Sport
Í gær

Stefán segir stjórnarmann bersýnilega hafa komið sér undan að ræða málefnið – „Eins og það væri bara einhver verkaskipting og kæmi honum ekkert við“

Stefán segir stjórnarmann bersýnilega hafa komið sér undan að ræða málefnið – „Eins og það væri bara einhver verkaskipting og kæmi honum ekkert við“